1Svo segir Drottinn: hvar er sú skilnaðarskrá, með hvörri eg hafi rekið móður yðar frá mér? Eða hvör er sá lánadrottinn minn, hvörjum eg hafi selt yður? Sjáið, sökum synda yðvarra eruð þér seldir, sökum misgjörða yðvarra er móðir yðar burtu rekin.2Hvörs vegna kom engi til mín, þegar eg kom til yðar? Hví gegndi mér enginn, þá eg kallaði? Hvört er hönd mín svo stutt orðin, að hún kunni ekki að frelsa? eða vantar mig mátt til að bjarga? Sjáið! með minni hótan uppþurrka eg sjávarhafið, og gjöri fljótin að eyðimörku, svo fiskarnir í þeim úldna af vatnsleysi og deyja af þorsta.3Eg færi himininn í svartan hjúp, og sveipa hann í sorgarbúning.
4Drottinn hinn alvaldi tamdi svo tungu mína, að eg hafði vit á að styrkja hinn ístöðulausa með máli mínu. Hann vakti, á hvörjum morgni vakti hann eyra mitt, svo eg tæki eftir, eins og lærisveinn.5Drottinn hinn alvaldi opnaði eyra mitt, og eg var ekki óhlýðugur og þverskallaðist ekki.6Eg snera baki mínu að þeim, sem slógu mig, og kinn minni að þeim, sem reyttu mig: eg byrgða ekki mína ásjónu fyrir smán og hrákum.7En Drottinn hinn alvaldi hjálpar mér, þess vegna verð eg ekki til minnkunar; þess vegna býð eg fram ásjónu mína, eins og harðstein, að eg veit, að eg verð ekki til skammar.8Sá er nærri, sem tekur að sér mál mitt. Hvör vill gefa mér sakir? Látum oss eiga fund saman! Hvör sem hefir sök að kæra á hendur mér, hann gangi fram til mín!9Sjá! Drottinn hinn alvaldi veitir mér lið; hvör er sá, er geti gjört mig sekan? Sjá! þeir a) fyrnast allir, sem fat; mölur skal eyða þeim.10Sérhvör af yður, sem óttast Drottinn, hann hlýði raustu þjóns hans. Sá sem í myrkrunum gengur, og öngva skímu sér, hann treysti á nafn Drottins og reiði sig á sinn Guð.11Sjáið! Allir þér sem kveikið eld og hafið logbranda kringum yður, gangið þér út í þann eld, sem þér hafið kveiktan, og þá logbranda, sem þér hafið tendraða! Frá minni hendi kemur þetta yfir yður; í harmkvælum skuluð þér liggja.
Jesaja 50. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:02:48+00:00
Jesaja 50. kafli
Spámaðurinn ræður Gyðingum, hvörjum Guð hegndi sökum illverka þeirra, að breyta eftir þjóni Drottins, vanda ráð sitt og treysta Guði.
V. 1. Móðirin er Ísraels þjóð, hennar börn Gyðingarnir. Skuldunautar urðu stundum að láta börn sín í skuldir til lánadrottna sinna. V. 9. Þeir, ákærumenn mínir.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.