1Móti Móab. Svo segir Drottinn herskaranna, Ísraels Guð: vei yfir Nebó, því það (land) er eytt! svívirðilega er Kirjataim unnin, Mirgab er skammarlega niðurrifin.2Móabs frægð er farin; í Hesbon hugsa menn illt móti hinni sömu: „komið, og látum oss uppræta hana meðal þjóðanna“! Einnegin, þú Madmen, munt afmáð verða, þig eltir sverðið!3Óp gellur frá Horonaim yfir eyðilegging og miklu tjóni!4Móab er sundurmarið (land), þess ungbörn veina.5Á stígnum frá Lúkit, stígur vein yfir vein. Því frá brekkunni hjá Horonaim heyrist angistarópið:6flýið, bjargið yðar lífi, og verið líkir þeim nöktu á eyðimörku!7Því af því þú reiddir þig á þinn afla og þinn auð, skaltu líka verða unninn, og afguð þeirra Kamos (1 Kgb. 11,7.) kemst í vesæld, hans prestar og höfðingjar í einu lagi.8Og eyðileggjarinn kemur yfir sérhvörn stað, og enginn sleppur; dalurinn verður skemmdur, og sléttlendið eyðilagt, eins og Drottinn hefir talað.9Fáið Móab vængi, því fljúgandi mun hann fara, og hans staðir verða að auðn, innbúalausir.10Bölvaður sé sá sem gjörir verk Drottins sviksamlega, og bölvaður sá sem synjar sínu sverði um blóð!
11Móab hefir verið spakur frá æsku, og legið á sínum dreggjum, og honum var aldrei hellt úr einu íláti í annað, og í eymd komst hann aldrei: því hafði hann ætíð sama smekk, og hans lykt var hin sama.12Sjá! þess vegna, segir Drottinn: dagar koma, að eg sendi honum kjallaramenn, sem hagga um það (hans vín) og tæma hans ílát og mölva hans brúsa.13Og til skammar verður Móab og Kamos, (þeirra afguð) eins og Ísraels hús er til skammar orðið sökum b) Betel sem þeir treystu.14Hvörnig getið þér sagt: vér erum hetjur og öruggir menn til stríðs?15Móabs(land) er eyðilagt, og þess staðir stíga upp (í reyk), og kjarna þess ungu manna er slátrað, segir konungurinn, Drottinn herskaranna er hans nafn.16Móabs tjón þokast nær, og hans ógæfa, hraðar sér mikið.17Vorkennið því, allir þess nábúar, og allir sem þekkið það! segið: hvörnig brotnaði sú öfluga veldisspíra, sá dýrðlegi sproti!
18Stíg niður frá dýrðinni og sit í þurrkinum, Dibonsdóttir, þú sem þar hefir búið! því Móabs eyðileggjari, stefnir að þér, niðurrífur þín vígi.19Gakk fram á veginn og sjá! þú sem býr í Aróer! spyr flóttamennina, og þá sem undan hafa komist, seg: hvað er skeð?
20Móab er svívirtur, því (hann) er eyðilagður; æpið og hljóðið, kunngjörið það hjá c) Arnon, að Móab er eyðilagður!21Og dómur er genginn yfir það flata land, yfir Holon og yfir Jasa og yfir Mefaat,22og yfir Díbon og yfir Nebo og yfir Bet-Diblataim,23og yfir Kirjataim, og yfir Bet-Gamul og yfir Bet-Maon,24og yfir Kerjot og yfir Bosra, og yfir alla staði Móabslands, nálæga og fjarlæga.25Búið er að höggva hornin af Móab, hans armur er brotinn, segir Drottinn.
26Gjörið hann drukkinn, því mót Drottni hóf hann sig, svo hann gefi sig upp, spúandi, og verði sjálfur að athlægi.27Eða var Ísrael þér ekki að athlægi? Var hann gripinn með þjófum, að þú skyldir hrista yfir honum höfuðið, svo oft sem þú um hann talaðir?28Farið burt úr stöðunum og búið í klettunum, Móabs innbúar, og verið eins og dúfan sem hreiðrar sig andspænis í holudyrum!
