1Eftir þetta var hátíð Gyðinga og Jesús fór upp til Jerúsalem.2En í Jerúsalem er laug við sauðaportið, sem kallast á hebresku Bethesda og hefir fimm forbyrgi.3Í þessum lá allur fjöldi veikra manna, blindra, haltra, visinna, sem biðu vatnsins hræringar.4Því á vissum tímum sté engill niður í laugina og hrærði upp vatnið, en hvör, sem fór fyrstur í laugina, eftir að vatnið hafði verið hrært, hann varð alheill, hvör veiki, sem hann þjáði.5Maður nokkur var þar, sem veikur hafði verið í þrjátíu og átta ár.6Þegar Jesús sá þennan liggja og vissi að hann hafði þegar lengi legið, segir hann við hann: viltú verða heill?7Sá veiki svaraði honum: Herra! eg hefi engan til, sem láti mig í laugina, þegar vatnið hrærist upp; svo þegar eg kem, er annar kominn niður í það á undan mér.8Jesús segir til hans: stattu upp, taktú sæng þína og gakk;9og strax varð maðurinn heill, tók upp sængina og gekk, en sá dagur var helgidagur.10Því sögðu Gyðingar við þann læknaða mann: það er helgidagur, þér leyfist ekki að bera sængina.11Hann svaraði þeim: sá sem mig gjörði heilan, hann sagði mér: ber þú sæng þína og gakk.12Þeir spurðu þá: hvör er sá maður, sem sagði þér: ber þú sæng þína og gakk?13En sá læknaði vissi ekki hvör sá var, því Jesús hafði í kyrrþey farið burtu, en þröng var mikil á staðnum.14Eftir þetta hitti Jesús hann í musterinu og sagði til hans: sjá! nú ertú orðinn heill, syndga þú ekki framar, að ekki vilji þér annað verra til.15Maðurinn gekk burt og kunngjörði Gyðingum að Jesús væri sá, sem hefði gjört sig heilbrigðan,16og vegna þess ofsóttu Gyðingar Jesúm, að hann gjörði þetta á helgum degi.17En Jesús svaraði þeim: Faðir minn vinnur til þess nú, og eg vinn og.18Vegna þess leituðust Gyðingar enn heldur við að ráða hann af dögum, af því hann ekki einungis braut helgina, heldur kallaði Guð Föður sinn, og gjörði sjálfan sig Guði jafnan.
19Jesús svaraði þá og sagði til þeirra: sannlega, sannlega segi eg yður: Sonurinn getur ekkert gjört af sjálfum sér, nema það, sem hann sér Föðurinn gjöra, því það, sem hann gjörir, það gjörir og Sonurinn sömuleiðis.20Því Faðirinn elskar Soninn og sýnir honum allt það, er hann sjálfur gjörir; og hann mun sýna honum meiri verk en þessi, svo yður mun furða.21Því að eins og Faðirinn uppvekur dauða og lífgar, þannig lífgar og Sonurinn þá, sem hann vill.22Ekki dæmir Faðirinn nokkurn, heldur hefir hann falið Syninum á hendur allan dóm,23svo að allir heiðri Soninn eins og þeir heiðra Föðurinn. Hvör, sem ekki heiðrar Soninn, sá heiðrar ekki Föðurinn, sem sendi hann.24Sannlega, sannlega segi eg yður: hvör, sem heyrir mitt orð og trúir þeim, sem mig sendi, sá hefir eilíft líf og kemur ekki til dóms, heldur hefir stígið yfir frá dauðanum til lífsins.25Sannlega, sannlega segi eg yður: sá tími mun koma og er þegar kominn, að hinir dauðu munu heyra raust Guðs Sonar og þeir, sem heyra, munu lifa.26Því eins og Faðirinn hefir lífið í sjálfum sér, svo gaf hann og Syninum að hafa lífið í sjálfum sér,27og hann hefir og gefið honum vald til að halda dóm, því hann er Mannsins Son.28Undrist ekki yfir því, að tími mun koma, á hvörjum allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra hans raust, og þeir munu ganga út;29þeir, sem gott hafa gjört til upprisu lífsins, en þeir, sem illt hafa aðhafst, til upprisu fordæmingarinnar.30Eg megna ekkert að gjöra af sjálfum mér; eg dæmi sem eg heyri og minn dómur er réttvís, því eg leita ekki míns vilja, heldur vilja Föðursins þess, sem sendi mig.31Ef eg vitna um sjálfan mig, þá er minn vitnisburður ekki sannur.32Annar er, sem vitnar um mig og eg veit að sá vitnisburður er sannur, sem hann vitnar um mig.33Þér hafið sent til Jóhannesar og hann bar sannleikanum vitni.34En eg tek ekki vitnisburð hjá mönnum, heldur tala eg þetta svo að þér frelsist.35Jóhannes var logandi og skínandi ljós, en þér hafið aðeins um stund viljað gleðjast við hans birtu.36En eg hefi vitnisburð meiri en Jóhannesar, þau verk, sem minn Faðir fékk mér að leysa af hendi, einmitt þau verk, sem eg gjöri, vitna um mig að Faðirinn hafi sent mig.37Og sjálfur Faðirinn, sem sendi mig, hann vitnar um mig. Hvörki hafið þér nokkurn tíma heyrt hans rödd, né séð hans ásýnd;38og þér hafið ekki í yður hans orð varanlegt, þar eð þér trúið ekki þeim, sem hann sendi.39Rannsakið Ritningarnar, því þar í hugsið þér að þér hafið eilíft líf, og þessar eru það, sem vitna um mig,40og samt viljið þér ekki koma til mín, svo þér hafið lífið.41Eg tek ekki heiður af mönnunum;42en eg þekki yður, að þér hafið ekki Guðs kærleika í yður.43Eg kom í nafni míns Föðurs og þér takið þó ekki við mér. Ef einhvör kæmi í sínu eigin nafni a), við honum munduð þér taka.44Hvörnig getið þér trúað, þér, sem sækist eftir heiðri hvör hjá öðrum, en leitið ekki heiðurs hjá Guði einum.45Ætlið ekki að eg muni ákæra yður hjá Föðurnum, sá er, sem ákærir yður, Móses, hvörjum þér treystið.46Ef að þér tryðuð Móses, þá tryðuð þér og mér, því hann hefir skrifað um mig. En ef þér trúið ekki hans bókum, hvör von er þá að þér trúið mínum orðum? (5 Msb. 18,15. fl).
Jóhannesarguðspjall 5. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:04:30+00:00
Jóhannesarguðspjall 5. kafli
Jesús læknar þann við Bethesdalaug á sabbatsdegi, sem veikur hafði verið í 38 ár, forsvarar verkið.
V. 10. Heb. 13,19. Jer. 17.21. V. 14. Matt 12,41. V. 23. Matt. 28,18. V. 27. Dan. 7,13.14. V. 43. a. Án þess að hafa þar til guðlega köllun.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.