1Gorgias tók með sér fimm þúsund (fótgangandi) menn, og þúsund útvalda riddara, og fór her þessi af stað um nóttina,2til að ráðast á herbúðir Gyðinga, og sigra þá óviðbúna; og þeir sem voru í víginu, vísuðu honum veg.3Þetta frétti Júdas; hann fór af stað, og þeir sem færir voru, til að vinna herlið kóngsins, það sem var í Emaus,4á meðan herinn var vítt og dreift frá herbúðunum.5Gorgias kom nú um nóttina í herbúðir Júdasar, en fann engan, þá fór hann að leita þeirra uppi á fjöllunum, því hann sagði: þeir flýja fyrir oss.6Og strax í dögun sást Júdas á sléttlendinu með þrjú þúsund manns, en þeir höfðu ekki hlífar og sverð eins (mörg) og þeir vildu.7Þeir sáu nú, heiðingjanna volduga her, að hann var brynjaður, og riddaralið allt í kring, og að þeir kunnu vel til stríðs.8Þá sagði Júdas við sína menn: óttist þá ekki, þó þeir séu margir, og hræðist ekki árás þeirra.9Minnist þess, hvörnig feður vorir urðu frelsaðir í Rauðahafinu, þegar faraó veitti þeim eftirför með herliði.10Og nú skulum vér hrópa til himins, ef hann (Guð) kynni að miskunna oss, og minnast sáttmálans við feður vora, og gjöra út af við þennan her í dag, að oss ásjáendum.11Þá skulu heiðingjar fá að vita, að hann er sá, sem endurleysir og frelsar Ísrael.12Nú upphófu útlendingarnir augu sín, og sáu, að þeir komu móti þeim,13þá fóru þeir út úr herbúðunum til bardaga, en Júdasar menn blésu í lúðra.14Hófst nú orrustan; urðu heiðingjar illa leiknir, og flúðu ofan á sléttlendið;15en þeir öftustu féllu allir fyrir sverði; ráku þeir flóttann allt að Gaseron, og Edoms völlum, og Asdod og Jabne, féllu þar af þeim (óvinunum) eitthvað þrjú þúsund manns.16Síðan sneri Júdas og lið hans aftur, og nenntu ekki að elta þá lengur.17Þá sagði hann við fólk sitt: látið yður ekki hugleikið að ná herfanginu, því vér eigum orrustu fyrir höndum;18hann Gorgias og lið hans er þarna uppi á fjöllunum, skammt frá okkur. En standið yður nú móti óvinum yðar, og berjist við þá, og að því búnu megið þér taka herfangið ugglausir.19Meðan Júdas var að tala þetta, sást nokkur hluti (liðsins) sem gægðist fram af fjöllunum.20Hann (Gorgías) sá, að þeir höfðu verið reknir á flótta, og að þeir (Gyðingarnir) voru að brenna herbúðirnar, því að reykurinn sem sást, lýsti því sem skeð hafði.21En þegar þeir sáu þetta, urðu þeir lafhræddir; og þegar þeir sáu líka Júdasar her á vellinum, búinn til bardaga,22þá flúðu þeir allir til annarra landa.23En Júdas hvarf aftur til að ræna herbúðirnar, og fengu þeir mikið gull og silfur, silki, sjávarpurpura, og mikið góss.24Sneru þeir nú til baka, sungu og vegsömuðu Drottin á himni, af því þeim hafði gengið svo vel, sökum þess miskunn hans varir til eilífðar.25Á þessum degi öðlaðist Ísrael mikilsverða frelsun.26En þeir af útlendingunum sem komist höfðu af, fóru til fundar við Lysias, og sögðu honum allt sem gjörst hafði.27En sem hann frétti það, varð hann angurvær og huglaus, af því ekki hafði farið fyrir Ísraelsmönnum eins og hann vildi og (herförin) ekki tekist, eins og kóngurinn hafði skipað honum.28Lysias safnaði þar fyrir á næstkomandi ári sextíu þúsundum útvaldra stríðsmanna, og fimm þúsundum riddara til að herja á þá.29Þeir komu til Idumeu, og settu herbúðir við Betsúru, kom Júdas á móti þeim við tíu þúsund manns,30og þegar hann sá hinn óvíga her, baðst hann fyrir og sagði: lofaður sért þú, Lausnari Ísraels, þú sem ónýttir árásir hins sterka fyrir hönd þjóns þíns Davíðs, og gafst útlendinganna her í hendur Jónatans Sálssonar og skjaldsveins hans.31Gef þú nú þennan her á vald Ísraels, þíns lýðs, og láttu þá verða til skammar með lið sitt og riddara.32Skjóttu þeim skelk í brjóst, og lækkaðu drambið í þeim yfir liðsafla sínum svo að þeir skjálfi í vandræðum