1Þegar Jónatan sá, að hann hafði nú hentugan tíma, kjöri hann menn, og sendi til Rómaborgar til að staðfesta og endurnýja vináttuna við þá (Rómverja).2Og til Spörtumanna og annarra staða sendi hann líka bréf í sama tilgangi.3Þeir fóru til Rómaborgar, gengu inn í ráðstofuna og mæltu: Jónatan æðsti prestur, og Gyðinga þjóð, sendi oss, til að endurnýja vináttuna við þá og félagsskapinn, eftir því sem áður var.4og þeir afhentu þeim bréf til þeirra á hvörjum stað, að þeir létu þá fara með friði til Júdeu lands.5Og þetta er afskrift af bréfunum sem Jónatan skrifaði Spartverjum:6„Jónatan æðsti prestur, og öldungar þjóðarinnar, og prestarnir, og hinn annar Gyðinga lýður, senda Spartverjum, bræðrum sínum, kveðju sína!7Fyrir löngu síðan voru bréf send til Oniasar æðsta prests frá Daríusi, sem var kóngur meðal yðar, að þér væruð bræður vorir, eins og stendur í afskriftinni.8Og Onías tók heiðurlega móti sendimanninum, og tók við bréfunum, er berlega var samið í um stríðsfélag og vináttu.9Og þó vér þurfum þess nú ekki við, þar eð vér höfum huggun af enum helgu bókum, er vér höfum í höndum:10þá vildum vér þó reyna að senda, til að endurnýja við yður bræðrafélagið og vináttuna, svo að vér verðum ekki ókunnugir yður, því nú er langur tími liðinn síðan þér senduð til vor.11Þar fyrir minnumst vér yðar óaflátanlega bæði á hátíðunum og á öðrum hæfilegum dögum, við offurgjörðir vorar og bænahöld, eins og skylt er og sæmilegt að minnast bræðra.12Vér fögnum yfir tign yðvarri.13En margar þrautir hafa umkringt oss, og mörg stríð, því kóngarnir í kringum oss hafa herjað á oss.14En vér vildum ekki ónáða yður, né hina liðsbræður og vini vora, í þessum stríðum;15því vér höfum aðstoð af himnum, sem hjálpar oss, og vér höfum orðið frelsaðir frá óvinum vorum, og óvinir vorir hafa orðið lítillækkaðir.16Nú höfum vér kjörið Númeníus Antíokusson og Antípater Jasonsson, og sent þá til Rómverja til að endurnýja við þá vináttuna og hinn fyrri liðssamning.17En vér höfum boðið þeim, að fara einnin til yðar, og heilsa yður, og afhenda yður bréfin frá oss um endurnýjun bræðrafélags vors.18Færi yður nú vel, ef þér svöruðuð oss upp á þetta.“
19Þetta er afskrift af bréfinu sem hann (Spörtukóngur) sendi:20„Oniares Spartverjakonungur heilsar Oniasi, æðsta presti!21Það hefir fundist í ritum, bæði um Spartverja og Gyðinga, að þeir séu bræður, og að þeir séu af Abrahamsætt.22Og fyrst vér nú vitum þetta, þá fer vel á því, að þér skrifið oss um yðar frið (hagi).23Og vér skrifum yður aftur: fénaður yðar og eignir heyra oss til, og það sem vér eigum, heyrir yður til; bjóðum vér nú að þeir skili þessu til yðar“.
