1En kona nokkur, af ektakvinnum spámanna sonanna, hrópaði til Elísa og mælti: þinn þjón, maðurinn minn, er dáinn, og þú veist að þinn þjón óttaðist Drottin; nú er sá kominn er á hjá oss skuld, til að taka bæði mín börn í þrældóm.2Og Elísa sagði við hana: hvað á eg að gjöra fyrir þig? seg mér, hvað hefir þú í þínu húsi? og hún svaraði: þín ambátt hefir ekkert í húsinu nema eina viðsmjörskrús.3Og hann mælti: far þú þá og fá til láns ílát hjá öllum nágrönnum þínum, tóm ílát, tak þú fleiri en færri!4Og gakk svo inn og læstu dyrunum eftir þér, og eftir sonum þínum og helltu í öll þessi ílát, og jafnóðum og þau fyllast, þá set þau frá þér.5Svo gekk hún frá honum og læsti dyrunum að sér og að sonum sínum; þeir báru að henni ílátin, en hún hellti í.6En sem ílátin voru full, sagði hún við son sinn: fær mér enn ílát! og hann mælti: hér eru ekki fleiri ílát. Þá rann ekki viðsmjörið.7Og hún fór og sagði guðsmanninum frá, og hann mælti: far þú nú og sel viðsmjörið og gjald skuld þína, en haf þér og sonum þínum til viðurlífis afganginn.
8Það bar til einn dag að Elísa gekk til Súnem a), þar var göfug kona, sem sárbað hann að þiggja mat hjá sér; og svo oft sem hann fór þar um, gekk hann þar inn til að matast.9Og hún sagði við mann sinn: heyrðu! eg sé að það er heilagur guðsmaður sem hér fer um jafnaðarlega.10Látum oss gjöra honum lítið herbergi hérna upp á loftinu afþiljað (með veggjum) og setja þangað rúm og borð og stól og ljósastjaka, svo hann geti farið þangað þegar hann kemur til okkar.11Einhvörju sinni kom hann þar og gekk inn í herbergið og svaf þar.12Og hann sagði við svein sinn Gihesi: kallaðu á þá sunamítisku! og hann kallaði hana og hún gekk fyrir hann.13Og hann sagði við hann: seg þú til hennar: þú hefir sýnt oss allan þenna góðvilja, hvað á eg að gjöra fyrir þig? Hefir þú nokkuð að tala við kónginn eða herforingjann? Og hún svaraði: eg bý hér meðal minna ættingja!14Og hann mælti: hvað á eg þá að gjöra fyrir hana? Og Gihesi mælti: jú, hún á engan son, en maður hennar er gamall.15Og hann sagði: kalla þú á hana; og hann kallaði á hana, og hún nam staðar í dyrunum.16Og Elísa sagði við hana: að ári liðnu um þetta leyti b) muntu faðma að þér son. Og hún svaraði: nei, minn herra, þú guðsmaður, skrökvaðu ekki að þinni ambátt.
