VII.
Þar komu og til hans Pharisei og nokkrir af hinum skriftlærðu sem komnir voru af Jerúsalem. Og þá þeir sáu nokkra af hans lærisveinum meður almenningshöndum, það er meður óþvegnum, eta brauð ávítuðu þeir þá. [ Því að Pharisei og allir Gyðingar eta eigi nema þeir þvoi oftsinnis sínar hendur, haldandi so öldunganna setninga. Og þá þeir komu af torgum þá neyttu þeir eigi nema þeir skíruðu sig áður. Og margir aðrir hlutir eru þeir hverjir þeim voru settir að varðveita, sem var hreinsun drykkjarkera, bikara, búgagns og borða.
Þá spurðu Pharisei og hinir skriftlærðu hann að: „Því ganga þínir lærisveinar ei eftir setningum öldunganna heldur eta þeir brauðið með óþvegnum höndum?“ En hann svaraði og sagði til þeirra: „Næsta vel þá spáði Esaias af yður hræsnurum, sem skrifað er: Fólk þetta heiðrar mig með vörunum en þeirra hjarta er langt frá mér. Og til ónýtis dýrka þeir mig kennandi kenningar og boðorð manna. Þér yfirgefið Guðs boðorð og haldið mannanna uppsetninga, sem er um fæging krúsa og drykkjarkera og margt annað þessu líkt þa gjöri þér.“
Og hann sagði til þeirra: „Fínlega þá hafi þér Guðs boðorð gjört ónýt að þér mættuð svo geyma yðvarn uppsetning. Því að Moyses sagði: Heiðra föður þinn og móður en hver hann bölvar föður eða móður sá skal dauða deyja. En þér segið: Þegar nokkur segir föður og móður: [ Korban, það er: Ef eg offra því það kemur þér meir til gagns, hann gjörir vel, og eigi þá leyfi þér honum framar nokkuð að gjöra föður sínum né móður sinni, ónýt gjörandi svo Guðs orð fyrir yðar setninga þá þér hafið sjálfir uppsett. [ Og margt annað þvílíkt þa gjöri þér.“
Hann kallaði þá fólkið aftur til sín og sagði til þeirra: [ „Heyrið mér og undirstandið mig. Þar er ekkert fyrir utan í manninn innfarandi það hann fái saurgað heldur það sem út af manninum gengur, það er það sem mannninn saurgar. Hver hann hefir eyru að heyra, sá heyri.“
Og er hann gekk inn í húsið burt frá fólkinu spurðu hans lærisveinar hann að þessari eftirlíking. En hann sagði til þeirra: „Eru þér og so skilningslausir? Og skilji þér enn eigi að allt það sem fyrir utan er og innfer í manninn það fær eigi saurgað hann? Því að það fer eigi inn í hans hjarta heldur fer það í magann og gengur so út eftir eðlilegri rás hver eð úthreinsar allan mat.“ Og hann sagði: [ „Hvað eð útfer af manninum það saurgar manninn því að af innan úr hjartanu mannsins þá framganga vondar hugrenningar, hórdómar, frillulífi, manndráp, þjófnaður, ágirni, illvilji, undirhyggja, munaðlífi, illt tillit, guðlastanir, drambsemi, vanvirðing. Allt þetta vont þa gengur út af innan og saurgar manninn.“
Hann stóð upp og fór þaðan í landsálfur Tyri og Sidonis og gekk þar inn í eitt hús og vildi það öngvan vita láta en fékk þó eigi dulið sig. [ Því að ein kona, strax er hún heyrði af honum, hverrar dóttir er hafði óhreinan anda, gekk inn og féll til fóta hans (en það var ein grísk kona syrophenice ættar) og hún bað hann að reka út djöfulinn frá dóttur sinni. En Jesús sagði til hennar: „Leyf þú að börnin mettist áður því að það er eigi tilheyrilegt að taka brauðið barnanna og kasta því fyrir hundana.“ En hún svaraði og sagði til hans: „So er það, herra. En þó eta hundar sem eru undir borðinu af molum barnanna.“ Hann sagði þá til hennar: „Fyrir sakir þessa orðs þá far héðan. Djöfullinn er útfarinn frá þinni dóttur.“ Og hún gekk þaðan í sitt hús og fann stúlkuna í sæng liggjandi og djöfulinn útfarinn.
Og þá hann gekk burt aftur úr byggðarlagi Tyri og Sidonis kom hann til sjávar í Galilea, í miðjar byggðir þeirra tíu staðanna. [ En þeir leiddu til hann daufan mann þann er og var dumbi og báðu hann að hann legði hendur yfir hann. En hann veik honum afsíða frá fólkinu og stakk sínum fingri í hans eyru, hrækti út, snart og hans tungu, leit upp til himins, andvarpaði og sagði til hans: „Hefeta“, það er: „Opna þig.“ Og strax þá opnuðust hans eyru. Þá uppleystist og einnin hans tunguhaft so hann talaði rétt. Og hann fyrirbauð þeim að segja það neinum. En því meir er hann fyrirbauð þeim það þess meir þá víðfrægðu þeir það. Þeir undruðust það næsta mjög og sögðu: „Allt þa hefir hann vel gjört. Því daufa lætur hann heyra og mállausa mæla.“