1Um þær mundir tók Mattatías Jóhannesarson, Símonssonar, prestur, af Jóaribs niðjum, (1 Krb. 24,7.) sig upp frá Jerúsalem, og settist að í (staðnum) Módin.2Hann átti 5 syni: Jóhannes, að viðurnefni Kaddis,3Símon, sem kallaður var Tassi,4Júdas, að auknafni Makkabeus,5Eleasar, að auknafni Avaras, Jónatan að auknafni Affus.6Hann sá guðlastið, sem viðgekkst í Júdeu og Jerúsalem.7Og hann sagði: æ mig auman! hvar fyrir er eg fæddur til að horfa á þetta, á undirokun þjóðar minnar, og ófarir hinnar helgu borgar, og að sitja hér, er hún lendir í óvinahöndum, og helgidómurinn í höndum útlendinga?8Musterið er orðið eins og ótiginn maður.9Hennar (borgarinnar) dýrðlegu áhöldum er rænt og þau burtu flutt, ungbörnin hafa verið myrt á götunum, og yngismennirnir með óvinarins hendi.10Hvílík þjóð drottnar ekki yfir henni og hefir rænt herfangi úr henni?11Hún er svipt allri sinni prýði, hún var frjáls, en er nú orðin ánauðug;12og sjá! það er ekkert orðið úr helgigripum vorum, fegurð vorri og vegsemd, heiðingjarnir hafa vanhelgað það.13Til hvörs er oss orðið að lifa?14Og Mattatías og synir hans rifu klæði sín, klæddu sig í hárklæði og hörmuðu mjög.15Þá komu sendimenn frá kónginum, sem nauðguðu (fólki) til að falla frá, til staðarins Módin, og ætluðu að offra.16Margir af Ísraelsmönnum fóru til þeirra, og Mattatías og synir hans vóru líka fluttir þangað.17Sendimenn kóngsins tóku þá til máls, ávörpuðu Mattatías, og sögðu: Þú ert höfðingi virtur og voldugur í þessum stað, því þú átt syni og ert frændmargur.18Kom þú nú fyrstur fram, og hlýð boði kóngsins, eins og allir heiðingjarnir hafa gjört, og Júdeumenn, og þeir sem eftir eru í Jerúsalem; þá munt þú og ætt þín komast í vináttu við kónginn, og þú og synir þínir munu sæmdir verða með silfri og gulli og mörgum gáfum.19Mattatías svaraði og sagði með hárri röddu: þó að allar þjóðir (sérhvörju) húsi kóngsins ríkis hlýddi honum, svo að sérhvör hafni guðsdýrkan feðra sinna, og aðhyllist boð hans (kóngsins),20þá skal eg samt, og synir mínir og ættingjar halda við sáttmála feðra vorra.21Guð varðveiti okkur frá að yfirgefa lögmálið og réttindin!22Munum vér því ekki hlýðnast boðum kóngsins, að víkja frá guðsdýrkun vorri til hægri eða vinstri.23Þegar hann hafði þannig um mælt, gekk Gyðingur nokkur fram fyrir allra augum, til að offra á altarinu í Módin eftir boði kóngsins.24Þegar Mattatías sá þetta, fylltist hann af vandlætingu, innyfli hans skulfu (hann varð reiður) og hugur hans hvattist til hefnda; hann hljóp til, og drap hinn hjá altarinu,25og konungsmanninn, sem var að neyða menn til að offra, drap hann samstundis og reif altarið niður.26Og hann vandlætti vegna lögmálsins, eins og Pineas hafði gjört við Samri Saluson, (4 Mós. 25,14).27Og Mattatías kallaði með hárri röddu um staðinn, og sagði: hvör sem ann lögmálinu, og heldur sáttmálann, hann fari út á eftir mér.28Og hann og synir hans flúðu upp á fjöllin, og yfirgáfu allt sem þeir áttu í borginni.29Þá fóru margir, sem unnu réttvísi og ráðvendni, út á eyðimörk til að dveljast þar,30þeir og börn þeirra, og konur þeirra, og kvikfénaður, því margföld ógæfa var komin yfir þá.31Þá fréttu kóngsmennirnir og liðið sem var í Jerúsalem, Davíðsborg, að nokkrir menn sem hefðu brotið boðorð konungsins, væru farnir út á eyðimörk til að fela sig þar;32Margir eltu þá, og þegar þeir náðu þeim, réðust þeir á þá, og lögðu til orrustu við þá á hvíldardegi.33Og þeir sögðu við þá: nógur er tíminn enn þá, farið og hlýðið boði konungsins, þá skuluð þér halda lífi.34Þeir svöruðu: ekki munum vér útfara, né hlýða boði kóngsins, að vanhelga hvíldardaginn.35Þá lögðu hinir skjótt til orrustu móti þeim.36Þeir svöruðu þeim ekki, köstuðu ekki steini á þá, og byrgðu ekki holurnar (sem þeir vóru í),37en sögðu: vér viljum allir deyja í meinleysi