29Vér höfum orðið varir við Móabs drambsemi, hans mikla dramb, hans stolt og drambsemi og yfirlæti og grobb.30Eg þekki, segir Drottinn, hans dramblæti; hans verk samsvara ekki hans grobbi.31Því græt eg yfir Móab, og kveina yfir öllum Móab, yfir mönnunum í Kir-Heres andvarpa menn.32Meir en a) Jaeser grét, græt eg yfir þér, Sibma vínviður! þínir vinkvistir fóru yfir hafið, allt til hafsins frá Jaeser náðu þeir, eyðileggjarinn kemur inn í þína ávaxta hirðingu, og vínuppskeru.33Gleðinni og fagnaðarlátum er burt svipt frá Karmel og Móabslandi; á víninu í pressunni gjöri eg enda, menn troða ekki framar (vínþrúgu) með vínuppskerufagnaðarópi; ópið er ekki óp.34Frá þeirri æpandi Hesbon til Eleale, til Jahas, láta þeir sína raust glymja; frá Sóar til Horonaim, þrévetru kvígunnar; því líka eru Nimrimsvötn eyðilögð.35Eg gjöri út af við Móab, segir Drottinn, við þá sem fórna á hæðunum og gjöra reyk fyrir sínum guðum.36Því kveinar mitt hjarta eins og hljóðpípa yfir Móab, og yfir Kír-Heres mönnum kveinar mitt hjarta líkt hljóðpípu; sakir þess föngin missast sem þeir höfðu að dregið.37Hvört eitt höfuð er hárlaust, hvört skegg er skorið, á öllum höndum rispur, og um mjaðmirnar sekkur.38Á öllum Móabs þökum og á hans strætum er eintómt kvein; því eg hefi brotið Móab eins og ker, sem ekki líkar, segir Drottinn.39Hvörsu er hann molaður! æpið! hvörsu snýr Móab sneyptur sér undan! að athlægi og ofboði er Móab orðinn öllum sínum nábúum.
40Því svo segir Drottinn: sjá! sem örn flýgur hann (óvinurinn), og útbreiðir sína vængi yfir Móab.41Kerjot er tekinn, og vígin unnin, og Móabs hetjur eru til sinnis á sama degi, eins og kona í barnsneyð.42Og Móab mun verða afmáður meðal þjóðanna, því móti Drottni hefir hann risið.43Skelfing, gryfja og snara kemur yfir þig, Móabs innbúi.44Hvör sem snýr undan skelfingunni, fellur í gröfina; og hvör sem kemst upp úr gröfinni, festir sig í snörunni. Því eg læt yfir þá, yfir Móab, koma, þeirra hegningartíma, segir Drottinn.
45Í Hesbons skugga standa þeir flúnu magnlausir, því eldur gengur út af Hesbon, og logi mitt úr Síon og etur Móabs héröð, og hauskúpur (harksins sona) stríðsmannanna.46Vei þér, Móab! Kamoss fólk er farið! því þínir synir verða herteknir burt fluttir, og þínar dætur í fangelsi.47Þó skal eg seinna meir flytja heim aftur Móabs fanga, segir Drottinn. Hingað að Móabs dómur.
Jeremía 48. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:03:08+00:00
Jeremía 48. kafli
Móabs eyðilegging. (sjá Esajas. Kap. 15 og 16).
V. 5. a. Rispa: eins og menn gjörðu í sorg. V. 13. b. Í Betel var gullkálfur sá, sem Jeróbóam lét dýrka. V. 20. c. Vatnsfall á landamerkjum Móabíta. 4 Mósb. 21,13. V. 32. a. 4 Mósb. 21,32. V. 33. Ópið ekki óp; aðr: heróp, ekki haustyrkjuóp.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.