1Dómur Drottins er upp kveðinn yfir Hadrakslandi, og mun fram koma á Damaskusborg; því Drottinn hefir gát á öðrum mönnum, eins og á ættkvíslum Ísraelsmanna.2Sömuleiðis mun hann fram koma á Hamatslandi, sem þar liggur hjá, og á Týrusborg og Sídonsborg, því þær eru slægvitrar mjög.3Þó Týrusborg hafi byggt sér öruggt vígi, og safnað silfri sem sandi, og gulli sem saur á strætum:4Þá skal þó hinn Alvaldi eyða hana, og steypa veldi hennar í sjóinn, og sjálf skal hún verða eyðilögð af eldi.5Askalonsborg skal sjá það, og óttast; Gasaborg skal sjá það, og skjálfa mjög; einnig Ekronsborg, því hennar von er horfin; konunginum er í burtu svipt frá Gasaborg, og Askalonsborg liggur í eyði.6Útlendingar skulu búa í Asdodsborg; þannig vil eg gjöra enda á ofdrambi Filista.7Þó vil eg hreinsa blóðið af vitum þeirra, og taka burtu þær viðurstyggðir, sem tolla milli tanna þeirra c), svo að þeir, sem eftir verða af þeim, skulu einnig tilheyra Guði vorum, og verða sem ættfeður í Júdaríki, og Ekronsborgarmenn eins og Jebúsborgarmenn d).
8Eg vil setja herbúðir í kring um mitt hús, til varnar móti herliði og hleypiflokkum (óvinanna); enginn kúgari skal framar vaða yfir þá; því nú hefi eg séð (meðferðina á mínu fólki) með mínum augum.9Fagna þú mjög, Síons dóttir! Kyrja þú upp, Jerúsalemsdóttir! Sjá! þinn konungur kemur til þín! réttlátur er hann og sigursæll, lítillátur, og ríður á asna, á ungum ösnufola.10Eg vil eyða öllum vögnum hjá Efraimsætt, og öllum hestum í Jerúsalemsborg; öllum herborgum skal og eytt verða: því hann skal kenna þjóðunum frið, og veldi hans skal ná frá hafi til hafs, og frá fljóti til landsenda.11Og þú (Ísraelslýður)! samkvæmt sáttmálanum við þig, sem með blóði er staðfestur a) sleppti eg bandingjum þínum út af hinni vatnslausu gryfjunni b).12Snúið aftur til hins trausta vígisins, þér herteknu, sem væntið lausnarinnar c)! Einnig í dag gjöri eg það heyrumkunnugt, að tvöfaldlega vil eg þér endurgjalda.13Því eg hefi Júdaríki fyrir spenntan streng, og Efraimsætt fyrir uppdreginn boga; eg vek sonu þína, Síonsfjall, móti þínum sonum, Grikkland, og gjöri þig að sverði í hermannshendi.14Drottinn skal birtast í öndverðu liði þeirra, og hans örvar út fara, sem eldingar; Drottinn hinn alvaldi skal þeyta lúðurinn og ganga fram í sunnanstormum.15Drottinn allsherjar skal vera þeirra hlíf, en þeir skulu eyðileggja og undir fótum troða slöngusteinana, þeir skulu vaða áfram, (blóði) drukknir eins og af víni, löðrandi, sem fórnarskálir, sem horn upp af altari.16Drottinn, Guð þeirra, mun frelsa sinn lýð á þeim degi, eins og hirðirinn hjörð sína; og vígðir steinar skulu uppreistir standa í hans landi.17Því hvörsu stór er hans gæska! hvörsu fagrar hans gjafir! af korni og vínberjalegi skulu ungir sveinar og meyjar (aftur) upprenna.
Sakaría 9. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:03:52+00:00
Sakaría 9. kafli
Sakarías spáir eyðileggingu Sýrlandi, Feníkalandi og Filistalandi; og að Filistar muni um síðir láta af blótum og taka sanna trú; segir, að Guð muni senda Messías og vernda volduglega sitt fólk.
V. 7. c. Þ. e. Eg skal láta þá hætta blótum og að eta af skurðgoðafórnum. d. Þ. e. Jerúsalemsborgarmenn, því Jerúsalemsborg hét áður Jebúsborg, Dóm. 19,10. V. 11. a. Hebr. blóð sáttmálans, þ. e. sáttmáli, staðfestur með fórnfæringu. b. Þ. e. frelsaði þig úr Egyptalands ánauð. V. 12. c. Hebr., þér vonarbandingjar. Hið trausta vígi er Síonsfjall, Jerúsalemsborg.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.