1Þá stóð upp allur mannfjöldinn og færði hann til Pílatusar,2og tók til að áklaga hann með svofelldum orðum: þenna mann höfum vér fundið að afvegaleiða alþýðuna, og banna að gjalda keisaranum skatt, og segja sig að vera konunginn Krist.3Þá spurði Pílatus hann: ertú konungur Gyðinga? Jesús mælti: rétt segir þú!4þá sagði Pílatus til enna æðstu presta og lýðsins: ekkert finn eg saknæmt hjá þessum manni.5En þeir voru því ákafari og sögðu: hann hefir uppæst fólkið með kenningum sínum í öllu Gyðingalandi allt frá Galíleu og hingað.6Nú er Pílatus heyrði Galíleu nefnda, spurði hann, hvört þessi maður væri galverskur,7og er hann varð þess vís, að hann var úr veldi Heródesar, sendi hann hann til Heródess, sem um þessar mundir var í Jerúsalem.8Þegar Heródes sá Jesúm, varð hann næsta glaður, því lengi hafði hann langað til að sjá hann, því hann hafði heyrt margt af honum sagt, vænti hann nú að sjá eitthvört teikn af honum.9Spurði Heródes hann næsta á marga vegu, en hann svaraði engu.10Gengu þá fram enir æðstu prestar og skriftlærðir, og áklöguðu hann harðlega,11en Heródes og stríðsmenn hans hæddu hann, og gjörðu gys að honum, lögðu yfir hann skínandi klæði og sendu hann aftur til Pílatusar.12Á þessum sama degi urðu þeir Pílatus og Heródes vinir, því áður hafði verið fjandskapur þeirra á milli.13Nú lét Pílatus samankalla ena æðstu presta, höfðingjana og fólkið, og tók svo til orða:14þér hafið fært mér þennan mann, svo sem þann, er frásneri lýðnum; en sjáið! nú í yðar viðurvist hefi eg rannsakað málefni hans og ekki fundið hann sekan um nokkuð það, er þér ákærið hann fyrir.15Ekki heldur Heródes, því til hans sendi eg yður sjálfa. Sjáið nú! ekkert er það af honum drýgt, sem dauða sé vert,16ætla eg því að refsa honum og láta hann lausan.17(En hann varð að gefa þeim lausan einn bandingja á hvörri hátíð);18þá kallaði allur lýðurinn og sagði: lát þú aflífa þennan, en gef oss Barabbas lausan.19En þessi Barabbas var fyrir upphlaup í borginni og manndráp, settur í myrkvastofu.20Pílatus talaði enn þá til þeirra, og vildi láta Jesúm lausan;21en þeir hrinu upp og sögðu: krossfestú hann! krossfest þú hann!22Í þriðja sinni sagði Pílatus: hvað hefir þá þessi maður illt aðhafst? ekkert hefi eg fundið það, hvar fyrir hann sé dauða sekur; eg vil því refsa honum og láta hann lausan.23En þeir stóðu því fastar á með miklum óhljóðum, og kröfðu, að hann skyldi krossfestast og óhljóð þeirra og enna æðstu presta tóku yfir.24Þá lagði Pílatus þann úrskurð á, að þeirra vilji skyldi ske,25og gaf þeim að bón þeirra þann lausan, sem fyrir upphlaup og manndráp hafði verið settur í myrkvastofu, en Jesúm framseldi hann eftir vild þeirra.
26Þegar þeir leiddu hann út, tóku þeir mann nokkurn, Símon frá Kyrene, sem kom af akri, og lögðu krossinn upp á hann, að hann bæri hann eftir Jesú.27Mikill fjöldi fólks og kvenna fylgdi honum eftir, sem hörmuðu og grétu yfir honum.28Þá sneri Jesús sér til þeirra og mælti: þér, Jerúsalemsdætur! grátið ekki yfir mér, heldur yfir sjálfum yður, og börnum yðrum;29því trúið mér, að þeir tímar munu koma að menn munu segja: sælar eru óbyrjur og þau móðurlíf er ekkert fóstur báru, og þau brjóst, er ekki voru mylkt.30Þá munu menn segja til fjallanna: hrynjið yfir oss, og til hálsanna: hyljið oss;31ef menn fara svo með hið græna tréð, hvörsu mun þá fara fyrir hinu visnaða.32Með honum voru færðir til lífláts tveir illræðismenn.