sínum.33Legg þú þá við velli með sverði þeirra sem elska þig, svo að allir, sem þekkja nafn þitt, vegsami þig með lofsöngum.34Síðan tókst orrustan, og féllu af Lysiasi hér um bil fimm þúsund manns, rétt gagnvart þeim.35En þegar Lysías sá, að flótti var brostinn í lið hans, en að Júdasar lið var hugað, og að þeir vóru reiðubúnir til að lifa eða deyja með sæmd, þá fór hann til Antíokíu, og safnaði leiguher; og þegar hann hafði aflað ógrynni hers, ásetti hann sér að fara aftur til Júdeu.36En Júdas og bræður hans sögðu: sjá! óvinir vorir eru sigraðir, látum oss fara og hreinsa helgidóminn, og vígja hana aftur.37Þá safnaðist allur herinn, og þeir fóru upp á Síonsfjall;38sjá þeir nú að helgidómurinn var eyðilagður, altarið vanhelgað, borgarhliðin brennd, gangbogarnir kvistum vaxnir, eins og í skógi eða á fjalli, og herbergin rifin niður.39Þá rifu þeir klæði sín, syrgðu ákaflega, og jusu mold yfir höfuð sér;40féllu á ásjónur sínar til jarðar, blésu í merkilúðra, og hrópuðu til himins.41Og Júdas skipaði menn til að berjast við þá, sem vóru í víginu, þangað til hann væri búinn að hreinsa helgidóminn.42Hann útvaldi vandaða presta sem unnu lögmálinu.43Þeir hreinsuðu helgidóminn, og báru hina saurguðu steina á óhreinan stað.44Þeir ráðguðust um brennifórnaraltarið, sem búið var að vanhelga, hvað þeir ættu að gjöra við það;45hugkvæmdist þeim gott ráð, nefnilega: að rífa það niður, svo það yrði þeim aldrei til smánar, þar eð heiðingjarnir höfðu saurgað það; síðan rifu þeir altarið niður;46lögðu þeir steinana (úr altarinu) afsíðis á fjallið, sem borgin stóð á, á hæfilegan stað, þangað til einhvör spámaður kæmi, sem gæfi úrskurð um þá.47Síðan tóku þeir óhöggna steina samkvæmt lögmálinu, og hlóðu nýtt altari, eins og hið fyrra.48Líka endurbyggðu þeir helgidóminn, og húsið (musterið) að innanverðu, og helguðu gangbogana.49Þeir bjuggu til ný helgidómsáhöld, og settu ljósahjálminn, reykelsisaltarið og borðið aftur í musterið.50Þeir offruðu reykelsi á altarinu, og kveiktu á pípunum í ljósahjálminum, svo bjart varð í musterinu,51lögðu brauð á borðið, breiddu fortjaldið út, og luku við öll sín störf, sem þeir höfðu unnið.52Á tuttugasta og fimmta degi hins níunda mánaðar, sem heitir kaselev, fóru þeir snemma á fætur,53og offruðu, samkvæmt lögmálinu á nýja brennifórnaraltarinu, sem þeir höfðu búið til.54Á sama tíma, og á sama degi, sem heiðingjarnir höfðu vanhelgað það, var það vígt að nýju, með söngum, hörpum, hljóðfærðum og bumbum.55Og allur lýðurinn féll fram á ásjónu sína, baðst fyrir og lofaði Guð á himnum, sem hafði veitt þeim gæfu.56Þeir héldu vígslu hátíð altarisins í átta daga, og offruðu brennifórnum með fögnuði, og færðu þakklætis og lofgjörðarfórn.57Þeir prýddu musterið að framanverðu með gullkrönsum og smáskjöldum, og bjuggu til ný hlið og herbergi með dyrum á.58Þá var frábær gleði meðal fólksins, því smánin var horfin, sem heiðingjar höfðu gjört þeim.59Þá áskildi Júdas og bræður hans, og allur Ísraelssöfnuður, að vígsludagar altarisins skyldu verða haldnir (hátíðlegir) á réttum tíma ár hvört, í átta daga frá hinum tuttugasta og fimmta degi í mánuðinum kaselev með fögnuði og gleði.60Um sömu mundir byggðu þeir á Síonsfjalli hringinn í kring, háa garða og sterka turna, svo að ef heiðingjarnir kæmu einhvörn tíma, þá skyldu þeir ekki fóttroða þetta, eins og þeir höfðu gjört hið fyrra sinn.61Hann setti þar setulið til að geyma þess, og þeir víggirtu Betsúru til að gæta þess, svo að þjóðin skyldi hafa vígi gegn Idúmeu.
Fyrsta Makkabeabók 4. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:05:51+00:00
Fyrsta Makkabeabók 4. kafli
Sigurvinningar Júdasar. Musteris hreinsunin.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.