17Og konan varð þunguð og fæddi son um sama bil á næsta ári sem Elísa hafði henni sagt.18Og barnið óx upp, og það skeði einhvörn dag, að drengurinn gekk út til föður síns, til kornskurðarmannanna.19Þá sagði hann við föður sinn: mitt höfuð! mitt höfuð! og hann sagði við svein sinn: far þú með hann til móður sinnar!20Og hann tók hann og færði hann móður sinni, og hann sat í hennar kjöltu til miðdegis, þá dó hann.21Og hún gekk upp (á loftið) og lagði hann í sæng guðsmannsins, læsti að honum og gekk burt.22Og hún gjörði boð manni sínum svolátandi: sendu mér einn af sveinunum og ösnu, eg vil fara sem skjótast til fundar við guðsmanninn og koma svo aftur.23Hann svaraði: því viltu fara til hans í dag, nú er hvörki tunglkomu- né hvíldardagur? Og hún mælti: vert þú sæll! (aðeins rólegur!)24Og hún söðlaði ösnuna og sagði við sveininn: haltu nú áfram, tefðu ekki reið mína, mundu hvað eg segi þér.25Og svo fór hún og kom til guðsmannsins á fjallinu Karmel a). En sem guðsmaðurinn sá hana álengdar, sagði hann við Gihesi sinn þénara: sko! þarna er sú sunamítiska!26Hlauptu nú á móti henni, og spurðu hana: líður þér vel, líður manni þínum vel, líður þínu barni vel? og hún svaraði: vel!27Og hún kom til guðsmannsins á fjallinu og greip um hans fætur. Þá gekk Gihesi að og vildi hrinda henni frá; en guðsmaðurinn mælti: láttu hana vera, því hennar sál er harmþrungin b); og Drottinn hefir leynt mig því, og ekki látið mig vita það.28Og hún mælti: hefi eg beðið minn herra um son? sagði eg ekki: prettaðu mig ekki?29Og hann sagði við Gihesi: girð þínar lendar c), og taktu minn staf þér í hönd og farðu á stað! þó einhvör mæti þér, þá heilsaðu honum ekki d), og legg minn staf yfir sveinsins andlit.30Og móðir drengsins mælti: svo sannarlega sem Drottinn lifir og þú lifir, eg fer ekki frá þér.31En Gihesi var farinn á undan þeim og hafði látið stafinn yfir andlit sveinsins, en þar var hvörki mál né heyrn. Og hann fór til baka á móti honum, og sagði honum frá og mælti: ekki vaknar sveinninn.32Og sem Elísa kom í húsið, þá var pilturinn dáinn og hafði verið lagður í hans sæng.
33Þá gekk hann inn og læsti að sér og þeim báðum og bað Drottin.34Svo steig hann upp og lagðist yfir barnið e), lagði sinn munn við þess munn, og sín augu yfir þess augu, og sínar hendur yfir þess hendur, og beygði sig yfir það, svo að líkami barnsins hitnaði.35Og hann kom aftur og gekk um gólf í húsinu, gekk aftur upp á loftið og beygði sig yfir barnið, þá hnerraði sveinninn 7 sinnum.36Og hann kallaði á Gihesi og mælti: segðu þeirri sunamítisku að koma! og hann kallaði hana, og hún kom til hans, og hann mælti: taktu við syni þínum!37Þá kom hún og féll honum til fóta og beygði sig til jarðar, tók við syni sínum og fór burt.
38En Elísa kom aftur til Gilgal f), og sultur var í landinu, og spámannanna synir voru þar fyrir hans augsýn. Og hann sagði við þjón sinn: settu upp stóra pottinn og gjörðu graut fyrir syni spámannanna.39Þá gekk einn út á akurinn að lesa jurtir og fann villivínviðaranga, og tíndi kyrtil sinn fullan af villiagúrkum, og kom og brytjaði þær í grautarpottinn, því þeir vissu ei hvað það var.40Og þeir jusu það upp fyrir mennina að eta, en svo fór þegar þeir smökkuðu grautinn, að þeir hljóðuðu upp yfir sig og sögðu: dauðinn er í pottinum, þú guðsmaður! og þeir gátu ei etið það.41Þá mælti hann: komið þá með mél, og hann kastaði því í pottinn og mælti: ausið nú fyrir fólkið að það eti. Og þá var ekkert slæmt í pottinum.
42En maður kom frá Baal-Salísa og færði guðsmanninum frumgróðabrauð g), 20. byggbrauð, og mulið korn, í sínum poka. Og hann mælti: gefðu það fólkinu, að það eti.43Og hans þénari sagði: hvörnig get eg borið þetta hundrað mönnum? og hann svaraði: gef það fólkinu, að þeir eti! því svo segir Drottinn: menn munu eta og leifa.44Þá lagði hann það fyrir þá, og þeir neyttu, og gengu frá leifðu, eftir Drottins orði.
Síðari konungabók 4. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:00:36+00:00
Síðari konungabók 4. kafli
Elísa gjörir kraftaverk.
V. 8. a. Jós. 19,18. V. 16. b. Gen. 18,14. V. 25. a. 2,25. V. 27. b. 1 Sam. 1,10. V. 29. c. 9,1. d. Lúk. 10,4. V. 34. e. 1 Kóng. 17,21. Post. g. b. 20,10. V. 38. f. 2,1. V. 42. g. Lev. 2,14.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.