1Og það skeði þá Ísak var orðin gamall, og augu hans döpruðust svo hann gat ekki séð, að hann kallaði á Esau son sinn, þann eldri, og mælti til hans: sonur minn! og hann sagði til hans: hér em eg.2Og hann sagði: sjá! eg er orðin gamall, og veit ei nær eg muni deyja;3tak þú nú veiðarfæri þín, pílnakoffur og boga, og far út á mörkina og veið þú mér villudýr,4og matreið mér góðan rétt, eins og mér líkar, og færðu mér svo hingað, að eg eti, og að mín sál blessi þig áður en eg dey.5En Rebekka heyrði hvað Ísak talaði við son sinn Esau. Og svo fór Esau út á mörkina, að veiða og sækja villudýr.6Þá sagði Rebekka við son sinn Jakob og mælti: heyrðu! eg hefi heyrt föður þinn tala við Esau, bróður þinn, og segja:7sæk þú mér villudýr, og matreið þú mér góðan rétt, að eg eti og blessi þig í Drottins augsýn, áður en eg dey.8Og hlýð þú mér nú, sonur minn! gjörðu sem eg segi þér!9far þú til hjarðarinnar, og haf hingað til mín tvö góð kið, að eg geti matreitt föður þínum þar af rétt, sem honum líkar.10Og þú skalt færa hann föður þínum, að hann eti, og að hann blessi þig áður en hann deyr.11Og Jakob sagði við Rebekku, móður sína: gáðu að! Esau bróðir minn er loðinn, en eg snöggur;12líklega þreifar faðir minn á mér, og þyki sem eg vilji blekkja sig; þá leiði eg yfir mig bölvan og ekki blessan.13Og móðir hans sagði til hans: yfir mig komi sú bölvan, sonur minn! hlýð þú mér aðeins! farðu og sæktu mér (kiðin).14Þá fór hann og sótti og færði þau móður sinni. Og móðir hans matreiddi góðan rétt, eins og hans föður líkaði.15Og Rebekka tók klæði, hins eldra sonar síns Esaus, þau bestu, sem hún hafði hjá sér í húsinu, og færði yngra son sinn Jakob í þau.16en skinnið af kiðunum lét hún um hans hendur, og um hálsinn, þar sem hann var hárlaus.17og fékk svo Jakob, syni sínum, í hönd brauð og þann góða rétt, sem hún hafði matreitt.
18Þá gekk hann inn til föður síns og mælti: faðir minn! og hann ansaði: hér em eg: hver ertu sonur minn?19Og Jakob sagði til föður síns: eg em Esau þinn frumgetin son; eg hefi gjört eins og þú sagðir mér. Rís þú upp, og sit, og et af minni villibráð, svo þín sál blessi mig.20Og Ísak sagði til sonar síns: hvernig gast þú svo fljótt fundið það, sonur minn? og hann mælti: Drottinn, þinn Guð, lét það mæta mér.21Og Ísak sagði til Jakobs: kom þú samt nær, sonur minn! að eg þreifi á þér, og viti hvert þú ert sonur minn Esau, eða ekki.22Og Jakob gekk til Ísaks föður síns, og hann þreifaði á honum og mælti: röddin er Jakobs rödd en hendurnar eru Esaus hendur.23Og hann þekkti hann ekki; því hendur hans voru loðnar, eins og hendur Esaus, bróður hans; og hann blessaði hann,24og hann mælti: þú ert þá Esau sonur minn? og hann mælti eg er það.25Þá sagði hann: kom þú þá með það, að eg eti af villibráð sonar míns, upp á það að mín sál blessi þig.26Og Ísak, faðir hans, sagði til hans: kom þú nær og kyss þú mig, sonur minn!27Og hann gekk til hans og kyssti hann. Þá kenndi hann ilm af hans klæðum, og blessaði hann og mælti: sjá! ilmurinn af syni mínum er sem ilmur af þeim akri sem Drottinn hefur blessað.28Guð gefi þér dögg himins, og feiti jarðar og gnægð korns og víns!29Þjóðirnar þjóni þér, og lýðirnir lúti þér; vert þú herra yfir þínum bræðrum, og synir móður þinnar skulu þér lúta! bölvaðir séu þeir sem bölva þér, og blessaðir, þeir sem þig blessa.
