Júdit leitar Guðs aðstoðar.

1En Júdit féll á sitt andlit, og stráði ösku yfir höfuð sér, og lét sjá þann sekk, sem hún hafði um sig vafið. Og einmitt á sama kvöldi var í Guðs húsi í Jerúsalem, tendrað reykelsi. Og Júdit kallaði með hárri rödd til Drottins og mælti:2Drottinn Guð míns föðurs Simeons, hvörjum þú gafst í hönd sverðið til hegningar á heiðingjum, sem losuðu belti meyjarinnar til krenkingar, og gjörðu hennar mjaðmir berar til háðungar, og vanhelguðu hennar blygðun til skammar, því þú sagðir: það skal ei svo vera, og þeir gjörðu það.3Því ofurgafstu þeirra fyrirmenn morðinu, og blóðsúthellingu þeirra sæng, sem skammaðist sín fyrir þeirra pretti, og þú deyddir þeirra þjóna, ásamt hússbændunum, og þá voldugu á þeirra hástólum.4Og þú gafst þeirra konur til ráns og þeirra dætur til hertekningar, og öll þeirra búsgögn til rupls, þínum elskuðu sonum, sem vandlættu þínu vandlæti, og höfðu viðbjóð á flekkun síns blóðs, og kölluðu þig til hjálpar. Ó Guð, minn Guð, heyr mig líka, ekkjuna!5því þú gjörðir það sem gjörðist fyrri en þetta, og hitt, og það sem þar eftir skeði, og það sem nú skeður; og það sem síðan kemur, hefir þú hugsað um, og það skeði sem þú hugsaðir.6Og það stendur, sem þú ályktaðir og sagðir: sjá, hér em eg! því allt þitt áform er á reiðum höndum, og þinn dómur fyrirséður.7Því, sjá, assýriskra her er mikill, og drambsamur af hrossum og reiðmönnum, reiðir hann sig á arm fótliðsins, treystir á skjöld og spjót og boga og slöngu og veit ekki að þú ert Drottinn, sem sundurmolar stríðskraftana. Drottinn er þitt nafn.8Brjót þeirra styrk með þínum mætti, og slá þeirra lið í þinni reiði! því þeir ætla sér að vanhelga þinn helgidóm, og svívirða bústað þíns dýrðlega nafns hvíldarstaðar, og afhöggva með járni horn þíns altaris.9Lít á þeirra drambsemi, send þína grimmd yfir þeirra höfuð, gef mér, ekkjunni, kraft í mína hönd, til þess, sem eg hefi í sinni!10Slá þú með mínum tælandi vörum, þrælinn með fyrirliðanum og fyrirliðann með sínum þénurum, tvístra þeirra drambláta her með kvenmanns hönd!11því ekki er þinn kraftur í fjöldanum, né þinn máttur í þeim sterku; heldur ert þú Guð hinna auðmjúku, hjálpari þeirra lítilmótlegu, aðstoð hinna veiku, verndari þeirra útskúfuðu, frelsari þeirra vonlausu.12Já! Guð míns föðurs, Guð þinnar eignar Ísraels, Herra himins og jarðar, skapari vatnanna, konungur allra þinna skepna, heyr mína bæn,13og ljá mér tal og tál til fárs og meiðsla þeirra, sem grimmd hafa í huga við þinn sáttmála og þitt heilaga hús og fjallið Síon, og við bústað þinna sona,14og kom til leiðar hjá öllu þínu fólki og öllum ættkvíslum, þeirri þekkingu, að kannast við, að þú sért Guð alls veldis og styrkleika, og að enginn annar sé Ísraelsfólks verndari en þú!