1Æ, Aríelsborg, Aríelsborg, þú aðsetursstaður Davíðs! Þegar enn er komið eitt ár, og að liðnum einum hátíðahring,2vil eg þrengja svo að Aríelsborg, að þar skal vera eintóm hryggð og angist; en hún mun reynast mér eins og (sannkallað) altari Guðs.3Eg vil setja herbúðir allt í kring um þig, þrengja að þér með herliði, og reisa hervirki á móti þér.4Þú skalt niðurlægð verða: liggjandi á jörðu skaltu mæla, og úr moldardufti tala í hálfum hljóðum; rödd þín skal koma neðan úr jörð, eins og draugsrödd, og þú skalt ýlfra mæðulega upp úr moldinni.5En mergð fjandmanna þinna skal verða að þunnu moldarryki, og fjöldi ofsóknarmanna þinna að fjúkandi sáðum; og það skal verða skyndilega, á einu augabragði.6Drottinn skal heimsækja þenna óvinafjölda með reiðaþrumum, landskjálftum og miklum gný, fellibyljum, stormviðri og brennandi eldslogum.7Fyrir öllum þeim mannfjölda, sem fer leiðangur móti Aríelsborg, herjar á hana og varnarvirki hennar, og þrengir að henni, skal fara eins og í draumi þeim, sem ber fyrir mann á nóttu.8Eins og hungraðan mann dreymir, að hann eti, en er þó jafnmatlystugur, þegar hann vaknar: eins og þyrstan mann dreymir, að hann drekki, en er þó jafnmáttvana, þá hann vaknar, af því hann langar í svaladrykkinn: eins mun fara fyrir öllum þeim mannfjölda, sem herjar á Síonsfjall.
9Fallið í stafi og undrist! verið sjónlausir og blindir! Þeir eru drukknir, en ekki af víni; þeir reika, og þó ekki af áfengum drykk.10Því Drottinn hefir úthellt yfir yður svefnsemisanda; hann hefir afturlukt augum yðar, og brugðið hulu yfir spámennina, og yfir þá af höfðingjum yðar, sem þykjast fá vitranir;11svo að öll opinberan er yður sem orð bókar þeirrar, sem innsigluð er. Sé hún fengin þeim, sem kann að lesa, og sagt, „les þú þetta“, þá svarar hann: eg get það ekki, því bók þessi er innsigluð;12en sé hún fengin ólæsum manni, og hann beðinn um að lesa hana, þá segir hann: eg er ekki læs.13En Drottinn segir: Með því þetta fólk nálgast mig með munni sínum, og heiðrar mig með vörum sínum (einungis), en fjarlægir hjarta sitt langt í burt frá mér, og með því guðhræðsla þeirra er innifalin í mannaboðorðum, sem þeim hafa kennd verið:14Þess vegna sjá, eg vil hér eftir gjöra þetta fólk að undri, og svo skal kynlega við bregða, að vísdómur spekinga þeirra skal undir lok líða, og hyggindi hyggindamannanna hverfa í felur.15Vei þeim, sem leggjast svo djúpt, að þeir vilja dylja áform sín fyrir Drottni, og fela athafnir sínar í myrkri, og segja: hvör sér til vor? hvör veit af oss?16Sannarlega skuluð þér taka umskiptum, eins og leirsmiðsmór. Getur smíðisgripurinn sagt um smiðinn: „þú hefir ekki smíðað mig“? eða myndin um myndarann: „hann hefir ekki kunnað neitt“?17sjá, það skal ekki á löngu líða, að Líbanonsskógur skal verða að aldinmörk, og aldinmörkin að skóglandi.18Og á þeim degi skulu þeir, sem daufir eru, heyra orð bókarinnar (v. 11.12), og augu þeirra sem blindir eru, skulu sjá í gegnum myrkur og dimmu.19Hinir voluðu skulu af nýju gleðjast í Drottni, og hinir fátæku í hinum heilaga Guði Ísraels:20Þegar ofbeldismaðurinn er undir lok liðinn, spottarinn tortýndur, og allir þeir afmáðir, sem eru árvakrir til þess, sem illt er,21sem lokka menn með fortölum til þess að syndgast, sem leggja snörur á þingum fyrir þann, sem vandar um við aðra, og bera fyrir borð málefni hins saklausa.22Þess vegna segir Drottinn, hann, sem frelsaði Abraham, svo til Jakobsniðja: Nú skulu Jakobsniðjar ekki blygðast framar, og ásjónur þeirra ekki blikna.23Því þegar þeir sjá afkvæmi sín, sem eru verk minna handa, mitt á meðal sín, þá munu þeir vegsama mitt nafn, vegsama hinn heilaga Jakobs Guð, og óttast Ísraels Guð.24Þá munu fáráðlingarnir fá betri skilning, og hinir mótmælasömu fræðast betur.
Jesaja 29. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:02:41+00:00
Jesaja 29. kafli
Drottinn frelsar Jerúsalemsborg úr hershöndum; blindni þjóðarinnar og afturhvarf á betra veg.
V. 1. Aríelsborg (Guðsaltaris-Borg) er Jerúsalemsborg, af Aríel, altari Guðs, sem sumir útleggja „Guðs ljón“.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.