voru, himinn og jörð skal bera oss vitni, að þér drepið oss ranglega.38Síðan veittust þeir að þeim með stríði á hvíldardeginum, og féllu þeir, konur þeirra og börn og kvikfénaður, næstum því þúsund manns.39Mattatías og vinir hans urðu þessa vísir, og hörmuðu mjög yfir þeim.40Þá sagði hvör við annan: ef vér breytum allir, eins og bræður vorir breyttu, og berjumst ekki við heiðingjana fyrir líf vort og réttindi vor, þá tekst þeim því fljótar að afmá oss af jörðunni.41Þá tóku þeir saman ráð sín á þeim sama degi, og sögðu: hvör sem veitir oss aðför á hvíldardögum, við hann skulum vér berjast, svo að vér deyjum ekki, eins og bræður vorir dóu í hellrunum.42Síðan safnaðist að þeim fjöldi Gyðinga, þeir vöskustu af Ísraelsmönnum, sérhvör sem fús var a) (að hlýða) lögmálinu.43Og allir þeir sem flúðu undan ólukkunni, bættust við þá, og juku þeim styrk,44fylktu þeir nú liði, og drápu guðleysingjana í reiði sinni, og yfirtroðslumenn lögmálsins í bræði sinni, en þeir sem af komust, flúðu til heiðingjanna, að bjarga lífinu.45Og Mattatías fór hringinn í kring, og áhangendur hans, og rifu niður ölturun,46og umskáru með valdi börnin, sem þeir fundu óumskorin innan Ísraels landamerkja,47og ofsóttu hina dramblátu, og vannst þeim vel.48Þeir frelsuðu lögmálið úr höndum heiðingjanna og kónganna, og létu ekki illmennið hafa yfirhönd.
49Nú var Mattatías orðinn ellihniginn, og átti skammt eftir, þá mælti hann við syni sína: nú er ofríkið orðið magnað, og þrautin og eyðileggingartíminn, og heiftin:50vandlætið, því börnin mín! fyrir lögmálið, og hættið lífi yðar fyrir sáttmála feðra vorra.51Hafið í minni feður vora, verkin sem þeir unnu á sinni tíð, og ávinnið yður mikla frægð og ævarandi orðstír.52Reyndist ekki Abraham trúgóður í freistingunni, og var það ekki reiknað honum til réttlætis?53Jósep varðveitti boðorðið á neyðartíð sinni, enda varð hann herra yfir Egyptalandi.54Þegar forfaðir vor Pineas vandlætti alvarlega, öðlaðist hann sáttmála um ævarandi prestsembætti.55Af því Jósúa hlýddi algjörlega því sem honum var skipað, varð hann dómari yfir Ísrael.56Af því Kaleb vitnaði sköruglega fyrir fólkinu, fékk hann arf (hlutskipti) í landinu.57Vegna mildi sinnar erfði Davíð ævarandi konungs tign.58Af því Elías vandlætti kröftuglega fyrir lögmálið, varð hann uppnuminn til himins.59Ananías, Asaría og Misael urðu frelsaðir úr eldsloganum, af því þeir treystu (Guði) a).60Vegna sakleysis síns varð Daníel hrifinn úr gini ljónanna.61Athugið þannig hvörn mannsaldurinn eftir annan, (svo yður skiljist) að allir sem á hann vona munu ei vanmegnast.62Verið ekki hræddir við syndugs manns orð, því dýrð hans verður að skarni og ormum;63Í dag mun hann upphefja sig, en á morgun finnst hann ekki, því hann er (þá) aftur orðinn að jörðu, og ásetningur hans að engu.64Verið, börnin góð! hraustir, og verjið lögmálið karlmannlega, því fyrir það munuð þér öðlast vegsemd.65Og sjáið! eg veit að Símon bróðir yðar er ráðdeildarmaður, hlýðið honum jafnan, hann veri yður sem faðir.66Og Júdas Makkabeus hefir verið hraustmenni frá barnæsku, hann skal vera yðar liðsforingi, og heyja stríð við þjóðirnar b).67Safnið að yður öllum þeim sem halda við lögmálið, og hefnið duglega þjóðar yðvarra.68Endurgjaldið heiðingjunum að maklegleikum, og gefið gaum lögmálsins boðum.69Síðan blessaði hann þá, og var lagður til feðra sinna.70Hann andaðist á 146ta ári, og synir hans jörðuðu hann í gröfum feðra þeirra í Módin, og allir Ísraelsmenn hörmuðu hann mjög.
Fyrsta Makkabeabók 2. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:05:51+00:00
Fyrsta Makkabeabók 2. kafli
Vandlæting og dauði Mattatíasar prests.
V. 42. a. Aðrir: sem þorði að hlýða. V. 59. a. Aðr: héldu einurð sinni. V. 66. b. Aðr: stríða fyrir fólkið.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.