1Ef maður finnst veginn í því landi, sem Drottinn þinn Guð mun gefa þér til eignar, og hann liggur á víðavangi, en enginn veit hvör hann hefir vegið,2þá skulu öldungar þínir og dómendur fara þangað út og mæla veginn til borganna sem liggja næstar í kringum þann vegna;3en hvör borgin, sem næst liggur hinum vegna, þá skulu öldungarnir í þeirri borg taka kvígu af hjörðinni, sem ekki hefir verið þrælkuð, og ei hefir arðinn dregið,4og skulu þeir leiða hana að sírennandi læk niðrí dal, sem hvörki verður yrktur né sáður, og þar við lækinn skulu þeir höggva af henni höfuðið;5þá skulu ganga þar að prestarnir, synir Leví,—því þá útvaldi Drottinn þinn Guð, að þeir skyldu þjóna sér, og blessa í sínu nafni, og skal leita þeirra atkvæða í öllum deilum og stórmálum—6og allir öldungar í þeirri borg sem næstir eru hinum vegna, skulu þvo hendur sínar yfir kvígunni, sem hálshöggin var við lækinn,7og skulu fara svofelldum orðum: Vorar hendur hafa ekki úthellt þessu blóði, og augu vor hafa ekki heldur séð það,8vertu, Drottinn miskunnsamur þínu fólki Ísrael sem þú hefir útleitt, og lát þá ei gjalda þessa saklausa blóðs sem úthellt er á meðal þíns fólks Ísraels, heldur fyrirgef þeim víg þetta.9Þannig skaltu fría þig við það saklausa blóð hjá þér og gjöra það rétt er í augum Drottins.
10Ef þú leggur út í leiðangur móti óvinum þínum og Drottinn þinn Guð gefur þá í þínar hendur, svo þú leiðir þá með þér hertekna,11og þú sér meðal hinna herteknu konu, sem er fríð sýnum, og leggst á hugi við hana, svo þú vildir taka þér hana til eiginkonu,12þá haf hana inn í þitt hús, en hún raki höfuð sitt og láti skera sér nöglur;13hún fari úr fötum þeim sem hún var hertekin í, dvelji síðan í húsi þínu, og syrgi föður sinn og móður sína einn mánaðartíma, síðan máttu taka saman við hana og samsænga henni svo sem konu þinni;14en falli svo að þú hafir ei lengur þokka til hennar, þá skaltu láta hana fara þangað sem hún vill sjálf, ei máttu selja hana við verði, né gjöra hana ánauðuga, fyrst þú hafðir lagst með henni.
15Ef nokkur hefir tvær eiginkonur, eina sem hann elskar, og aðra sem hann hatar, og bæði sú sem hann elskar og sú hann hatar, fæða honum syni, en svo vill til, að sá frumgetni er með þeirri sem honum var í kala við,16og nú kemur sá tími, að hann skipti með sonum sínum, þá má hann ekki ætla syni þeirrar elskuðu frumgetningsréttinn, meðan sonur innar hötuðu er enn á lífi, sem var sá frumgetni;17skal hann miklu fremur kannast við son innar hötuðu sem sinn frumgetinn og gefa honum tvöfalt af öllu sem hann á, því að hann er hans fyrsti kraftur og ber honum frumgetningsrétturinn.
18Ef nokkur hefir þrjótan son, óhlýðinn, sem ei vill gegna áminningum föður síns og móður, og sem ekki vill skipast að heldur þó þau hirti hann,19þá skal faðir hans og móðir taka hann og fara með hann til öldunga borgarinnar í borgarhliðið,20og segja við öldunga staðarins: þessi sonur okkar er þrjótur, óhlýðinn og vill ekki gegna okkar áminningum, hann er svallari og vínsvelgur;21skulu þá allir innbyggjarar í staðnum grýta hann í hel; þannig skaltu skilja við þig þann vonda á meðal þín, svo að allur Ísrael megi það frétta og óttast.
22Þegar einhvör hefir framið þá synd, að hann er dauðaverður fyrir, og er hengdur á gálga,23þá skal líkami hans ekki vera á gálganum næturlangt, heldur skal hann jarða samdægris, því sá er bölvaður af Guði sem hengdur verður, en þú mátt ekki saurga landið sem Drottinn þinn Guð hefir gefið þér að arfi.
Fimmta Mósebók 21. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T00:59:56+00:00
Fimmta Mósebók 21. kafli
Um þann sem enginn veit hvör vegið hefir, um hertekna konu, frumgetningsrétt, þrjótan son og hengdan mann.
V. 9. Þannig skaltu forlíkunarfórn færa fyrir saklauss manns líflát.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.