30Og það skeði, þá Ísak hafði endað blessan sína yfir Jakob og einmitt þá Jakob var genginn út frá Ísak föður sínum, kom Esau, bróðir hans, heim frá veiðum sínum.31Og hann matreiddi líka góðan rétt, og bar inn til föður síns, og mælti við föður sinn: rístu upp, faðir minn! og et af villibráð sonar þíns, svo að þín sál blessi mig.32Og Ísak faðir hans, sagði við hann: hver ert þú? og hann mælti: eg er þinn son, þinn frumgetin son, Esau.33Þá varð Ísak ákaflega bilt við, og mælti: hver var það þá sem veiddi villidýrið og færði mér? og eg át þar af áður en þú komst og blessaði hann og hann mun vera blessaður.34En sem Esau heyrði þessi orð föður síns, hljóðaði hann beisklega hástöfum úr hófi upp yfir sig og mælti við föður sinn: blessa þú mig líka, faðir minn!35Og hann mælti: bróðir þinn hefur komið með kænsku og tekið þína blessan.36Og hann mælti: réttnefndur er hann Jakob; tvisvar hefur hann tekið um hælinn á mér (prettað mig), minn frumburðarrétt hefur hann tekið, og nú náði hann minni blessan! og hann mælti: hefur þú þá enga blessan ætlað mér.37Og Ísak svaraði og sagði til Esau: sjá! eg hefi sett hann herra yfir þig, og eg gjörði alla hans bræður að hans þrælum, eg hefi líka séð honum fyrir korni og víni; hvað get eg þá gjört við þig, sonur minn?38Og Esau mælti við föður sinn: hefur þú ekki nema þessa eina blessan, faðir minn? blessa mig líka, faðir minn! Og Esau hóf upp sína raust og grét.39Þá svaraði Ísak faðir hans og mælti til hans: sjá! feiti jarðarinnar mun vera þinn bústaður, og dögg himinsins þar ofan að,40og af sverði þínu muntu lifa, og þínum bræðrum þjóna, en það fer svo, þegar þú slítur þig lausan, þá hristir þú okið af þínum hálsi.
41Og Esau hataðist við Jakob sakir þeirrar blessunar sem hans faðir hafði hann blessað. Og Esau sagði í sínu hjarta: sorgardagar munu koma yfir föður minn, því drepa mun eg Jakob bróður minn!42Þá báru menn Rebekku þessi orð Esaús, hennar eldri sonar; og hún sendi eftir Jakob yngri syni sínum og mælti við hann: sjá! Esau bróðir þinn vill hefnast á þér svoleiðis að hann drepi þig.43Og nú, son minn! hlýddu nú minni raust, og tak þú þig til og flýðu til Labans bróður míns í Haran,44og vertu hjá honum nokkurn tíma, þangað til heift bróður þíns snýr sér,45þangað til bræði bróður þíns snýr sér frá þér, og hann gleymir því sem þú hefur honum gjört; þá vil eg senda og láta sækja þig þaðan. Hvar fyrir skyldi eg missa ykkur báða á einum degi.
46Og Rebekka talaði við Ísak og mælti: þær Hetsdætur gjöra mér lífið leitt, tæki Jakob sér konu af Hetsdætrum, eins og þessar, af dætrum landsins, hví skyldi eg þá lifa.
Fyrsta Mósebók 27. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T00:59:20+00:00
Fyrsta Mósebók 27. kafli
Jakob nær með ráðum móður sinnar blessun föður síns frá bróður sínum Esau. Verður því fyrir hans hatri.
V. 39. Aðrir leggja út: án feiti jarðar mun þinn bústaður vera og án daggar af himni. Láta þeir þá þann hebreska staf: M settan framan við orð þau er þýða feiti og dögg, þýða: án.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.