Jakobs síðasti vilji, hann blessar sonu sína.

1Og Jakob kallaði sonu sína og mælti: samansafnist, að eg geti kunngjört yður það sem þér eigið í vændum síðar meir!2Komið saman og heyrið, Jakobssynir! heyrið Ísrael yðar föður!3Rúben, þú ert minn frumgetinn son, minn kraftur og frumburður míns styrkleika; yfirburðir að verðugleika, yfirburðir að makt;4en ólgandi sem vatn skaltu ei hafa yfirburði; því þú gekkst í sæng föður þíns, flekkaðir hana—í mína sæng gekk hann.5Simeon og Levi, þeir eru bræður, verkfæri guðleysis (er) þeirra sverð,6mín sál komi ekki í þeirra ráðsamkomu, mitt hjarta ekki í þeirra samkvæmi, því í bræði sinni drápu þeir manninn, og í heift sinni skáru þeir á aflsinar nautsins,7bölvuð sé þeirra reiði sem er ofbeldi og grimmd sem er hamslaus! Eg skipti þeim í Jakob, og tvístra þeim í Ísrael. (Jós. 19,1. 21,3.).8Júda! bræður þínir munu vegsama þig, þín hönd er á hálsi þinna óvina, þér skulu lúta synir föður þíns.9Júda er ungt ljón, af bráðinni þroskast minn son, hann liggur, hann hvílist sem ljón og sem ljónsinna, hver þorir að egna hann á fætur?10Ekki fer veldisspíran frá Júda, ekki herstjórnarsprotinn frá hans fótum fyrr en komið er til Síló, og fólkið mun honum hlýða,11hann bindur við víntréð sinn asna, og við ágætan vínvið son sinnar ösnu. Hann þvær í víni sín klæði, og í vínberjalög sína kápu,12rauð eru hans augu af víni, og hvítar hans tennur af mjólk.13Sebúlon býr við sjóinn, hann býr þar sem skipin eru, hans land veit að Sidon. (Jós. 19,10).14Íssaskar er beinsterkur asni, hann liggur á milli lækjanna.15Og hann sér að hvíldarstaðurinn er góður, og að landið er elskulegt; og leggur á sig þrælavinnu.16Dan, hann mun dæma sitt fólk, sem hver önnur Ísraels ættkvísl.17Dan er höggormur á vegi, og eiturormur á götu; hann bítur í hæl hestsins, og reiðmaðurinn rýkur aftur á bak.18Þinni hjálp treysti eg Drottinn!19Ræningjaflokkur fer að Gað, en hann nær í þá öftustu.20Frá Asser kemur feitmetið, hann gefur kóngakrásir.21Naftali er fyrirferðamikið ólíutré, það útþenur sínar fögru greinir.22Jósep er grein hins frjóvsama vínviðar, grein ávaxtatrésins við uppsprettuna, hans greinir vaxa upp yfir vegginn.23Þeir egndu hann til og skutu, og bogmenn ofsóttu hann.24En bogi hans reyndist stinnur, og máttur hans handa fimur. Af hendi ens volduga Jakobs (Guðs) frá þeim sem geymir Ísraels stein, (28,12.13),25frá Guði föður þíns, sem hjálpaði þér, frá þeim almáttuga sem blessaði þig, komi blessan himinsins að ofan, blessan djúpsins að neðan, blessan brjósta og móðurlífs.26Blessan föður þíns yfirstígur blessan þeirra gömlu fjalla, og afbragðs hæðanna unan! hún komi yfir Jóseps höfuð og í hvirfil hans, sem er afbragð meðal sinna bræðra!27Benjamín er úlfur sem sundur rífur, á morgnana etur hann bráð, á kvöldin skiptir hann herfangi.
28Þessir eru allir tólf kynþættir Ísraels, og þetta það sem faðir þeirra við þá talaði; og svo blessaði hann þá og blessaði sérhvern sérlegri blessan.29Og hann bauð þeim og mælti til þeirra: eg mun safnast til míns fólks, jarðið mig þá hjá mínum feðrum, í þeim hellir, sem er á akri Hetitans Efrons,30í þeim hellir sem er á akrinum Makfela gegnt Mamre í Kanaanslandi, hvern Abraham keypti með akrinum, af Hetitanum Efron, til greftrunareignar.31Þar hafa þeir jarðað Abraham og konu hans Söru; þar hafa þeir jarðað Ísak og konu hans Rebekku, og þar hefi eg jarðað Leu,32á þeim keypta akri og í hellirnum þar á, sem keyptur var, af Hetssonum.33Og sem Jakob hafði lokið þessum skipunum til sona sinna, lagði hann fætur sína upp í rúmið, og andaðist og safnaðist til síns fólks.

V. 10. Til Síló þ. e:.inn í Kanaanslandið þangað til friður er fenginn. Jós. 16,6. Dóm b. 18,31. 1 Sam: 1,3. 3,21. V. 18. Það land sem skiptist Dans ættkvísl var helst undirorpið árásum óvina; því þessi bæn hér.