1Ísraelsmenn eru eins og gróskufullur vínviður, hvörs ávöxtur líkist sjálfu trénu: eftir því sem ávextir Ísraelsmanna þróuðust, eftir því fjölguðu þeir goðastöllunum, að því skapi sem velmegun landsins jókst, að því skapi prýddu þeir goðalíkneskjurnar.2Þeirra hjarta er óheilt. Bráðum skulu þeir í eyði lagðir verða: Drottinn mun umturna goðastöllum þeirra, og eyðileggja goðalíkneskjur þeirra.3Því nú segja þeir: vér höfum engan konung, því Drottin óttumst vér ekki, og hvað gæti konungurinn þá gjört oss?4Þeir tala hégómamál; þegar þeir gjöra sáttmála, sverja þeir markleysueiða; þess vegna mun refsingin út springa, eins og eiturjurt upp úr plógförum á akri.5Innbyggjendur Samaríu munu kvíðandi verða út af kálfunum í Betaven, því blótmenn kálfsins munu daprir verða út af honum, og blótgoðarnir, sem léku sér af kæti hans vegna, munu verða hnuggnir, þegar þessi gersemi verður frá þeim tekin.6Því kálfurinn skal einnig verða burt fluttur til Assyríu, og gefinn Jareb konungi; þá skal Efraimsætt skammast sín, og Ísraelsmenn fyrirverða sig fyrir tiltæki sitt.7Samaría skal í eyði lögð verða, og konungur hennar skal verða eins og skipsflak á vatni.8Blóthörgarnir í (Bet-)Aven, hvar Ísraelsmenn syndguðu, skulu niðurbrotnir verða: þyrnar og þistlar skulu upp vaxa á blótstöllum þeirra, þeir skulu segja til fjallanna, „hyljið oss“, og til hálsanna, „hrynjið yfir oss“.9Þér, Ísraelsmenn, hafið drýgt meiri syndir en í Gíbea tíð (Dóm. 19). Í það sinn stóðust þeir þó, svo að ófriðurinn við ójafnaðarmennina í Gíbea varð þeim ekki að meini.10Nú vil eg hegna þeim eftir minni vild, og þjóðirnar skulu samansafnast móti þeim til þess að hneppa þá í þrældóm.
11Efraimsætt er eins og arðurkvíga, hún er vön við að þreskja og hefir gaman af því; en eg skal stíga á hennar ásjálega háls: eg skal beita Efraim fyrir þreskivagninn, Júda skal plægja, og Jakob harfa á eftir honum.12Sáið réttlæti, þá munið þér uppskera miskunnsemi; takið yður nýtt land til yrkingar! Það er tími til að leita Drottins, að hann komi og uppfræði yður í réttlætinu.13Þér hafið plægt niður guðleysi, uppskorið rangindi og etið ávexti lyginnar; því þú reiddir þig á þína ráðastofnun, og á fjölda hermanna þinna.14En hergnýr mun upp rísa meðal þíns fólks, og öll þín virki munu verða í eyði lögð, eins og í ófriðinum, þegar Salman lagði Bet-Arbel í eyði, og mæðurnar voru rotaðar í hel ásamt með börnunum.15Eins mun fyrir yður fara, þér Betelsmenn, sökum yðar dæmalausu vonsku; að morgni dags skal konungur Ísraelsmanna verða af lífi tekinn.
Hósea 10. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:03:38+00:00
Hósea 10. kafli
Hóseas lýsir enn framar, siðaspillingu Ísraelsmanna, segir þeim fyrir, að þeir skuli herleiddir verða til Assyríu, og ósigursælir í baráttunni við óvinina.
V. 11. Harfa, að jafna og mylja plægða jörð með tindslóða (herfi). V. 12. Nýtt land, þ. e. yrkið á nýjan stofn, byrjið nýtt og betra líferni! V. 15. Betelsmenn, þ. e. þér Ísraelsmenn, sem blótið gullkálfinn í Betel.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.