1Eftir því að margir hafa tekið sér fyrir hendur að færa þá hluti í frásögur, er oss eru fullkunnir,2með því þeir menn hafa sagt oss þá, er frá öndverðu sjálfir voru sjónarvottar og flytjendur þessa lærdóms;3þá hefir mér einninn sýnst, eftir að eg hafði rannsakað öll þessi efni kostgæfilega frá rótum, að skrásetja þau fyrir þig, minn kæri Theóphílus!4svo þú hefðir óbrigðula vissu um, að það sé sannleikur, er þér hefir kennt verið.
5Þegar Heródes konungur réði fyrir Gyðingalandi, var þar prestur nokkur, er Sakarías hét, af prestaflokki Abíasar a); kona hans var komin af ætt Arons; hún hét Elísabet;6þau voru bæði ráðvönd, og breyttu í öllu óaðfinnanlega eftir boðum og skipunum Guðs.7Þau áttu ekki barna, því Elísabet var óbyrja, og bæði voru þau hnigin á efra aldur.8Einhvörju sinni bar svo til, þá röðin kom til þess prestaflokks, sem hann var í, og hann skyldi gegna prestsverkum í musterinu,9að honum hlotnaðist eftir venju prestaþjónustunnar, að veifa reykelsinu; gekk hann þá inn í musterið,10en allt fólkið var fyrir utan á bæn á meðan.11Þá birtist honum engill Guðs, sem stóð hægramegin við reykelsisaltarið;12og er Sakarías sá hann, varð hann felmtursfullur, og ótti féll yfir hann.13Þá mælti engillinn: vertú óhræddur, Sakarías! því bæn þín er heyrð. Kona þín Elísabet mun fæða þér son, þann skaltú Jóhannes nefna;14hann mun verða þér til fagnaðar og gleði, og margir munu gleðjast yfir hans fæðingu,15því hann mun verða mikill guðsmaður. Hann mun hvörki drekka vín né annan áfengan drykk, og allt í frá fæðingu hans mun hann fylltur verða heilögum Anda,16og mörgum Ísraelsmanna mun hann snúa til Guðs og Drottins þeirra.17Hann mun ganga fyrir hans augliti í Elíasar anda og krafti, svo að hann snúi hjörtum feðranna til barnanna, og komi inn hugarfari ráðvandra hjá hinum þverbrotnu, og tilreiði svo Drottni vel undirbúinn lýð.18Þá spurði Sakarías engilinn: hvað hann skyldi hafa til marks um þetta; því eg er—sagði hann—maður gamall, og kona mín er hnigin á efra aldur?19Engillinn mælti: eg er Gabríel, sem stend frammi fyrir Guði, sendur að flytja þér þessi gleðilegu tíðindi;20en þú munt mállaus verða og ekki fá talað, uns þetta kemur fram, vegna þess að þú efaðir orð mín, sem þó munu rætast á sínum tíma.21Á meðan beið fólkið eftir Sakaríasi, og undraðist, að hann dvaldist svo lengi í musterinu.22En er hann kom út, mátti hann ekki mæla; þóttist þá fólkið vita, að nokkuð mundi hafa borið fyrir hann, hvað hann og lét þá skilja í bendingum, því hann var mállaus.23En er hans tíðaþjónusta var á enda, fór hann heim til sín.24Eftir þetta varð Elísabet kona hans með barni, og hélt hún sig heima í fimm mánuði,25og sagði: þannig hefir Drottinn breytt við mig, þá hann vitjaði mín til að burttaka það, er menn sögðu mér til smánar.
26En á sjötta mánuði sendi Guð Gabríel engil í þá borg í Galíleu, sem heitir Nasaret,27til þeirrar meyjar, er María nefndist; hún var heitkona þess manns, sem Jósep hét, af ætt Davíðs.28Engillinn kom inn til hennar og kvaddi hana þessum orðum: heil vert þú, sem nýtur náðar Guðs og hylli, þú hin sælasta allra kvenna!29En hún varð hrædd, er hún sá hann og heyrði orð hans, og tók að hugleiða, hvílík þessi kveðja væri.30Þá mælti engillinn: hræðstú ekki María, Guð er þér náðugur;31þú munt barnshafandi verða og fæða sveinbarn; hann skaltú láta heita Jesús;32hann mun mikill verða og kallast Sonur hins Hæsta; Drottinn mun gefa honum ríki Davíðs forföður síns,33og hann mun ráða ævinlega yfir ætt Jakobs, og á hans ríki mun enginn endir verða.34Þá sagði María við engilinn: hvörninn má þetta ske, þar eg ekki hefi haft samræði við nokkurn karlmann?35Engillinn mælti: heilagur Andi mun koma yfir þig, og kraftur hins æðsta mun yfirskyggja þig, og þar fyrir mun það heilaga, sem af þér fæðist, kallast Sonur Guðs.36Það skaltú og vita, að Elísabet frændkona þín er orðin hafandi að sveinbarni í elli sinni, og hún, sem álitin var óbyrja er komin nú allt á sjötta mánuð;37því Guði er enginn hlutur um megn.38Þá mælti María: sjá, eg em ambátt Drottins! rætist á mér orð þín! að svo búnu fór engillinn í burtu.
