1Vei þér, sem herjar, án þess herjað hafi verið á þig: sem gengur á griðin, án þess tryggðir hafi verið rofnar við þig! Þegar þú ert hættur hernaðinum, skal á þig sjálfan herjað verða; þegar þú ert búinn að rjúfa griðin, skulu tryggðir verða rofnar við þig.2Drottinn, vert oss líknsamur! Vér vonum á þig. Vertu vor styrkur á hvörjum morgni, og vort hjálpræði á neyðartímanum!3Þegar raust þín hljómar, flýja þjóðirnar; þegar þú rís upp, tvístrast heiðingjarnir.4Þá mun yðar herfangi verða safnað, eins og þegar grasvargur er að tína; menn munu stökkva á herfangið, eins og þegar jarðvargar stökkva.5Háleitur er Drottinn, hann sem býr á hæðum uppi: hann fyllir Síonsborg með réttindum og réttlæti.6Því vísdómur og þekking skal vera vörn og hjálparstyrkur þinnar tíðar, og ótti Drottins fjársjóður hennar.7Sjá! hetjurnar kalla um hjálp úti fyrir; friðarboðarnir gráta beisklega.8Þjóðvegirnir eru aflagðir: ferðamenn eru hættir að fara um farinn veg. Hann hefir rofið sáttmálann, hann fyrirlítur borgirnar, og skeytir engum manni.9Landið sýtir og syrgir; Líbanonsskógur fyrirverður sig, hann er visnaður: Saronsvöllur er eins og auðn: Basansheiði og Karmelsfjall hafa kastað skrúðinu.10Nú vil eg upprísa, segir Drottinn, nú vil eg auðsýna mig hátignarlegan, og tjá mig voldugan.11Þér gangið með gras, og alið hálm: yðar andi er eldur, og sá eldur skal eyða yður.12Þjóðirnar skulu verða að kalkbrennu: þær skulu í eldi brenndar verða, sem upphöggnir þyrnar.13Heyrið, þér sem fjarlægir eruð, hvað eg hefi gjört; þér sem nálægir eruð, gætið að mínum styrkleika!14Hinir syndugu í Síonsborg eru óttaslegnir: skjálfti gagntekur hina guðlausu: „hvör er sá á meðal vor (segja þeir), sem búa megi við brennanda eld? Hvör af oss getur búið hjá eilífum glóðum“?15Sá sem framgengur réttvíslega og talar sannleika, sá sem hafnar þeim ávinningi, sem fæst með ofríki, sá sem bandar hendi sinni móti fégjöfum, sá sem byrgir fyrir eyru sín, svo hann skuli ekki heyra til, þegar ráðin eru manndráp, sá sem afturlykur augum sínum, svo hann sjái ekki það, sem illt er:16sá skal búa uppi á hæðunum, hamraborgirnar skulu vera hans vígi: brauðið skal verða fært honum, og vatnið handa honum skal aldrei þverra.17Augu þín skulu sjá konunginn í ljóma sínum; þau skulu horfa á landið víðs vegar.18Hjarta þitt mun hugsa til hinna óttalegu tímanna (og segja): hvar er mannkvöðumaðurinn? hvar er skattakarlinn? hvar er hann, sem telur turnana?19Þú skalt ekki framar sjá hina ofstopafullu þjóð, sem talar svo óglöggt mál, að ekki verður numið, og svo óskilmerkilega tungu, að engi fær skilið.20Þú munt horfa á Síonsborg, vorn samkundustað; augu þín munu sjá Jerúsalemsborg, hinn örugga bústaðinn, þá tjaldbúðina, sem aldrei verður úr stað færð, og aldrei losna hælar hennar, og aldrei slitna stög hennar.21Því Drottinn hinn allsvoldugi mun vera oss þar í stað vatnsfalla, eins og breið fljót, hvar engar róðrarferjur geta gengið, og engin stórskip um farið.22Því Drottinn, vor dómari, Drottinn, vor löggjafi, Drottinn, vor konungur, mun frelsa oss.23Stagirnir á skipi þínu eru lausir, sigluþóftan ekki skorðuð, og seglið ekki útflett. Nú skal þegar taka til að skipta því mikla herfangi, sem rænt hefir verið; jafnvel hinir höltu skulu ræna,24og enginn af innbyggjendum borgarinnar skal segja: eg er sjúkur. Fólkinu, sem í borginni býr, eru syndir þess fyrirgefnar.
Jesaja 33. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:02:41+00:00
Jesaja 33. kafli
Um frelsun Gyðinga undan hernaði Senakeribs.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.