1Þegar allt þetta kemur yfir þig, annað hvört blessanin eða (bölvanin), sem eg hefi lagt fyrir þig, að þú leggur þér það á hjarta á meðal þeirra þjóða til hvörra Drottinn þinn Guð rekur þig,2og þú snýr þér aftur til Drottins þíns Guðs, og gegnir, bæði þú og niðjar þínir, hans raustu af öllu hjarta og allri sálu, í öllu sem eg legg fyrir þig í dag;3þá mun Drottinn þinn Guð gjöra enda á þinni herleiðingu og aumkast yfir þig, og safna þér aftur saman af öllum þjóðum á meðal hvörra Drottinn þinn Guð hafði dreift þér;4þó þú svo hefðir tvístrast allt til heimsskauta, þá mun þó Drottinn þinn Guð samansafna þér og koma þér þaðan,5og hann mun koma þér í það land sem þínir feður hafa átt, að þú eignist það, og hann mun gjöra enn betur til þín, og fjölga þér enn meir en þínum forfeðrum,6og Drottinn þinn Guð mun umskera þitt hjarta og þinna niðja hjarta, svo að þú elskir Drottin þinn Guð af öllu þínu hjarta og af allri sálu—þar er þitt líf undirkomið.7En Drottinn þinn Guð mun snúa öllum þessum óblessunum á óvini þína, á þá sem hata þig og ofsækja;8en ef þú snýst þannig og hlýðir raustu Drottins, svo þú breytir eftir öllum hans boðorðum sem eg legg fyrir þig í dag, þá mun Drottinn Guð þinn farsæla þig í öllum þínum starfa,9með barnaláni, með ávexti af þínum fénaði og þinni jörðu, svo þér gangi vel; Drottinn mun þá aftur fara að hafa yndi af að gjöra þér gott, eins og hann hafði yndi af því við þína forfeður,10ef þú aðeins gegnir raustu Drottins þíns Guðs, í því að halda hans boðorð og setninga sem skrifaðir eru í þessari lögbók, ef þú aðeins snýr þér til Drottins þíns Guðs af öllu hjarta og af allri sálu.11Því það boðorð **) sem eg hefi lagt fyrir þig í dag er ekki svo erfitt fyrir þig eða fjarlægt.12Ekki er það upp í himninum svo þú þurfir að segja: hvör ætli fari fyrir oss upp í himininn og sæki það fyrir oss, og útlisti, svo vér getum breytt eftir því;13það er ekki hinumegin hafsins, svo þú þurfir að segja: hvör skal vilja fara fyrir oss yfir hafið til að sækja það og útlista oss, að vér fáum breytt eftir því;14því það boðorð liggur mjög nærri þér, það er í þínum eigin munni og hjarta, svo að þú getur þess vegna breytt eftir því.
15Sjá! eg legg fyrir þig í dag lífið og það hið góða, dauðann og hið vonda,16með því eg býð þér í dag að þú skulir elska Drottin Guð þinn og ganga á hans vegum og varðveita hans boðorð, lögmál og setninga, svo þú megir lifa og fjölga, og Drottinn þinn Guð blessi þig í því landi sem þú fer nú til að eignast;17en ef þér snýst hugur og hlýðir ekki, en lætur villa þig svo þú tilbiðjir annarlega guði og dýrkir þá,18þá kunngjöri eg yður í dag, að þér munuð tortýnast og ekki lengi lifa í því landi, sem þú ert nú á leiðinni að eignast þegar þú ert kominn yfir um Jórdan.19Kveð eg í dag himin og jörð til vitnis yfir yður, að eg hefi lagt fyrir yður lífið og dauðann, blessanina og bölvanina; veldu þá lífið, svo að þú og þinir niðjar megi lifa;20elskið Drottin yðar Guð, og hlýðið hans raustu og haldið yður til hans, því þar er þitt líf undirkomið og langgæfur aldur í því landi sem Drottinn hefir svarið að gefa þínum forfeðrum Abraham, Ísaak og Jakob.
Fimmta Mósebók 30. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:00:02+00:00
Fimmta Mósebók 30. kafli
Guð miskunnar þeim er sjá að sér.
**) Nl. að halda við trúna á þeim eina sanna Guði.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.