1Þá komu til hans farísear og nokkrir skriftlærðir menn, er komnir vóru frá Jerúsalem;2og er þeir sáu, að nokkrir af lærisveinum hans tóku til sín fæðu með vanheilögum höndum, það er: óþvegnum,3(því farísear og Gyðingar yfirhöfuð fá sér ekki mat, nema þeir áður taki handlaugar, og fylgja þeir í þessu tilskipunum öldunganna; ekki heldur eta þeir matvæli, sem á torgi eru keypt, nema þeim sé áður dýft í vatn,4og margt annað er það, er þeir hafa undirgengist að gæta, svo sem er þvottur á drykkjarkerum, könnum, eirkerum og borðbekkjum):5Þá tóku farísear og hinir skriftlærðu svo til orða: því fylgja lærisveinar þínir ekki tilskipunum hinna gömlu, heldur matast með óhreinum höndum?6Jesús mælti: snoturlega hefir Esajas fyrirsagt um yður, þér skinhelgir! það skrifað er: „lýður þessi heiðrar mig með vörunum, en hjörtu þeirra eru langt frá mér;7þeirra dýrkan á mér er hégómleg, er þeir kenna það, sem eru manna tilskipanir.“8Þér skeytið ekki boðum Guðs, en haldið fast við mannatilskipanir, svo sem er þvottur á könnum og drykkjukerum, og margt fleira þess háttar gjörið þér.9Enn framar sagði hann: dáfallega vitið þér að ónýta Guðs boð, svo þér getið fylgt yðar eigin setningum!10því Móses hefir sagt: „heiðra föður þinn og móður, og hvör hann formælir föður eður móður, skal réttdræpur“;11þar á mót segið þér: ef einhvör segir við föður eður móður: eigur þær, hvað með eg kynni að hjálpa þér, eru heitfé,12þá leyfið þér honum ekki að gjöra foreldrum sínum nokkuð gott framar af þeim,13og ónýtið þannig Guðs lög, með yðar eigin tilskipunum, þeim er þér sjálfir hafið tilsett; og margt annað gjörið þér þessu líkt.14Síðan kallaði hann saman allan lýðinn, og tók svo til máls: hlýðið mér allir, og gefið gaum að því eg segi!15ekkert er það fyrir utan manninn, sem inn í hann fer, er hann kunni saurga, heldur það, sem útfer af manninum, það er það sem saurgar hann.16Hvör hann hefir eyru að heyra, hann heyri!17En er hann var kominn inn frá fólkinu, spurðu lærisveinarnir hann um þýðingu þessarar dæmisögu.18Jesús mælti: eruð þér einninn svo skilningslausir? skynjið þér ekki, að ekkert af því, sem utan frá kemur inn í manninn, getur saurgað hann;19því ekki fer það inn í hjarta hans, heldur í magann, hvaðan það fer, eftir eðlilegri rás, hvör eð fæðuna hreinsar.20Þar á mót, sagði hann, það sem útfer af manninum, saurgar hann;21því að innan frá hugskoti mannsins koma illar hugrenningar, hór, frillulífi, manndráp,22þjófnaður, fégirni, illmennska, hrekkvísi, óstjórnlegt líferni, öfund, lastmæli, drambsemi, guðleysi;23allt þetta kemur að innan og saurgar manninn.
24Héðan fór hann þar til, er skilur land Týrusar og Sídónar, og gekk þar inn í hús nokkurt, og vildi að enginn skyldi verða var við, en gat þó ekki dulist,25því kona nokkur, hvörrar dóttir kvalin var af óhreinum anda, frétti til hans, kom og féll honum til fóta;26hún var heiðin, sýrlensk að ætt, úr Fenisía. Þessi kona beiddi hann að reka djöfulinn út frá dóttur sinni.27Jesús mælti: lofaðu börnunum að matast fyrst, því ekki sæmir að taka brauðið frá þeim og snara því fyrir hvolpa.28Satt er það, Herra! sagði hún; þó eta hvolparnir molana undir borðum barnanna.29Hann mælti: sökum þessa svars, þá far þú heim, djöfullinn er útfarinn af dóttur þinni.30Og er hún kom heim, fann hún að djöfullinn var útfarinn, en dóttir hennar lá í rekkju.31Frá landamerkjum Týrusar og Sídónar fór hann aftur til sjávarins í Galílæu, yfir Dekapólisland;32hér færðu þeir honum mann daufan og málhaltan; þeir báðu hann að leggja hendur yfir hann.33Jesús veik honum til síðu frá fjölmenninu, stakk fingrum sínum í eyru honum, hrækti frá sér, og hrærði við tungu hans,34leit upp til himins, andvarpaði og sagði við hann: E f f a t a! það þýðir: opna þú þig!35Og strax opnuðust hans hlustir, og haft hans tungu losnaði, og hann talaði skýrt.36Frá þessu bannaði hann að segja nokkrum; en þess meir sem hann bannaði þetta, því framar víðfrægðu þeir það,37og sögðu næsta undrunarfullir: allt gjörir hann dásamlega, því heyrnarlausum gefur hann heyrn og mállausum mál.
Markúsarguðspjall 7. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:04:15+00:00
Markúsarguðspjall 7. kafli
Jesús tekur í forsvar lærisveina sína, útrekur djöful; læknar daufan og málhaltan.
V. 1. Matt. 15,1. V. 2. Lúk. 14,38. V. 6. Es. 29,13. V. 10. 2 Mós. 20,12. 21,17. V. 24–30. sbr. Matt. 15,21–28. V. 31–37. sbr. Matt. 15,29–31. (Lúk. 11,14).
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.