1Á þriðja ári ríkis Jójakims, konungs í Júdaríki, fór Nebúkadnesar Babelskonungur með her móti Jerúsalemsborg, og settist um hana;2og Drottinn gaf Jójakim, konung Júdaríkis, á vald hans, og þar með nokkrar af gersemum Guðs húss, lét konungurinn flytja þær til Sínearslands, og lagði gersemarnar í goðafjárhirslu sína.3Konungurinn bauð Aspenasi, sínum æðsta hirðstjóra, að velja nokkura unga menn meðal Ísraelsmanna, af konungsættinni eða öðrum höfðingjaættum,4sveina þá, er engin lýti hefði, væri fríðir sýnum, vel viti bornir, menntaðir og til vísinda fallnir, og hæfilegir til að þjóna í höll konungsins og bauð að kenna þeim bókmenntir og tungumál Kaldeanna.5Konungurinn ætlaði þeim daglegan skammt af þeim konunglegu kræsingum og af því víni, sem hann sjálfur drakk, og ætlaði svo til, að þá skyldi uppala í þrjú ár, og að þeim liðnum skyldu þeir þjóna frammi fyrir konunginum.6Meðal þessara voru þeir Daníel, Hananía, Mísael og Asaría, af Júdamönnum;7en sá æðsti hirðstjóri breytti nöfnum þeirra, og kallaði Daníel Beltsasar, Hananíu Sadrak, Mísael Mesak, og Asaríu Abednegó.8Daníel hafði einsett sér að saurga sig ekki á kræsingum konungsins, eða á því víni, sem hann drakk, og mæltist því til af hirðstjóranum, að hann þyrfti ekki að saurga sig þar með;9og Guð gaf Daníeli það, að hirðstjórinn var honum mildur og líknsamur.10Hirðstjórinn sagði til Daníels: eg óttast, að minn herra, konungurinn, sem hefir tiltekið yðar mat og drykk, sjái yður yfirbragðsdaufari, en aðra jafnborna sveina, og verðið þér svo þess ollandi, að eg fyrirgjöri lífi mínu við konunginn.11Þá sagði Daníel til Melsars, sem hirðstjórinn hafði sett yfir þá Daníel, Hananíu, Mísael og Asaríu:12gjör tilraun við oss, þjóna þína, í 10 daga, og gef oss kálmat að eta og vatn að drekka,13skoða síðan vort yfirbragð og svo yfirlit þeirra æskumanna, sem eta af kræsingum konungsins, og breyt svo við oss, þjóna þína, eftir því sem þér þá líst á oss.14Hann lét þetta eftir þeim, og gjörði tilraun við þá í 10 daga;15en að þeim 10 dögum liðnum reyndist það, að þeir voru yfirbragðsbetri og þriflegri, en allir þeir æskumenn, sem lifðu við kræsingar konungsins;16tók Melsar þá frá þeim þær kræsingar og það vín, sem þeim hafði verið ætlað, og gaf þeim kálmat.17Guð gaf þessum fjórum æskumönnum kunnáttu og greind í alls konar bókmenntum og vísindum; en Daníeli gaf hann skilning á allsháttar vitrunum og draumum.18En er liðinn var sá tími, sem konungur hafði tiltekið að þeir skyldu koma á fund sinn, þá leiddi hirðstjórinn þá fram fyrir Nebúkadnesar.19En er konungur talaði við þá, fannst enginn af þeim öllum, sem væri jafningi þeirra Daníels, Hananíu, Mísaels og Asaríu, og voru þeir teknir í konungs þjónustu;20og hvervetna þegar konungur ráðfærði sig við þá í þeim hlutum, sem viturleik og skilning þurfti við að hafa, þá fann hann þá tíu sinnum fremri en alla kunnáttumenn og stjörnuvitringa í gjörvöllu hans ríki.21Daníel dvaldist (í Babýlon) allt til fyrsta árs Sýrusar konungs.
Daníel 1. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:03:30+00:00
Daníel 1. kafli
Daníel er herleiddur til Babýlonar og menntaður þar, 1–7; hans sparneytni, 8–16, atgjörvi, framför í vísindum og spádómsgáfa, 17–21.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.