1Því Drottinn elskar Jakobsniðja, og er enn unnandi Ísraelsmönnum. Hann mun flytja þá inn í land þeirra, og útlendir menn munu sameinast þeim, og leggjast á eitt með Jakobsniðjum.2Þjóðirnar munu flytja þá, og koma þeim til átthaga sinna; en Ísraelsniðjar munu eignast þá að þrælum og ambáttum í landi Drottins, svo að þeir munu hertaka hertakendur sína og drottna yfir drottnendum sínum.
3Þegar Drottinn hefir veitt þér hvíld af þinni armæðu og ónæði, og hinni hörðu ánauð, sem á þig var lögð,4þá muntu kyrja upp þetta kvæði um Babelskonung, og segja: hvörnig er kúgarinn niðurbældur, og yfirgangurinn sefaður?5Drottinn hefir sundurbrotið barefli hinna óguðlegu, og stafsprota yfirdrottnaranna,6sem sló þjóðirnar í bræði með þeim slögum, er aldrei linntu, og drottnaði yfir fólkinu í reiði með vægðarlausri ofsókn.7Nú hefir öll jörðin ró og hvíld; allir láta til sín heyra fagnaðarsöng.8Furutrén gleðjast jafnvel yfir þér, og sedrustrén í Líbanonsskógi (segja): „fyrst þú er lögst fyrir, þá mun enginn stíga upp hingað til að upphöggva oss“.9Undirheimur fer á kreik til móts við þig, þá þú kemur. Hann heitir á vofurnar, á alla höfðingja jarðarinnar, og býður öllum konungum þjóðanna að standa upp af hásætum sínum.10Þeir taka allir til orða, og segja til þín: þú ert þá einnig orðinn máttvana, eins og vér; þú ert orðinn vor jafningi.11Ofmetnaður þinn er niður varpaður í undirheima, ásamt með hljóminum þinna harpna; ormarnir eru breiddir undir þig, og maðkarnir ofan á þig.12Hvörnig ertu af himni ofan fallin, þú hin fagra morgunstjarna? Hvörnig ertu til jarðar niður hrundinn, þú sem varla virtir þjóðirnar viðlits?13Þú sagðir í þínu hjarta: „eg vil upp stíga til himins, upp yfir stjörnur Guðs vil eg setja hásæti mitt, eg vil setjast að á samkundufjallinu lengst upp í norðri.14Eg vil upp stíga á hæðir skýjanna, og líkur verða hinum allrahæsta“.15Þú ert þó niður kastaður í hin innstu fylgsni í undirheimi.16Þeim, sem sjá þig, verður starsýnt á þig, þeir virða þig fyrir sér (og segja): er þetta maðurinn, sem skók jörðina og skelfdi konungaríkin?17sem gjörði jarðarkringluna að eyðimörk, braut niður borgir hennar, og gaf ekki heimfararleyfi þeim, er hann hafði til banda tekið?18Allra þjóða konungar liggja þó allir, virðulega grafnir, hvör í sínum legstað;19en þú ert burtsnaraður ógrafinn, eins og auðvirðilegur kvistur; þú ert þakinn dauðra manna búkum, þeirra er með sverði hafa verið gegnumstungnir og lagðir niður í steinþrórnar, eins og fóttroðið hræ.20Þú skalt eigi grafinn verða, eins og aðrir konungar, því þú hefir lagt land þitt í eyði, og drepið niður fólk þitt. Afsprengi óguðlegra skal ekki nefnt verða á nafn að eilífu.21Brytjið niður afkomendur hans, fyrir misgjörða sakir feðra þeirra, svo þeir fái ekki á legg risið til þess að brjóta undir sig jörðina og fylla yfirborð heimskringlunnar með (herteknum) borgum!22Eg vil upp rísa í gegn þeim, segir Drottinn allsherjar, og afmá nafn Babelsborgar, og það sem eftir er, bæði börn og barnabörn, segir Drottinn.23Eg vil gjöra hana að íglabæli og að stöðutjörn, og sópa henni burt með sópi eyðileggingarinnar, segir Drottinn allsherjar.
24Drottinn allsherjar sór, og sagði: í sannleika skal það verða, sem eg hefi fyrirhugað, og það, sem eg hefi ráð fyrir gjört, skal fram koma.25Eg skal sundurbrjóta Assyríukonung í landi mínu, og niðurtroða hann á mínum fjöllum, og þá skal það ok, og sú byrði, sem hann hefir þeim (Ísraelsmönnum) á herðar lagt, ofan falla.26Þessi er sú ráðstöfun, sem áformuð er yfir öllum löndum, og þessi er sú hönd, sem útrétt er yfir allar þjóðir.27Því Drottinn allsherjar hefir þessu ráðstafað: hvör vill ónýta það? Hans hönd er útrétt: hvör vill aftra henni?
28Þessi spádómur var (kunngjörður) sama árið, sem Akas konungur andaðist:29Gleðst eigi, þú gjörvallt Filistealand, yfir því, þó sá stafsproti, sem sló þig, sé í sundur brotinn, því út af rót höggormsins mun hornormur koma, og ávöxtur hans verða flugdreki.30Hinir allra lítilmótlegustu skulu hafa nóg viðurværi, og fátæklingarnir hvílast óttalausir, meðan eg læt rót þína deyja út af hungri, og meðan hann (hornormurinn) drepur það, sem eftir verður af þér.31Kveinið, þér borgarhlið! Hljóða, þú borg! Gjörvallt Filistealand, þú æðrast; því mokkur kemur úr norðurátt: sú þyrping fer ekki sundurlaus.32Og hvörsu skal þá svara sendimönnum þjóðarinnar?—Að Drottinn sé grundvöllur Síonsborgar, og að hans fólk leiti sér hælis í henni.—
Jesaja 14. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:02:34+00:00
Jesaja 14. kafli
Frelsun Gyðinga; lofsöngur yfir eyðileggingu Babelsborgar. Spádómur um Assýríukonung (Senakerib). Spádómur móti Filisteum.
V. 29. Usías, konungur í Júdaríki, hafði brotið undir sig Filistealand, (2 Kron. 26) en Filistear brutust aftur undan Akasi konungi, og gjörðu miklar óspektir í Júdaríki, (2 Kron. 28,18); Esekías konungur vann bug á þeim aftur, (2 Kóng. 18,8). Stafsprotinn og Höggormurinn merkir Usías konung, en hornormurinn og flugdrekinn Esekias konung. V. 31. Mokkur, þ. e. manngrúi, herlið.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.