Drottinn bannar fórnfæringar nema hjá samkundutjaldbúðinni. Að borða blóð, o.s.fr.

1Drottinn talaði ennframar þannig við Móses:2Tala þú til Arons og sona hans og allra Ísraelsbarna og seg þeim að það sé Drottins boð:3að hvör sá af Ísraels húsi sem slátrar nautkind, eða sauðkind, eða geit í herbúðunum eða fyrir utan þær, og4leiðir það ekki fram fyrir samkundutjaldbúðardyrnar ef hann ætlar að fórnfæra það Drottni, fram fyrir hans bústað, hann skal vera blóðsekur; hann hefir blóði úthellt, og skal upprætast frá sínu fólki;5þar fyrir skulu Ísraelsbörn koma með þeirra slátursfórnir, sem þeir vanir hafa verið að slátra á mörkinni, og færa þær Drottni, til dyra samkundutjaldbúðarinnar, til prestsins; þar skulu þeir slátra þeim Drottni svo sem þakklætisfórnum,6og presturinn skal stökkva blóðinu á altari Drottins (sem stendur) fyrir framan samkundutjaldbúðardyrnar, og upptendra það feita Drottni til sætleiksilms;7en ekki skulu þeir framar færa fórnir þeim strýhærðu guðum, hvörja þeir hafa elt og drýgt hór með. Þetta skal vera þeim ævarandi lögmál og þeirra eftirkomendum;8þar fyrir skaltu segja þeim: hvör sá maður af húsi Ísraels, eða framandi, sem býr á meðal þeirra, sem kemur með brennifórn, eða slátursfórn,9og ekki leiðir hana fyrir dyr samkundutjaldbúðarinnar, fyrir auglit Drottins, hann skal upprætast frá sínu fólki.
10Hvör sá maður af húsi Ísraels, eða framandi sem býr á meðal Ísraelítanna, sem etur blóð, gegn þeirri blóðátu vil eg setja mig, og uppræta hann frá sínu fólki;11því líf dýrsins er í blóðinu, en eg hefi gefið yður blóð fyrir altarið, til þess forlíkun þar með skei fyrir yðar sálir; blóðið er það, sem forlíkar fyrir sálina.12Þess vegna hefi eg sagt til Ísraelsniðja: enginn af Ísraelsbörnum má eta blóð, og ekki má heldur nokkur framandi sem býr á meðal þeirra eta blóð.13Ef nokkur af Ísraelsbörnum eða maður útlendur, sem býr á meðal þeirra veiðir villidýr eða fugl, sem má etast, þá skal hann hella niður blóðinu, og hylja það með jörðu;14því að sérhvörs lifanda líf er blóði þess, blóðið er þess líf; þess vegna sagða eg til Ísraelsbarna: einkis dýrs blóð skuluð þér eta, því sérhvörs dýrs líf er blóð þess, og hvör sem það etur skal upprætast.
15Hvör sem hræ etur eða það sem af villidýri er sundurrifið, skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og er óhreinn til kvölds; en úr því er hann hreinn;16en ef hann ekki þvær þau né laugar sinn líkama, þá ber hann sína sekt.

V. 4. 2 Mós. 21,12. 3 Mós. 3,17. V. 7. Egypskir dýrkuðu afguði í ýmsum dýramyndum. 2 Mós. 32,4.8.18.19. 2 Kron. 11,15. Ísraelsbörn hóruðust, eða tóku framhjá Guði, þegar þeir dýrkuðu afguði; og hvör sem það gjörði átti að grýtast (5 Mós. 17,2–5), en heil borg sem gjörði sig þar í seka, gjörsamlega að eyðileggjast. V. 14. Vegna þess blóðið var haldið hið dýrmætasta af dýri hvörju, var það Guði einum helgað og mátti ekki af mönnum etast. Með þessu banni fyrirbyggðust og heimuglegar heiðinglegar blótveislur.