1Sjá! mínum þjóni, sem eg leiði við hönd mér, mínum útvalda, á hvörjum eg hefi velþóknan, honum hefi eg minn anda gefið; hann mun kunngjöra þjóðunum, hvað rétt er.2Hann mun ekki kalla, ekki hafa háreysti, og ekki heyra láta raust sína á strætunum.3Hinn brákaða reyrinn mun hann ekki í sundur brjóta, og hinn dapra línkveik mun hann ekki útslökkva; hvað rétt er, mun hann trúlega kunngjöra.4Hann mun ekki daprast og ekki uppgefast, uns hann fær komið réttri skipun á landið, og fjarlægar landsálfur munu eftir hans lögmáli vænta.5Svo segir Guð Drottinn, sá er skóp himininn og útþandi hann, sá eð útbreiddi jörðina með öllu því, er á henni sprettur, sá eð andardrátt gefur þjóðum jarðarinnar, og lífsanda þeim, sem á henni ganga:6Eg Drottinn hefi kallað þig til hjálpræðis, eg held í hönd þína og gæti þín; eg set þig til þess að staðfesta sáttmála þjóðarinnar, og til að vera ljós heiðingjanna,7til að opna þau hin blindu augun, og til að útleiða úr varðhaldinu þá sem bundnir eru, og úr dýflissunni þá, er í myrkrunum sitja.
8Eg em Drottinn; það er mitt nafn; mína dýrð gef eg ekki hjáguðum, né mitt lof úthöggnum líkneskjum.9Hinir eldri spádómar, þeir eru fram komnir, en nú kunngjöri eg nokkuð nýtt, og læt yður heyra það, áður en nokkuð vottar fyrir því.10Syngið Drottni nýjan lofsöng, flytjið hans lofstír frá enda veraldar, þér sjófarendur og allir sem á hafinu búið, þér fjarlægu landsálfur og þeirra innbyggjendur!11Hátt kalli eyðimörkin og hennar borgir, og tjaldbúðir þær, er Kedaringar búa í; lofsyngi þeir, sem búa í Selaborg, kalli þeir fagnandi af fjallatindunum!12Gefi þeir Drottni dýrðina, og kunngjöri hans lof í hinum fjarlægu löndunum!
13Drottinn fer út, sem hetja; hann elur á sínum hugmóð, sem bardagamaður; hann kallar, hann lýstur upp herópi, hann sýnir sig voldugan yfir sínum óvinum.14Eg hefi í langa tíma þagað, verið hljóður, og stillt mig; nú vil eg hljóða hátt, sem jóðsjúk kvinna, eg vil hrinda frá mér öndinni, og gefa rúm reiði minni þegar í stað:15eg vil svíða fjöllin og hálsana, og skrælna láta allt grængresi, sem á þeim vex: eg vil gjöra vatnsföllin að þurrlendi, og láta stöðuvötnin uppþorna.16En þá hina blindu vil eg leiða um þá vegu, sem þeir ekki rata, eg vil færa þá um þá stigu, sem þeir ekki þekkja; myrkrið fram undan þeim vil eg gjöra að ljósi, og krókóttar leiðir að beinni braut; þessu hefi eg heitið, og því skal eg ekki bregða.17Hinir skulu hörfa aftur á bak og verða sér til smánar, sem treysta úthöggnum skurðgoðum, og segja til hinna steyptu líkneskjanna: „þér eruð vorir guðir“.18Heyrið, þér hinir daufu! lítið upp, þér hinir blindu, að þér megið sjá!19Hvör er svo blindur, sem minn þjón, svo daufheyrður, sem minn sendiboði, sá er eg útsendi? Hvör er svo blindur, sem sá, er ætti að aðhyllast mig, svo blindur, sem þjón Drottins?20Þú sér margt, en athugar það ekki; þú hefir opin eyrun, en heyrir þó ekki.21Eigi að síður ann Drottinn þeim, sökum trúfesti sinnar; því hann vill gjöra sitt lögmál stórt og veglegt.22Og þó er þetta fólk rænt og ruplað, þeir eru allir fjötraðir í gryfjum og byrgðir í myrkvastofum; þeir eru orðnir að herfangi, án þess nokkur sé til að frelsa þá; þeir eru orðnir að ránsfeng, án þess nokkur segi: „skilið því aftur“.23Hvör er nú sá yðar á meðal, sem gefa vilji gaum að þessu? Hann taki eftir og athugi eftirleiðis.24Hvör var það, sem lét Jakobsniðja verða að herfangi, og seldi Ísraelsmenn ræningjum í hendur? Var það ekki Drottinn, hann, móti hvörjum vér syndguðum, á hvörs vegum þeir ekki vildu ganga, og hvörs lögmáli þeir ekki hlýddu?25Þess vegna jós hann yfir þá eldi sinnar reiði og styrjaldarofsa; hún kveikti upp loga umhverfis í kring um þá, en þeir skeyttu því ekki: hún brenndi þá, en þeir sinntu því ekki.
Jesaja 42. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:02:48+00:00
Jesaja 42. kafli
Drottins Þjón; lofsöngur Guði til dýrðar; Guðs réttlæti og miskunnsemi.
V. 6. Staðfesta sáttmála þjóðarinnar, staðfesta þann sáttmála, sem Guð gjörði við sitt fólk, uppfylla þau fyrirheit, sem þjóðinni voru gefin. V. 11. Kedaringar, hirðaraþjóð í Arabia, komin af Kedar, syni Ísmaels (1 Mós. 25,13). sjá Es. 21,17. Selaborg, á norðanverðri Arabía, í djúpum dal, innilukt af ógengum fjöllum. V. 12. Gefa dýrðina, er hér sama sem að vegsama. V. 16. Hina blindu, þ. e. Gyðinga lýð, sjá 19. v. V. 19. Minn þjón, þ. e. Gyðingalýður, samanb. 44,2.21. 41,9.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.