Gæska Drottins við sitt fólk.

1Sökum Síonsborgar get eg ekki þagað, og sökum Jerúsalemsborgar ekki verið kyrr, fyrr en hennar réttlæti rennur upp, sem ljómi, og hennar hjálpræði, sem brennandi blys.2Þá skulu heiðingjarnir sjá þitt réttlæti, og allir konungar þína vegsemd; og þú skalt nefnd verða nýju nafni, sem Drottinn sjálfur mun tiltaka.3Þú skalt verða sem fögur kóróna í hendi Drottins, og sem veglegur ennidúkur í hendi vors Guðs.4Þú skalt ekki framar nefnd verða „hin yfirgefna“, og land þitt skal ekki framar kallast „hið eyðilagða“, heldur skaltu nefnast „mín unnusta“, og land þitt „eiginkvinna“; því Drottinn ann þér, og land þitt skal fá eiginmann sinn.5Því eins og ungur maður fær meyjar, eins skulu synir þínir eignast þig; og eins og brúðgumi gleðst yfir brúðinni, eins mun þinn Guð gleðjast yfir þér.6Á borgarveggjum þínum, Jerúsalemsborg, mun eg setja vökumenn, sem aldrei skulu þegja, nótt né nýtan dag. Biðjið án afláts, þér sem ákallið Drottin!7Biðjið hann án afláts, uns hann hefur reist aftur Jerúsalemsborg, og gjört hana vegsamlega á jörðinni!8Drottinn hefir svarið við sína hægri hönd og við sinn máttuga armlegg: Eg skal aldrei hér eftir gefa þínum óvinum korn þitt að eta, og synir útlendra manna skulu aldrei drekka þinn vínberjalög, sem þú hefir erfiði fyrir haft;9heldur skulu þeir, sem hirt hafa kornið, njóta þess, og lofa Guð fyrir: og þeir, sem vínberjaleginum hafa safnað, skulu drekka hann í forgarði míns helgidóms.10Gangið út, gangið út um borgarhliðin! ryðjið veginn fyrir fólkinu! hækkið, hækkið brautina! ryðjið burt grjótinu, og setjið upp merki fyrir landslýðinn!11Sjáið, Drottinn gjörir heyrum kunnugt allt til enda veraldar: Segið Síonsdóttur: sjá, þinn frelsari kemur! sjá! hans laun eru í för með honum, og hans endurgjald fer á undan honum.12Þeir munu kallaðir verða „fólkið heilaga, hinir endurleystu Drottins“, og þú skalt nefnast „borgin fjölsótta og óyfirgefna“.