1Þú skalt velja Aron bróður þinn, og syni hans meðal Ísraelsmanna, til að vera mína kennimenn; það skal vera Aron og synir hans, Nadab, Abíhú, Eleasar og Ítamar.2Þú skalt gjöra Aroni bróður þínum helgan klæðnað, sem vega skal vegsamlegur og prýðilegur.3Þú skalt tala við alla þá menn, sem eru vel að sér, og hvörjum eg hefi veitt gnóga hagleiksíþrótt, og skulu þeir gjöra Aroni vígsluklæði, að hann sé minn kennimaður.4Þessi eru þau klæði, sem þeir skulu gjöra: brjóstskjöldur, hökull, kyrtill, tíglofinn serkur, ennidúkur og belti; þennan helgan klæðnað skulu þeir gjöra Aroni bróður þínum og sonum hans, svo þeir megi vera mínir kennimenn.
5Þeir skulu taka gull, og dökkbláa ull, purpura, skarlat og hvíta viðarull, og gjöra þar af hökulinn;6skal hann vera af gulli, dökkblárri ull, purpura, skarlati, hvítri viðarull tvinnaðri, og forkunnarlega útofinn;7á honum skulu vera tveir axlarhlýrar samtengdir á báðum endum, og þar við skal festa hökulinn.8Hökulbeltið, sem liggur utan yfir hökulinn, skal vera eins vandað og af sama, af gulli, dökkblárri ull, purpura, skarlati, og hvítri viðarull tvinnaðri.9Þú skalt taka tvo sardonyxsteina, og grafa á þá nöfn Ísraelsmanna;10skulu sex nöfnin vera á öðrum steininum, en hin sex á hinum, eftir aldri ættfeðranna.11Þú skalt grafa nöfn Ísraelsmanna á báða þessa steina eftir steinskurðarreglu og með innsiglisgrefti, og fella þá inn í umgjarðir af gulli.12Þú skalt festa báða steinana á axlarhlýrum hökulsins, skulu það vera minnissteinar fyrir Ísraelsmenn, og skal Aron bera nöfn þeirra frammi fyrir Drottni á báðum öxlum sér, til minningar.13Umgjarðirnar skaltu gjöra af gulli;14þú skalt og gjöra tvær festar af skíru gulli, þær skulu vera snúnar, eins og fléttur, og skaltu tengja þessar brugðnu festar við umgjörðirnar.
15Þú skalt og búa til dómskjöldinn, og láta hann vera eins vandaðan og hökulinn; þú skalt gjöra hann af gulli, dökkblárri ull, purpura, skarlati, og hvítri viðarull tvinnaðri.16Hann skal vera ferskeyttur og tvöfaldur, spannarlangur og spannarbreiður.17Þú skalt setja í hann inngreypta steina, fjórar steinaraðir: eina röð af sardius, tópas og smaragðus, það er fyrsta röðin;18í annarri röðinni skal vera karbunkulus, saffírus, demant;19í þriðju röðinni, ópal, agat og ametystus;20í fjórðu röðinni, turkos, sardonyx og jaspis; þeir skulu greyptir vera í gull, hvör í sinni umgjörð.21Steinarnir skulu vera 12, eftir nöfnum Ísraelssona, hvör með sínu nafni; þeir skulu vera grafnir með innsiglisgrefti, og skal sitt nafn vera á hvörjum þeirra, eftir nöfnum hinna 12 kynkvísla.22Þú skalt gjöra festar til brjóstskjaldarins af skíru gulli, þær skulu vera snúnar, eins og fléttur;23þú skalt og gjöra til brjóstskjaldarins tvo hringa af gulli, og setja þessa tvo hringa á tvö horn brjóstskjaldarins;24síðan skaltu bregða þeim tveimur gullfléttum í þessa tvo hringa, sem eru í hornum brjóstskjaldarins;25en báða enda þeirra tveggja festa skaltu festa hvörn gegnt öðrum við þær tvær umgjarðir, sem þú settir á axlarhlýra hökulsins.26Þá skaltu enn gjöra tvo hringa af gulli, og festa þá í hin horn brjóstskjaldarins, innanvert í þá brúnina, sem að höklinum veit,27og enn skaltu gjöra tvo hringa af gulli, og festa þá neðantil á báðum axlarhlýrum hökulsins, hvörn gegnt öðrum, þar sem mætist hökull og hlýrar, fyrir ofan hökulbeltið;28nú skal knýta brjóstskjöldinn, með sínum hringum, við hökulhringana með dökkbláum ullardregli, svo brjóstskjöldurinn sé áfastur við hökulbeltið, og losni ekki við hökulinn.29Og Aron skal ávallt bera nöfn Ísraelsmanna í dómskildinum á brjósti sínu, þegar hann gengur inn í helgidóminn, til minningar fyrir Drottni.30Þú skalt leggja inn í dómskjöldinn ljósið og sannleikann, svo þau séu á brjósti Arons, þegar hann gengur inn fyrir Drottin, og Aron skal ávallt bera dóm Ísraelsmanna á brjósti sér frammi fyrir Drottni.
31Þú skalt gjöra hökulkyrtil, hann skal vera ofinn, og allur úr dökkblárri ull;32á honum skal vera höfuðsmát og faldað með ofnum borða kringum hálsmálið, eins og um hálsmál á línbrynju, svo ekki rifni út úr.33Á faldi kyrtilsins skaltu búa til granatepli af dökkbláu bandi, purpura, og skarlati, umhverfis um faldinn, og bjöllur af gulli í milli eplanna allt í kring,34svo að fyrst skal koma gullbjalla, og þarnæst granatepli, síðan aftur á víxl, gullbjalla, og granatepli allt í kring á kyrtilsfaldinum;35í þessum kyrtli skal Aron vera, þá hann embættar, svo að heyra megi til hans, þegar hann gengur inn í helgidóminn fram fyrir Drottin og þá hann gengur út aftur, svo hann skuli ekki deyja.
36Þú skalt gjöra spöng af skíru gulli, og grafa á hana með innsiglisgrefti þessi orð: Heilagt fyrir Drottni;37þessa spöng skaltu festa á dökkbláan ullardregil, og skal hún sitja framan á ennidúknum;38hún skal vera á enni Arons, svo Aron afmái sekt þeirra helgigáfna, allra þeirra vígðra fórna, sem Ísraelsmenn gefa helgidóminum; hún skal ætíð vera á hans enni, til þess að útvega þeim velþóknun Drottins.
39Þú skalt og vefa serk af hvítri viðarull, og búa til ennidúk af hvítri viðarull, og glitofið belti.
40Þú skalt og tilbúa serki handa sonum Arons, og gjöra þeim belti; einnig skaltu gjöra þeim höfuðdúka til vegs og prýði;41þú skalt færa Aron bróður þinn og sonu hans í þessi klæði, smyrja þá, fá þeim embættið í hendur, og vígja þá til að vera mína kennimenn.42Þú skalt og gjöra þeim línbrækur, til að hylja með blygðun þeirra; þær skulu ná frá mjöðmum niður á læri;43í þeim skal Aron og synir hans vera, þá þeir ganga inn í samkundutjaldbúðina, eða nálægja sig altarinu til að embætta í helgidóminum, svo þeir ekki verði fyrir sekt og láti líf sitt. Þetta skal vera ævinlegt lögmál fyrir hann og hans eftirkomendur.
Önnur Mósebók 28. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T00:59:30+00:00
Önnur Mósebók 28. kafli
Sá kennimannlegi skrúði.
V. 30. ljósið og sannleikann, þ. e. myndir, sem þýða áttu ljós (guðlega opinberun) og sannleika.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.