1En sem sonur Sáls heyrði að Abner væri dauður í Hebron, féllust honum hendur, og allur Ísrael skelkaðist.2En sonur Sáls hafði tvo herforingja, annar hét Baena og hinn Rekab, og þeir voru synir Rimmons Berotita, af Benjamíns kynþætti; því Berot reiknast líka með Benjamíns eign.3(Og Berotitarnir voru flúnir til Getajim, og héldu þar til, sem framandi, allt til þessa dags).4Og Jónatan sonur Sáls átti fóthruman son; hann var fimm ára gamall, þegar fregnin kom um Sál og Jónatan, frá Jesreel: þá tók fóstra hans hann, og flúði; og af því hún flýði með skyndi, féll hann, og varð fótlama, og nafn hans var Mesibóset.5Og synir Rimmons Berotitans, Rekab og Baena, lögðu af stað, og komu, þá heitast var dags, í hús Ísbósets, þá hafði hann lagt sig um miðdegið.6Þeir gengu inn í húsið að sækja hveiti og lögðu hann þar í kviðinn; og Rekab og bróðir hans Baena, komust undan.7Þeir höfðu komið í húsið þá hann lá í sæng sinni, í sínu svefnherbergi, unnu á honum og drápu hann og hjuggu af honum höfuðið, og tóku hans höfuð, og fóru veginn yfir sléttlendið alla nóttina.8Og þeir færðu Davíð í Hebron Ísbósets höfuð, og mæltu við kónginn: sjá! þarna er Ísbósets höfuð, sonar Sáls þíns fjandmanns, sem sat um líf þitt. Og svo hefir Drottinn í dag hefnt fyrir minn herra konunginn á Sál og hans syni.
9Þá svaraði Davíð Rekab og Baena bróður hans, sonum Rimmons Berotitans og mælti til þeirra: Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sem frelsaði líf mitt úr öllum háska.10Þann sem færði mér tíðindin og mælti: Sál er dauður, og hugsaði, að hann færði mér góð tíðindi, handtók eg og drap í Siklag, til að umbuna honum tíðindin.11Skyldi eg þá ekki miklu framar nú, þegar óbótamenn hafa myrt réttlátan mann í hans eigin húsi og í hans sæng, krefjast hans blóðs af yðar hendi, og afmá yður af jörðinni?12Og svo bauð Davíð sínum þénurum að aflífa þá, og þeir gjörðu svo, og hjuggu af þeim hendur og fætur, og hengdu þá upp hjá Hebronsvatni; en Ísbósets höfuð tóku þeir og grófu það í Hebron í Abners gröf a).
Síðari Samúelsbók 4. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:00:25+00:00
Síðari Samúelsbók 4. kafli
Ísbóset myrtur.
V. 12. a. Kap. 3,32.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.