39Litlu síðar fór María skyndilega til fjallbyggða, til borgar nokkurar í Júdeu,40kom í hús Sakaríasar, og heilsaði Elísabetu.41En svo brá Elísabetu við kveðju þessa, að barnið hrærðist í lífi hennar, og að hún uppfylltist heilögum anda,42kallaði hátt og mælti: blessuð ertú meðal kvenna, og blessað er það fóstur er þú gengur með!43hvaðan kemur mér það, að móðir Drottins míns kemur til mín?44því strax, sem kveðja þín kom mér til eyrna, hrærðist barnið af gleði í lífi mér;45sæl ertú, að þú ekki barst brigð á fyrirheiti Guðs, sem rætast mun á sínum tíma.46Þá sagði María: önd mín lofar Drottin,47og minn andi gleður sig í Guði Frelsara mínum.48Í náð sinni leit hann til auðvirðilegrar ambáttar sinnar, þess vegna munu mig allar aldir sæla prísa,49því hinn voldugi hefir breytt dásamlega við mig;50hans nafn er heilagt, og hans miskunnsemi varir um aldur og ævi við þá, sem hann óttast.51Hans armleggur hefir þrek unnið, þeim dramblátu hefir hann stökkt á dreif;52konungunum hefir hann hrundið úr hásæti, en hafið þá auðvirðilegu,53hungruðum hefir hann veitt allsnægtir, en ríka hefir hann látið snauða frá sér fara.54Hann hefir að sér tekið sitt barn, Ísraelslýð, með því að hann hefir minnst miskunnar þeirrar,55er hann hét að veita feðrum vorum, Abraham og niðjum hans, ævinlega.56Þar dvaldist María hér um þrjá mánuði, síðan fór hún heim til sín.
57Nú er tími var kominn að Elísabet skyldi verða léttari, ól hún sveinbarn.58En er nágrannar hennar og ættmenn heyrðu, hversu mikla velgjörð Guð hafði henni auðsýnt, samfögnuðu þeir henni.59Síðan komu þeir á áttunda degi að umskera sveininn, og vildu kalla hann Sakarías eftir föður sínum;60en móðir hans vildi það ekki, og kvað hann skyldi Jóhannes heita.61Þá sögðu þeir, að enginn væri í ætt hennar með því nafni;62bentu þeir síðan föður hans, að hann léti þá vita hvað hann vildi, að sveinninn héti.63Hann beiddi um spjald, og reit þar á: Jóhannes á hann að heita; og furðaði alla á því.64Í þessu bili fékk hann aftur mál sitt, og tók hann þá að tala og lofa Guð.65Þenna aðburð undruðust allir nærstaddir nábúar hans, og saga þessi barst út um allar fjallbyggðir Júdeu;66og öllum sem þetta heyrðu, varð það minnisstætt, og sögðu: hvað mun þessi sveinn verða?67Sakarías fylltist þá heilögum anda, spáði og mælti:68„Lofaður veri Drottinn, Guð Ísraelsmanna, sem vitjaði síns fólks, og frelsaði það,69og sendi oss öflugan hjálpara af ætt síns þjóns Davíðs,70eins og hann í öndverðu hét fyrir sína helgu spámenn,71að frelsa oss frá óvinum vorum og undan valdi allra vorra hatursmanna;72að auðsýna feðrum vorum miskunn, og efna sinn heilaga sáttmála,73eftir þeim eiði, er hann vann forföður vorum Abrahami, að hann vildi unna oss,74frelsuðum af valdi óvina vorra, að þjóna sér óttalaust,75með heilagleika og ráðvendni um alla ævi vora.76Og þú, sveinn, munt kallast spámaður Guðs, því þú munt verða fyrirrennari Drottins til að búa honum veg,77og gefa hans fólki þekkingu sáluhjálparinnar, fyrirgefningu syndanna,78fyrir hjartgróna miskunn Guðs vors, hvörri vér eigum það að þakka, að oss upprennur ljós af himni,79að lýsa þeim, sem í myrkrunum og dauðans skugga eru, að hann greiði fótum vorum feril til vegferðar.“80En sveinninn vóx og styrktist í anda. Dvaldi hann í fjallbyggðum til þess tíma, er hann fram gekk a) fyrir Ísraelslýð.
Lúkasarguðspjall 1. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:04:15+00:00
Lúkasarguðspjall 1. kafli
Formálinn; Gabríel boðar fæðingu Jóhannesar, og Guðs Sonar. María heimsækir Elísabet og vegsamar Guð; Jóhannes fæðist, Sakarías spáir, og Jóhannes vex upp.
V. 5. a. Prestaflokkur Abiasar, 1 Kron. 24,10. V. 9. sbr. 2 Mós. 36,7. 40,26.27. V. 15. sjá 4 Mós. 6,3. V. 17. sjá Malak. 4,6. V. 35. Matt. 1,18.20. V. 47. 1 Sam. 2,4.7. ff. Matt. 5,3. V. 53. Matt. 5,6. V. 55. 1 Mós. 17,7.19. 18,18. V. 73. 1 Mós. 22,16–18. V. 79. Esa. 42,7. V. 80. a. Þ. e. gaf sig opinberlega fram til að kenna.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.