33Þegar þeir voru komnir til þess staðar, sem kallaður er Hausaskeljastaður, þar krossfestu þeir hann og þessa illræðismenn, annan til hægri handar honum, en hinn til vinstri.34En Jesús sagði: Faðir! fyrirgef þeim, þeir vita ekki hvað þeir gjöra. Síðan skiptu þeir klæðum hans, og vörpuðu þar um hlutkesti.35Og fólkið stóð og horfði á; en höfðingjarnir gjörðu og gys að honum og sögðu: öðrum hefir hann hjálpað, hjálpi hann nú sjálfum sér, ef hann er Kristur, hinn útvaldi Guðs.36Sömuleiðis hæddu hann stríðsmennirnir, komu og báru honum súrt vín og sögðu:37ef að þú ert konungur Gyðinga, þá frelsaðu sjálfan þig.38Yfirskrift var og yfir honum rituð á grísku, rómversku og hebresku, þannig hljóðandi: „þessi er konungur Gyðinga“.39En annar af þeim illvirkjum, sem hengdir voru, spottaði hann og sagði: sértú Kristur, þá frelsaðu sjálfan þig og okkur.40Þá tók hinn til orða, ávítaði hann og sagði: hræðist þú ekki Guð, þar sem þú þó líður sama straff?41Við líðum að sönnu maklega fyrir okkar athæfi, en þessi hefir ekkert illt aðhafst.42Þá sagði hann við Jesúm: minnst þú mín, Herra! þegar þú kemur í ríki þitt!43Jesús mælti: sannlega segi eg þér: í dag skaltú vera með mér í Paradís.44Það var um sjöttu stund, að myrkur kom yfir allt landið, sem varaði allt til ennar níundu, og sólin missti sinnar birtu;45þá rifnaði og fortjald musterisins að endilöngu.46Og kallaði Jesús hárri raustu og sagði: Faðir! í þínar hendur fel eg minn anda, og er hann hafði þetta mælt, uppgaf hann sinn anda.47Nú er hundraðshöfðinginn sá þessa atburði, vegsamaði hann Guð og sagði: sannlega hefir þessi maður verið réttlátur;48og allt fólkið, sem komið hafði að horfa á þetta, þegar það sá hvað skeði, barði það sér á brjóst, og sneri heimleiðis;49en allir þeir, sem honum voru kunnugir, og konur þær, er honum höfðu fylgt úr Galíleu, stóðu langt frá, og sáu þetta.
50En sjá! þá kom maður, Jósep að nafni, hann var ráðherra, góður maður og réttvís.51Þessi maður hafði ekki samþykkt ráðum þeirra og athöfnum; hann var frá borginni Arimatea í Júdeu, og vænti Guðs ríkis.52Þessi maður gekk til Pílatusar, og bað hann um líkama Jesú,53tók hann síðan niður; sveipaði hann í líni, og lagði hann í höggna steingröf, í hvörja ekkert lík hafði áður lagt verið.54Þetta var aðfangadaginn, og hvíldardagurinn fór í hönd.
55En konur þær, er með Jesú höfðu komið úr Galíleulandi, fylgdu og eftir, skoðuðu legstaðinn, og sáu, hvörninn lík hans var lagt;56sneru síðan heim og tilbjuggu ilmandi smyrsl; en um helgina héldu þær kyrru fyrir, eftir því, sem lögmálið bauð.
Lúkasarguðspjall 23. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:04:22+00:00
Lúkasarguðspjall 23. kafli
Pílatus úrskurðar að Jesús sé saklaus; sendir hann til Heródesar; lætur Barabbas lausan, en fordæmir Jesúm. Símon ber hans kross. Jesús bannar Jerúsalemsdætrum að gráta yfir sér; er krossfestur; og biður fyrir sínum óvinum; hann er spottaður; yfirskriftin; annar ræninginn umvendist. Jesús deyr; undur við Jesú dauða; hans greftrun.
V. 1–25. Matt. 27,1–26. Mark. 15,1–15. Jóh. 18,28–29.16. V. 17. Hátíð, þ. e. páskahátíð. V. 26–32. Matt. 27,32. Mark. 15,21. V. 29. Sbr. Matt. 24,19.30. Hós. 10,18. V. 33–56. Matt. 27,33–60. Mark. 15,22–47. Jóh. 19,17–42. V. 43. Sbr. 1 Pét. 3,18.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.