1Á sama degi var lesið í Mósisbók að öllum lýðnum áheyrandi, og fannst í henni skrifað að hvörki Móabítar né Ammonítar, c) skyldu koma í söfnuð Guðs til eilífðar,2vegna þess að þeir ekki höfðu viljað koma með brauð og vatn til niðja Ísraels, og höfðu keypt Bíleam til að bölva þeim; en Guð vor sneri bölvan þeirra í blessun.3En það skeði, að þegar menn heyrðu lögmálið, þá tók sérhvör útlendur sig frá Ísraelsmönnum.4Fyrir þá d) hafði presturinn Eliasib tekið herbergi í Guðs húsi handa frænda Tobia,5og gjört honum stórt herbergi, og þar höfðu menn látið (áður) gáfur, og reykelsi og tíundir af korni, nýju víni og viðsmjöri, tekjur Levítanna, söngvaranna og dyravarðanna og upplyftingarfórnir prestanna.6En á meðan þetta tíðkaðist, var eg ekki í Jerúsalem; því á þrítugasta og öðru ári Artaxerxis kóngs í Babylon, kom eg til kóngsins, og í enda ársins bar eg bæn mína upp fyrir kónginn;7og svo kom eg til Jerúsalem, og komst að því illa, sem Eliasib hafði gjört fyrir Tobía, að hann hafði látið gjöra honum herbergi í forgarði Guðs húss.8Mér mislíkaði það mjög og kastaði eg öllum kerum sem voru í herbergi Tobía út úr herberginu,9og bauð að menn skyldu hreinsa það, og bar síðan inn kerin, matfórnirnar og reykelsið.
10Eg fékk líka að vita að skerfur Levítanna ekki var greiddur og að þeir voru flúnir út á lendur sínar; Levítarnir og söngvararnir, sem áttu að gæta þjónustunnar.11Eg deildi þá á forstöðumennina, og sagði: hvörs vegna er Guðs hús yfirgefið? og setti þá á sinn stað.12Og allur Júdalands lýður kom með sínar tíundir: korn, nýtt vín og viðsmjör til forðabúranna.13Og eg setti umsjónarmenn yfir forðabúrin, Selemia prest, og Sadok þann skriftlærða, og af Levítunum Pedaia, og Hanan, til þess að hann væri þeim við hönd; því að þeir voru álitnir trúir, og þeim lá það á herðum að skipta á milli bræðra sinna.14Þenk til mín þess vegna, Guð minn! svo að ekki að engu verði góðverk þau sem eg hefi gjört við hús Guðs míns og gæslu hans (þjónustu).
15Um sömu mundir sá eg, að Júdalandsmenn tróðu vínþrúgu a) á hvíldardögum, og komu til Jerúsalem á hvíldardögum með asna klyfjaða þungum klyfjum, með víni, vínberjum og fíkjum og alls lags klyfjum, og eg ávítaði þann harðlega, sem seldi fæðuna.16Líka bjuggu þar menn frá Týrusborg, sem fluttu þangað fisk og alls lags varning og seldu á hvíldardögum til innbúa Júdalands og Jerúsalems.17Þá deildi eg á höfðingja Júdalands og sagði við þá: hvílíkt er það vonskuverk, sem þér aðhafist, og vanhelgið hvíldardaginn þar með!18Hafa ekki forfeður vorir svona breytt og Guð þess vegna látið allt þetta illa koma yfir oss og þessa borg? og aukið þér ekki grimmdarreiði (hans) gegn Ísrael, með því að vanhelga hvíldardaginn?19Og það skeði þegar myrkt var í borgarhliðum Jerúsalems á undan hvíldardeginum b), þá bauð eg að hliðin skyldu læsast og að menn skyldu ekki uppljúka þeim til hvíldardagsins, og nokkra af sveinum mínum setti eg við borgarhliðin til þess að engar byrðar skyldu berast þar innum á hvíldardeginum.20Þá urðu verslunarmennirnir og sölumennirnir að nátta með alls lags varningi fyrir utan Jerúsalem. Þetta skeði einu sinni eða tvisvar.21Og eg talaði til þeirra alvarlega og sagði: hvörs vegna náttuðuð þér fyrir utan borgarveggi? ef þér gjörið það oftar, legg eg hendur á yður! upp frá því komu þeir ekki á hvíldardegi. V.22Síðan bauð eg Levítunum, að þeir skyldu hreinsa sig og koma síðan til að halda vörð við borgarhliðin, til þess að helga hvíldardaginn. Þenktu líka þess vegna til mín, Guð minn! og þyrm mér vegna þinnar miklu miskunnsemi.
23Líka sá eg um sömu mundir að Gyðingar höfðu sér konur tekið frá Asdod, Ammoníta og Móabítalandi;24og synir þeirra töluðu að hálfu leyti Asdods mál, og gátu ekki (hreint) Gyðingamál talað, heldur (bjagað) eftir þessarar eða annarrar (útlendrar) þjóðar máli.25Og eg deildi á þá og bað þeim bölbæna, og sló nokkra af þeim, hárreytti þá, og lagði fyrir þá svolátandi eið: þér skuluð ekki gefa dætur yðar sonum þeirra, og ekki heldur taka dætur þeirra handa yðar sonum eða yður sjálfum!26Syndgaði ekki Salómon, kóngur Ísraels, hér í? og þó var enginn kóngur á meðal þeirra mörgu þjóða þvílíkur sem hann, og elskaður var hann af Guði sínum, og Guð setti hann yfir allan Ísraels lýð, og samt leiddu hann útlendar konur til synda.27Og skyldum vér þá láta það eftir yður, að drýgja svo mikið illt gegn vorum Guði, að taka útlendar konur?
28En einn af sonum Jójada, sonar Eliasibs, æðsta prests, hafði mægst við Sanballat frá Hóron c). Hann rak eg frá mér.29Minnstu þeirra, Guð minn! vegna saurgunar prestastandsins og sáttmála prestanna og Levítanna d).
30Þannig hreinsaði eg þá a) frá öllum útlendingum og lagði prestum og Levítum á herðar gæslu þeirra þjónustu, hvörjum sitt verk,31og gáfur til (brenni)viðar á tilsettum tíma, og frumgróða. Minnstu mín, Guð minn! til góðs.
Nehemíabók 13. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:01:11+00:00
Nehemíabók 13. kafli
Framandi sem áður höfðu tekið þátt í guðsdýrkuninni með Gyðingum var vikið burt, og ýmisleg lagabrot aftekin.
V. 4. d. Nefnil. Móabita og Ammoníta. V. 15. a. Öll þrælkan á mönnum og dýrum var í Mósislögum stranglega bönnuð á hvíldardögum. V. 19. b. Hvíldardagurinn eins og aðrir dagar byrjaði á sólarlagi og endaði á sólarlagi daginn eftir. V. 20. Á næturnar er kalt í Gyðingalandi. V. 23. Asdod, ein af helstu borgum Filisteanna. V. 25. Að reita hár af öðrum var fyrirlitningarmerki. V. 28. c. Hóron var borg í Móabítalandi. V. 29. d. Prestarnir og Levítarnir höfðu gjört þann sáttmála við Guð, að halda sér frá öllu því sem saurgaði. V. 30. a. Gyðingana.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.