1Þar eftir bauð Jósep sínum ráðsmanni og mælti: láttu í sekki þessara manna mat, svo mikið sem þeir geta flutt, og hvers eins silfur efst í hans sekk.2Og minn bikar, þann stóra silfur bikar, skalt þú láta í sekk hins yngsta, og silfrið fyrir hans korn, og hann gjörði eins og Jósep sagði honum.3Með degi voru mennirnir látnir fara, þeir og þeirra asnar.4Þeir voru komnir út úr borginni, og ekki langt, þegar Jósep sagði við sinn ráðsmann: tak þú þig til og far þú eftir þessum mönnum, og þegar þú nær þeim, þá skaltu segja við þá: því hafið þér launað gott með illu?5Er það ekki það sem minn herra drekkur af? hann veit vel (hvar það er) þér hafið gjört þetta illa!6Og hann náði þeim, og talaði til þeirra þessi sömu orð.7Og þeir sögðu: því talar minn herra þessi orð? fjærri sé það þínum þjónum að aðhafast slíkt.8Sjá! það silfur, sem vér fundum ofan á í vorum sekkjum, það færðum vér þér aftur úr Kanaans landi; og vér skyldum stela úr húsi herra þíns gulli og silfri?9hver af þínum þjónum sem það (bikarinn) finnst hjá, hann skal deyja, og vér líka skulum vera þrælar vors herra.10Og hann svaraði: jæja! Veri það svo, eins og þér segið: hjá hverjum sem það finnst, veri sá minn þræll; en þér séuð fríir.11Þá flýttu þeir sér, og hver tók ofan sinn sekk og lagði á jörð, og hver einn opnaði sinn sekk.12Og hann (ráðsmaðurinn) leitaði, byrjaði á þeim elsta og endaði á þeim yngsta, og bikarinn var í Benjamíns sekk.13Þá rifu þeir sín klæði, létu upp á sína asna og fóru aftur til staðarins.
14Og Júda og hans bræður gengu í Jóseps hús, en hann var þar enn þá, og þeir féllu fram fyrir honum til jarðar.15Þá sagði Jósep til þeirra: hvaða ógjörningur er þetta sem þér hafið framið? vitið þér ekki að annar eins maður og eg gat látið þetta komast upp?16Og Júda mælti: hvað skulum vér tala við vorn herra? hvað segja? og hvernig réttlæta oss? Guð hefur fundið misgjörning þinna þræla; sjá! vér erum þrælar míns herra, bæði vér og sá sem bikarinn fannst hjá.17Og hann svaraði: fjærri sé mér að gjöra slíkt! sá maður, sem bikarinn fannst hjá, hann sé minn þræll; en farið þér í friði til yðar föðurs.18Þá gekk Júda að honum og mælti: æ, minn herra! leyf þínum þræli eitt orð að tala fyrir eyrum míns herra, og þín reiði upptendrist ekki gegn þínum þræl; því þú ert sem faraó.19Minn herra spurði sína þræla og mælti: eigið þér föður eða bræður.20Og vér sögðum til vors herra: vér eigum gamlan föður, og hann ungan svein, sem honum fæddist í hans elli, og bróðir hans er dáinn, og hann er einn orðinn eftir sína móður, og faðir hans elskar hann.21Og þú sagðir við þína þræla: komið með hann hingað til mín, að eg sjái hann með mínum augum.22Og vér sögðum til míns herra: sveinninn má ekki fara frá föður sínum, fari hann frá honum, kostar það föðursins líf.23Og þú sagðir við þína þræla: ef yðar yngsti bróðir kemur ekki hingað með yður, svo skuluð þér ekki framar fá að sjá mig.24Og það skeði, þá vér fórum héðan til þíns þjóns föður míns, þá sögðum vér honum ummæli herra míns.25Og faðir vor sagði: kaupið oss aftur eitthvað af vistum!26og vér sögðum: vér getum ekki farið; en sé vor yngsti bróðir með oss, svo skulum vér fara; því ekki getum vér fengið manninn að sjá, nema vor yngsti bróðir sé með oss.27Og þinn þjón, faðir minn, sagði við oss: þér vitið að kona mín ól mér tvo syni;28annar þeirra fór að heima frá mér, og mér segir svo hugur um, að hann sé vissulega rifinn (í hel) og eg hefi ekki séð hann síðan.29Og ef þér takið nú líka þennan burt frá mér, og verði hann fyrir slysum, svo leiðið þér mínar hærur með harmi niður í gröfina.30Og þegar eg nú kem til þjóns þíns, föður míns, og sé sveinninn ekki með oss, fyrst hann elskar sveininn sem sitt eigið líf,31þá fer það svo, sjái hann ekki sveininn, að hann deyr, og þínir þrælar munu svo leiða hærur þíns þjóns, föður vors, með harmi niður í gröfina;32því eg þinn þræll tók sveininn til ábyrgðar af föður mínum, og sagði: ef eg kem ekki með hann aftur, skal eg vera sekur við föður minn alla mína ævi.33Veri eg því þinn þræll hér í stað sveinsins, sem þræll míns herra, og sveinninn fari með bræðrum sínum.34Því hvernig get eg farið heim til föður míns, sé sveinninn ekki með mér? Eg yrði þá að sjá þá hörmung sem koma mun yfir föður minn.
Fyrsta Mósebók 44. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T00:59:25+00:00
Fyrsta Mósebók 44. kafli
Jósep vill halda eftir Benjamín. Bræðurnir, einkum Júda, komast í vandræði.
V. 5. Meiningin er: þið hafið tekið bikar sjálfs Jóseps og hann fer nærri um hvar hann er niður kominn og er það illa gjört af yður.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.