Hóseas talar um Guðs náð 1–3; réttlæti 4–15; og miskunnsemi við Gyðinga 16–25.

1Tala Ísraelsmanna skal verða sem sandur sjávar, sem ekki verður mældur og ekki talinn; og á þeim stað, hvar til þeirra var sagt, „þér eruð ekki mitt fólk“, þar skal til þeirra sagt verða: þér börn ens lifanda Guðs!2Júdaríkis menn og Ísraels menn skulu allir til samans safnast, velja sér einn yfirmann, og hefja ferð sína upp af landinu f);3þá skuluð þér kalla yðar bræður Ammí (mitt fólk), og segja til yðar systra: Rýkama (hún er til náðar tekin).
4Vandið um við móður yðar g), vandið um við hana (því hún er nú ekki mín eiginkona, og eg ekki hennar maður), að hún snúi augum sínum frá lostagirnd, og brjóstum sínum frá hjúskaparspjöllum;5svo eg ekki afklæði hana, þar til hún verður nakin, og láti hana vera fyrir mannasjónum, eins og þann dag er hún fæddist, gjöri hana að eyðimörku og að vatnslausu landi, og láti hana deyja af þorsta,6og sjái ekki aumur á börnum hennar; því þau eru hórgetin.7Já, móðir þeirra drýgir hórdóm; hún, sem gat þau, smánar sjálfa sig! því hún segir: eg vil fylgja ástmönnum mínum, sem gefa mér brauð og vatn, ull og hör, viðsmjör og drykk?8Þar fyrir, sjá þú! eg girði fyrir veg þinn með þyrnum, og hleð þvergarð fyrir hann, svo hún finni ekki sína stigu;9svo að, þá hún hleypur eftir ástmönnum sínum og nær þeim ekki, leitar þeirra og finnur ekki, að hún þá segi: eg vil hverfa aftur til míns fyrsta manns, því þar átti eg betra, en nú á eg.10Hún vildi ekki við það kannast, að eg væri sá, sem gæfi henni kornið, þrúgnalöginn og viðsmjörið, og veitti henni gnótt silfurs og gulls, úr hvörju þeir hafa smíðað gersemar handa Baal.11Þess vegna vil eg taka aftur mitt korn á uppskerutímanum og minn þrúgnalög á vínlesturstímanum, eg vil taka aftur mína ull og minn hör, sem hún hefir haft til að skýla sér með.12Nú vil eg gjöra henni opinbera smán í augsýn fylgismanna hennar, og engi skal fá þrifið hana undan minni hendi.13Eg vil enda gjöra á allri hennar gleði, hennar helgidögum, tunglkomuhátíðum, hvíldardögum og öllum hennar löghátíðum.14Eg vil í eyði leggja hennar víntré og fíkjutré, þar eð hún segir: þetta eru þau laun, sem ástmenn mínir hafa gefið mér; eg skal gjöra þau að skógarmörk, svo að skógardýrin uppeti þau.15Þannig vil eg hegna henni fyrir sín hátíðahöld til heiðurs við þá Baalsguði, fyrir hvörjum hún brenndi reykelsi, og prýddi sig með nasanistum og hálsmenjum, fylgdi ástmönnum sínum, en gleymdi mér, segir Drottinn.
16Þess vegna, sjá þú! eg skal laða hana og leiða hana út á eyðimörku, og telja þar um fyrir henni.17Eftir það vil eg gefa henni hennar víngarða, og Akorsdal, þær vonardyrnar; þar skal hún syngja söngva á víxl, eins og á hennar æskudögum, eins og þann dag er hún fór út af Egyptalandi.18Á þeim degi, segir Drottinn, skaltu til mín kalla: hjartað mitt! þá skaltu ekki framar segja: Baal minn!19því eg vil venja hana af að hafa nöfn Baalsgoða á vörum sér, svo ekki verði framar minnst á þau nöfn.20Á hinum sama degi vil eg fyrir hönd Ísraelsmanna gjöra friðarsáttmála við dýr skógarins, fugla himinsins og við skriðkvikindi jarðar; bogana, sverðin og hervopnin vil eg sundurbrjóta og varpa þeim út af landinu, og láta þá búa þar í friði.21Eg vil festa þig mér til eiginorðs, eg vil festa þig mér í réttlæti og réttvísi, í líkn og miskunnsemi,22eg vil festa þig mér í trúfesti, og þú skalt þekkja Drottin.23Á þeim hinum sama degi vil eg bænheyra, segir Drottinn, eg vil bænheyra himininn, og hann skal bænheyra jörðina,24jörðin skal bænheyra kornið, þrúgnalöginn og viðsmjörið, og þau skulu bænheyra Ísrael.25Eg vil gróðursetja hana handa mér í landinu, og miskunna mig yfir Ló-rýkömu; og eg vil segja við Ló-ammí: þú ert mitt fólk! og hann skal segja: minn Guð!

V. 2. f. Úr útlegðinni. V. 4. g. Þér Ísraelsmenn, sem viljið vel yðar föðurlandi, setjið þjóðinni fyrir sjónir, hvað illt það sé fyrir land og lýð, að hún hefir fallið frá sínum Drottni til að þjóna skurðgoðum. V. 17. Ísraelsmenn fóru Akorsdal inn í Kanaansland. V. 24. Jísreel, sjá, 1, 11. V. 25. Ló-rýkama, sjá 1,6; Ló-ammí, sjá 1,9.