1Spádómur um Sjónadalinn a). Hvað gengur nú að þér, að þú skulir vera stiginn upp á húsþök með allt þitt?2Þú, sem (áður) varst full af glaumi, hávaðasöm borg og ofkætisfullur staður! Menn þínir, sem fallnir eru, hafa ekki orðið sverðbitnir, og ekki fallið í orrustu.3Höfuðsmenn þínir eru flúnir allir saman; allir menn þínir, sem náðst hafa, eru handteknir bogalausir, og eins þeir, sem langt hafa burtu flúið, þeir eru handteknir líka.4Þess vegna bið eg: látið mig kyrran b), eg vil gráta beisklega; gjörið mér ekki ónæði með því að hugga mig yfir óförum borgar míns fólks.5Því dagur styrjaldar, undirokunar og úrræðaleysis er í Sjónadalnum, að ráðstöfun hins Alvalda, Drottins allsherjar. Múrveggurinn er niður brotinn, óhljóðin heyrast upp til fjalls.6Elamsmenn bera örvamælana og hafa með sér vagna, menn og hesta; Kírverjar hafa tekið (vefjurnar) utan af skjöldunum.7Þínir fegurstu dalir eru fullir af vögnum; riddaraliðið hefir tekið sér stöðu fyrir borgarhliðunum.8Hlíf Júdaríkis er burtnumin. Þér skyggnist um á þeim degi eftir herbúnaðinum í skógarhúsinu c);9þér skoðið veggjaskörðin á Davíðsborg, því þau eru mörg; þér safnið að yður vatninu úr neðri tjörninni;10þér teljið húsin í Jerúsalemsborg, og brjótið hús niður, til að víggirða múrvegginn með;11þér búið til vatnsstæði milli beggja múrveggjanna fyrir vatnið úr gömlu tjörninni. En—þér gefið ekki gætur að honum, sem gjörði þetta, þér lítið ekki til hans, sem hagaði þessu svo fyrir löngu.12Hinn Alvaldi, Drottinn allsherjar, kallar menn á þessum degi til að gráta og kveina, til að reita hár sitt og taka sorgarbúning!13En sjá! hér er fögnuður og kátína! hér er verið að drepa naut, slátra fénaði, eta kjöt og drekka vín: „látum oss eta og drekka (segja menn), því á morgun eigum vér að deyja!“14Þetta er Drottni allsherjar alkunnugt. Sannarlega verður þessi misgjörð ekki afplánuð, nema þér látið lífið fyrir, segir hinn Alvaldi, Drottinn allsherjar.
15Svo sagði hinn Alvaldi, Drottinn allsherjar: Far þú og gakk til þessa handgengna manns, til dróttsetans Sebna (og seg til hans):16Hvað hefir þú hér að gjöra? Hvör hefir vísað þér hingað, er þú lætur höggva þér hér gröf. Hann höggur sér gröf á hávum stað, og grefur sér legstað í klettinum!17Sjá þú, Drottinn kastar þér í burtu af afli; hann þrífur fast í þig,18vindur þig saman í hnoða, eins og leiksopp, og varpar þér út á víðavang: þar skaltu deyja, þar skulu þínir dýrlegu vagnar standa, þú, sem hefir svívirt hús herra þíns.19Eg hrindi þér úr sæti þínu, og hann steypir þér úr þinni stétt.20Á þeim degi vil eg kalla á minn þjón, Eljakim Hilkíason;21eg vil færa hann í þinn serk, girða hann með þínu belti, og fá honum í hendur vald þitt; hann skal vera faðir Jerúsalemsborgarmanna og Júdaniðja.22Eg vil leggja lykil Davíðs húss á herðar hans; þegar hann lýkur upp, skal enginn læsa; þegar hann læsir, skal enginn upp ljúka.23Eg vil reka hann, eins og nagla, á haldgóðan stað; og hann skal verða veglegt hásæti fyrir hús föður síns.24Á honum skal hanga allt það, sem veglegt er í húsi föður hans, allur prýðilegur og dýrmætur húsbúnaður, öll smáker, bæði skálar og alls konar leirker.25Á þeim degi, segir Drottinn allsherjar, skal sá nagli, sem áður var rekinn á haldgóðum stað, burtu víkja, brotna og falla, og það, sem á honum hékk, ofan detta; því Drottinn hefir svo til skipað.
Jesaja 22. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:02:41+00:00
Jesaja 22. kafli
Spádómur um umsátur Jerúsalemsborgar; Sebna dróttseti afsettur, og Eljakim Hilkíason settur í stað hans.
V. 1. Sjónadalur, þar með er litið til Jerúsalemsborgar. V. 4. b. Á hebr., „sjáið frá mér, horfið ekki á mig.“ V. 8. c. Skógarhús, vopnahús, 2 Kron. 9,16.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.