24Jónatan frétti, að liðsforingjar Demetríusar væru komnir aftur með mikinn her, meiri en áður, til að berjast við sig.25Fór hann þá frá Jerúsalem og mætti þeim í héraðinu Amatitis, því hann vildi ekki gefa þeim tóm til að komast inn í sitt land.26Sendi hann njósnarmenn í herbúðir þeirra, þeir komu aftur og skýrðu honum frá, að þeir væru búnir að raða sér svona, til að ráðast á þá um nóttina.27En eftir sólarlag skipaði Jónatan mönnum sínum að vaka, og vera undir vopnum, og búast við bardaga um alla nóttina; líka setti hann útverði umhverfis herbúðirnar.28Þá fréttu mótstöðumennirnir, að Jónatan og menn hans væru búnir til bardaga, urðu þeir því hræddir og hugskelfdir, og kyntu elda í herbúðum sínum.29En þeir Jónatan vissu þetta ekki fyrri en snemma um morguninn, því þeir sáu eldana brenna.30Jónatan elti þá, en náði þeim ekki, því þeir vóru komnir yfir fljótið Elevterus.31Þá sneri Jónatan móti arabiskum, sem nefnast Sabedear, vann þá, og rænti herfangi.32Síðan tók hann sig upp, kom til Damaskus og fór yfir allt landið.33Símon tók sig líka til og fór allt til Askalon og víggirðinganna þar í grennd, hélt til Joppe, og tók hana;34Því hann hafði heyrt að bæjarmenn ætluðu að gefa vígið upp fyrir Demetríusar mönnum; setti hann þar varðlið til að geyma borgarinnar.35Jónatan kom nú aftur, stefndi öldungum lýðsins á samkomu, og ráðgaðist við þá um að byggja víggirðingar í Júdeu,36og hækka betur girðingarnar kringum Jerúsalem, og hlaða hávan og stóran múrvegg milli vígsins og borgarinnar, til að skilja það frá borginni, svo að það væri sér, að þeir hvörki seldu þar né keyptu.37Söfnuðust menn til að byggja borgina, svo hún náði að girðingunni við lækinn, sem var að austanverðu, og luku þeir við partinn, sem kallaður er Kafenata.38Og Símon byggði Adidu í Sefelu, og gjörði hliðin rambyggileg með slagbröndum.
39Tryfon leitaðist við að verða kóngur í Asíu, og setja upp kórónuna, og útrétta hönd sína móti Antíokus kóngi.40En hann var hræddur um, að Jónatan mundi aldrei líða sér það, heldur mundi hann berjast við sig, leitaði hann því tækifæris til að ná Jónatan til að drepa hann, fór hann af stað og kom til Betsan.41Jónatan fór út á móti honum með fjörutíu þúsund útvaldra stríðsmanna, og kom til Betsan.42Þegar Tryfon sá, að Jónatan var kominn með mikið lið, þorði hann ekki að útrétta hendur sínar móti honum;43heldur tók honum virðuglega, bauð öllum vinum sínum að heiðra hann, gaf honum gjafir, og skipaði liði sínu að hlýða honum eins og sjálfum sér.44Og hann sagði við Jónatan: til hvörs hefir þú ónáðað allt þetta fólk, þar eð ekki horfir til ófriðar okkar á milli!45Láttu þá nú fara heim til sín, en veldu þér fáeina menn til að vera hjá þér, og kom með mér til Tólómeu, skal eg gefa hana þér á vald, og hinar víggirðingarnar, og herliðin, og alla embættismennina, síðan ætla eg að hverfa aftur og fara burt, því í þessu skyni hefi eg hingað farið.46Hann (Jónatan) trúði honum, og gjörði eins og hann sagði, lét herinn fara burt, og fóru þeir til Júdeulands.47En þrjú þúsund manns lét hann vera eftir hjá sér, og skildi tvö þúsund af þeim eftir í Galíleu, en þúsund fóru með honum.48En þegar Jónatan var kominn inn í Tólómeu, lokuðu Tólómeuborgarmenn hliðunum, handtóku hann, og drápu með sverði alla sem inn höfðu farið með honum.49Og Tryfon sendi lið og riddara til Galíleu, og til ens mikla sléttlendis, til að afmá alla, sem héldu með Jónatan.50Þegar þeir urðu þess áskynja, að Jónatan væri fanginn og veginn, og menn hans, þá hvöttu þeir hvör annan, og fóru af stað í hóp, búnir til bardaga.51Og þeir sem ofsóttu þá, sáu, að líf sitt var í veði, og sneru þá aftur.52En hinir komust allir með friði heim í Júdeuland, og syrgðu Jónatan, og menn hans, og voru mjög hræddir, og allur Ísrael harmaði mjög.53Og allir heiðingjarnir umhverfis þá leituðust við að afmá þá, því þeir sögðu: þeir hafa hvörki fyrirliða né hjálparmann, látum oss þar fyrir herja á þá, og afmá minningu þeirra meðal manna.
Fyrsta Makkabeabók 12. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:05:51+00:00
Fyrsta Makkabeabók 12. kafli
Jónatan endurnýjar sáttmálann við Rómverja og Spörtumenn, hræðir Demetríusar her, verður svikinn af Tryfon.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.