1En Ísraelsmenn höfðu stórlega syndgast á því bannfærða; Akan Karmison Sabdisonar Serakssonar af Júda kynkvísl hafði tekið nokkuð af því bannfærða; því reiddist Drottinn Ísraelsmönnum.
2Jósúa sendi menn frá Jeríkó til Aí sem liggur nálægt Betaven fyrir austan Betel, og sagði þeim: farið og njósnið um landið, þeir fóru, njósnuðu í Aí,3komu aftur til Jósúa og sögðu honum: lát ekki allt fólkið fara upp þangað, heldur hér um 2 eða 3 þúsundir, það nægir til að vinna Aí; en fólkið ómaki sig ekki allt, því þeir eru fáliðaðir;4þangað fóru hér um bil 3 þúsundir af fólkinu, en þeir flýðu fyrir Aísmönnum;5og Aísmenn felldu þrjátygi og sex af þeim, ráku þá frá portunum til Sebarim, og slógu þá niður eftir veginum; þá æðraðist fólkið og missti huga.6Þá reif Jósúa sín klæði, féll fram á ásjónu sína til jarðar fyrir örk Drottins og lá þar til kvölds, hann og öldungar Ísraels, og jusu moldu yfir höfuð sér;7og Jósúa sagði: ó Drottinn Guð! því leiddir þú fólk þetta yfir Jórdan, til að selja oss Amorítum í hendur, að þeir eyðileggi oss? ó! að vér hefðum ráðið það af að vera kyrrir hinumegin Jórdanar!8Heyr mig Drottinn! hvað skal eg segja, nú þegar Ísrael flýr fyrir óvinum sínum?9Þegar Kananítar og aðrir landsins innbúar spyrja þetta munu þeir umkringja oss, og afmá oss af jörðunni, með hvörju viltu þá viðhalda þínu mikla nafni?10Þá svaraði Drottinn Jósúa: statt upp! því liggur þú hér fram á ásjónu þína?11Ísrael hefir syndgað, þeir hafa yfirtroðið minn sáttmála, sem eg bauð þeim (að halda); þeir hafa tekið af því bannfærða, stolið, logið, og lagt það hjá sínum fjárhluta!12Ísraelsmenn skulu nú ei fá staðist fyrir sínum óvinum, heldur flýja fyrir þeim, því þeir eru í banni; hér eftir vil eg ekki vera með yður, ef þér ekki afmáið þá bölvun, sem meðal yðar er.13Stattu upp, og helgaðu fólkið, og segðu því: helgið yður til morguns, því svo segir Drottinn Ísraels Guð: bannfært fé er (geymt) hjá þér Ísrael og þú getur ekki staðist gegn óvinum þínum, fyrr en þér hafið því banni af yður komið.14Á morgun snemma skuluð þér mæta eftir yðar ættkvíslum, og sú ættkvísl, sem Drottinn hittir á, skal mæta eftir kynþáttum og hvör kynþáttum sem Drottinn hittir á, skal mæta eftir ættum, og sú ætt sem Drottinn hittir á, skal mæta mann fyrir mann;15og hjá hvörjum sem það bannfærða finnst, sá skal brennast í eldi og allt hvað hann hefir, þar eð hann braut boð Drottins og drýgði glæp í Ísrael.
16Daginn eftir var Jósúa snemma á fótum, og framleiddi Ísrael eftir ættkvíslum, og kom hlutur á ættkvísl Júda.17Og sem hann leiddi fram kynþætti Júda, féll hlutur yfir Seraks kynþátt; síðan lét hann Seraks kynþátt fram ganga, einn húsföður eftir annan, þá féll hlutur yfir Sabdi;18og síðan lét hann ætt hans fram ganga. hvörn hússbónda eftir annan, féll á hluturinn yfir Akan Karmison Sabdisonar Serakssonar af Júda ættkvísl.19Þá sagði Jósúa til Akans: Sonur minn! gef þú Drottni Ísraels Guði dýrðina, og gjörðu játningu fyrir honum! seg mér, hvað hefir þú gjört? leyn mig öngvu.20Akan svaraði og sagði: sannlega hefi eg syndgað gegn Drottni Ísraels Guði, svo og svo gjörði eg:21eg sá meðal herfangsins kostulega babýloníska kápu, tvö hundruð sikla silfurs, og gullspöng eina, fimmtíu sikla að vigt; þetta ágirntist eg, og tók það, og sjá! það er í jörðu grafið í tjaldi mínu og silfrið þar undir;22Jósúa sendi þá menn þangað, þeir runnu til tjaldsins, og sjá! það var fólgið í hans tjaldi, og silfrið þar undir.23Þeir tóku það úr tjaldinu, báru það til Jósúa og allra Ísraelsmanna, og lögðu það fram fyrir Drottin;24þá tók Jósúa og allur Ísrael með honum Akan Seraksniðja, silfrið, kápuna, gullspöngina, syni hans og dætur, uxa hans, asna, sauðfé og tjald og allt hvað hann átti, og flutti það upp í Akordsal,25og Jósúa sagði til hans: Hví hefir þú hrellt oss? Drottinn skal hrella þig í dag! Og allur Ísrael lamdi hann grjóti, og brenndi þá í eldi, og grýtti þá,26köstuðu þeir saman grjóthaugi stórum yfir þeim, sem enn sér merki til; svo lét Drottinn af sinni brennandi reiði, og þar af kallast þessi staður Akorsdalur allt til þessa dags.
Jósúabók 7. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:00:02+00:00
Jósúabók 7. kafli
Akan stelur af herfanginu.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.