1Tuttugu og fimm ára gamall varð Amasia kóngur, og ríkti 29 ár í Jerúsalem. En móðir hans hét Jóadan frá Jerúsalem.2Hann gjörði það sem rétt var í Drottins augsýn, samt ekki með algjörlega einlægu hjarta.3En sem hann var orðinn fastur í konungdómnum, lét hann drepa sína þjóna, sem höfðu unnið á kónginum, föður hans.4En syni þeirra deyddi hann ekki, heldur (fór hann) eftir því sem skrifað stendur í Mósisbók, eins og Drottinn bauð, þá hann sagði: feður skulu ekki deyðast fyrir syni, og synir skulu ekki deyðast fyrir feður, heldur skal sérhvör deyðast fyrir sínar syndir.
5Og Amasia samansafnaði Júda, og lét þá fyrir sig koma eftir ættum, eftir höfuðsmönnum yfir þúsund, og eftir höfuðsmönnum yfir hundrað, öllum Júda(lýð) og Benjamín, og taldi þá, frá tvítugu og þar yfir, og fann þá 3 hundruð þúsund, einvala lið, færa til stríðs, berandi spjót og skjöld.6Og leigði sér af Ísrael hundrað þúsundir, duglegra stríðsmanna, fyrir hundrað vættir silfurs.7En guðsmaður nokkur kom til hans og mælti: konungur! lát þú Ísraelsher ekki með þér fara, því Drottinn er ekki með Ísrael, öllum Efraimssonum.8Heldur far þú, gjör það, vertu fastur í bardaganum! Guð kynni að láta þig falla fyrir þínum óvinum; því hjá Guði er vald til að hjálpa, og til að láta (menn) falla.9Og Amasia sagði við guðsmanninn: hvörnig á þá að fara með þær hundrað vættir, sem eg hefi gefið Ísraelsher? Og guðsmaður svaraði: það er í Drottins valdi að gefa þér enn meira en þetta.10Þá aðskildi Amasia frá sér, þann skara, sem til hans var kominn af Efraim, svo þeir hvurfu heim aftur á sinn stað. En þeirra reiði upptendraðist mikillega við Júda, og þeir sneru aftur á sinn stað með brennandi reiði.
11En Amasia hressti upp hugann, og lagði af stað með sitt fólk, og hélt í Saltdalinn, og sigraði þar syni Seirs, 10 þúsund manns.12Og 10 þúsundir hertóku Júdasynir lifandi, og fóru með þá fram á klettasnös, og hrintu þeim fram af klettssnösinni, svo þeir sundurbrustu allir.13En þeir stríðsmenn, sem Amasia hafði sent til baka, svo þeir fóru ekki með honum í stríðið, þeir gjörðu áhlaup á Júda staði, frá Samaríu allt til Betoron og felldu þar þrjár þúsundir manns, og rændu miklu herfangi.
14En sem Amasia var kominn heim aftur, og hafði unnið sigur á Edomítum, hafði hann með sér guði Seirssona, og setti þá upp hjá sér, fyrir Guði, og tilbað þá og brenndi fyrir þeim reykelsi.15Þá upptendraðist reiði Drottins yfir Amasia, og hann sendi til hans spámann, sem sagði við hann: því leitar þú guða þeirra þjóðanna, sem ekki frelsuðu sitt fólk frá þinni hendi?16Og þá hann talaði við hann, sagði (Amasia) við hann: hafa menn sett þig konunginum fyrir ráðgjafa? hættu! hvar fyrir skyldu menn slá þig í hel? þá hætti spámaðurinn og sagði: eg sé að Guð hefir ályktað þér tjón, þar eð þú gjörir slíkt og hlýðir ekki mínum ráðum.
17Og Amasia, Júdakóngur, ráðfærði sig, og sendi til Jóas, Jóakassonar, Jehúsonar, kóngs í Ísrael, og mælti: kom, látum oss sjá hvör annan!18Þá sendi Jóas Ísraelskóngur, til Amasia Júdakóngs og mælti: þyrnibúskurinn á Libanon sendi til sedrusviðarins á Libanon og sagði: gef dóttur þína syni mínum fyrir konu! þá hlupu merkurinnar villudýr upp á Libanon og sundurtróðu þyrnibúskinn.19Þú hugsar: sjá! þú hefir sigrað Edomítana, svo er þér vaxinn hugur, að afla þér frægðar; vertu nú heima! hvar fyrir viltu steypa þér í ógæfuna, svo að þú fallir og Júda með þér.
20En Amasia gegndi því ekki; því það skeði af Guði, til þess hann ofurseldi þá, af því þeir höfðu leitað Edoms Guða.21Þá fór Jóas Ísraelskóngur af stað, og þeir sáu hvör annan, hann og Amasia, Júdakóngur, í Betsemes í Júda.22En Júda beið ósigur fyrir Ísrael, og þeir flýðu, hvör í sitt tjald.23En Jóas Ísraelskóngur hertók Amasia Júdakóng Jóasson, Ahasiasonar, í Bet-Semes, og flutti hann til Jerúsalem, og reif niður Jerúsalems múrvegg frá Efraimshliði allt að Hornhliðinu, 4 hundruð álnir á lengd,24og tók allt gull og silfur og öll áhöld sem voru í Guðs húsi, hjá Óbeð-Edom, og fjársjóðu kóngsins húss, og gísla, og fór til baka til Samaríu.
25Og Amasia, sonur Jóas, Júdakóngur, lifði 15 ár eftir andlát Jóas Jóakassonar, Ísraelskóngs.26En hin önnur saga Amasíu, hin fyrri og síðari, hún stendur skrifuð í Júda- og Ísraelskóngabók.27Og í frá þeim tíma að Amasia veik frá Drottni, gjörðu menn í Jerúsalem samblástur móti honum, og hann flúði til Lakis, og þeir sendu eftir honum til Lakis og drápu hann þar.28Og þeir fluttu hann á hestum og grófu hann hjá hans feðrum í Júda stað.
Síðari kroníkubók 25. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:00:59+00:00
Síðari kroníkubók 25. kafli
Ríkisstjórn Amasia. (2 Kgb. 14,1–22)
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.