1Nú frétti Símon, að Tryfon hafði safnað miklu liði til að fara í Júdeuland, og eyða það.2Og hann sá, að fólkið var skelft og hrætt; fór hann til Jerúsalem, og safnaði lýðnum saman.3Hann upphvatti þá, og sagði við þá: þér vitið sjálfir, hve mikið eg, og bræður mínir og ætt föður míns höfum unnið fyrir lögmálið og helgidóminn, og þau stríð, og þá neyð, sem vér höfum ratað í.4Sökum þess eru bræður mínir allir fallnir vegna Ísraels, svo eg er einn eftir.5Verði mér það nú ekki að spara líf mitt á allri þessari hörmungatíð, því mér er ekki vandara um en bræðrum mínum.6Heldur mun eg hefna þjóðarinnar, og helgidómsins, og kvenna og barna vorra, því allir heiðingjarnir hafa þyrpst saman til að afmá oss, sökum fjandskapar.7Þá lifnaði andinn í fólkinu, strax sem það heyrði þessar fortölur.8Og þeir svöruðu með hárri röddu, og sögðu: þú ert foringi vor, í stað Júdasar og Jónatans bróður þíns.9Heyja þú stríð vort, en vér skulum gjöra allt sem þú býður oss.10Og hann safnaði öllum stríðsmönnum, og flýtti sér að ljúka við Jerúsalemsgirðingar, og víggirti hana allt um kring.11Og hann sendi Jónatan Absalons son, og með honum nægan her til Joppe, hann rak þá út sem voru í borginni, og settist að í henni.
12Tryfon fór nú frá Tólómeu við mikinn her, og ætlaði til Júdeulands, og var Jónatan með honum í varðhaldi.13En Símon hafði sett herbúðir í Adida framan til á sléttlendinu.14Varð Tryfon áskynja um, að Símon væri kominn í stað Jónatans bróður síns, og að hann ætlaði að leggja til orrustu við sig; sendi hann því sendiboða til hans með þessi skilaboð:15Vér höldum Jónatan bróður þínum, sökum þess fjár, sem hann stendur í skuld um við konungssjóðinn, af embættunum sem hann hafði.16Sentu því (féð) hundrað vættir silfurs, og tvo af sonum hans í gísling, að hann falli ekki frá oss þegar hann er orðinn laus, þá skulum vér sleppa honum.17Að sönnu vissi nú Símon, að svik bjuggu undir þessum boðum, en sendi samt féð og drengina, svo hann bakaði sér ekki mikla óvild af fólkinu, sem kynni að segja:18af því eg sendi honum ekki silfrið og drengina, varð hann (Jónatan) drepinn.19Þess vegna sendi hann drengina, og hundrað vættirnar, en hann (Tryfon) sveikst um að sleppa Jónatan.20Eftir þetta kom Tryfon og ætlaði að fara inn í landið, til að eyða það, og umkringdi veginn, sem liggur til Adóra; en Símon og lið hans fór á móti honum allsstaðar, hvört sem hann fór.21En þeir sem í víginu vóru, sendu sendimenn til Tryfons, og báðu hann að koma fljótt til þeirra gegnum eyðimörkina, og senda sér vistir.22Þá bjó Tryfon allt sitt riddaralið, og ætlaði að koma sömu nóttina, en snjór var harla mikill, svo hann komst ekki áfram fyrir fönn; hann fór því, og kom til Galaaditis.23En er hann var kominn nálægt Baskama, drap hann Jónatan, og var hann grafinn þar.24Síðan sneri Tryfon aftur og fór heim í sitt land.25En Símon sendi, og lét sækja bein Jónatans bróður síns, og grafa þau í Módin, borg feðra hans.26Og allir Ísraelsmenn hörmuðu hann mjög, og syrgðu hann í marga daga.27Og Símon byggði yfir legstað föður síns og bræðra sinna, og gjörði hann hávan tilsýndar með höggnum steinum aftan og framan;28og reisti þar ofan á sjö (myndar)styttur, eina gegnt annarri, handa föður sínum og móður og fjórum bræðrum.29Og hann gjörði hertygjamyndir á þeim (styttunum), setti stórar stoðir í kring, og bjó til á stoðunum alvepni, til ævarandi frægðar (nafns), og hjá alvepninu útskorin skip, til sýnis fyrir alla þá sem sigldu um hafið.30Þessi legstaður, sem hann gjörði í Módin, er við lýði enn í dag.
31En Tryfon beitti svikum við Antiokus konung hinn unga, og drap hann;32og gjörðist kóngur í hans stað, og setti á sig Asíu kórónu, og vann landinu stórtjón.33En Símon byggði vígi í Júdeu, og umgirti þau með hávum turnum, og miklum veggjum, og hliðum og slagbröndum, og lét vistir í vígin.34Og Símon kjöri til menn, og sendi þá til Demetríusar konungs, til að útvega landinu vægð, því allar Tryfons athafnir voru rán.35Og Demetríus konungur gjörði honum aftur svolátandi boð, svaraði honum, og skrifaði honum svohljóðandi bréf:36„Demetríus konungur heilsar Símoni æðsta presti, vini konungsins, og öldungunum og Gyðingaþjóð!37Gullkórónuna og skarlatsskikkjuna sem þér senduð, höfum vér meðtekið, og erum fúsir til að gjöra góðan frið við yður, og skrifa embættismönnunum, að létta af yður álögum.38Og allt sem vér höfum samið við yður, skal stöðugt standa, og vígi þau, sem þér hafið byggt, skulu tilheyra yður.39Vér fyrirgefum líka yfirsjónir og afbrot allt til þessa dags: og konungsskatturinn, sem þér standið í skuld um, og hvör annar tollur, sem goldinn hefir verið í Jerúsalem, skal ekki goldinn hér eftir.40Og ef einhvörjir af yður eru hæfir til að ganga í vora þjónustu, þá skal það leyft, og friður skal vera milli vor.“
41Árið 170 var oki heiðingjanna svipt af Ísrael.42Og Ísraels lýður hóf að skrifa svo í bréfum og gjörningum: „Á fyrsta ári Símonar æðsta prests, og hershöfðingja og fyrirliða Gyðinga.“43Um þessar mundir settist Símon um Gasaborg, og sló hring um hana með liði sínu, bjó til borgabrjót, og ók honum að staðnum, renndi á einn turn og vann hann.44Þá stukku þeir út, sem í borgarbrjótnum vóru, og inn í borgina; gekk þá mikið á í borginni.45Borgarmenn fóru þá, með konum og börnum upp á girðinguna, rifu klæði sín, og kölluðu með hárri rödd, og báðu Símon að handsala þeim grið.46Og þeir sögðu: breyt þú ei við oss eftir illsku vorri, heldur eftir miskunnsemi þinni.47Og Símon aumkaðist yfir þá, og barðist ekki við þá, heldur rak þá út úr borginni, og hreinsaði húsin, sem skurðgoðin vóru í, og þannig kom hann inn í borgina með lofgjörðar- og þakkarsöng.48Og hann rak út úr henni allt sem óhreint var, og setti þangað menn, sem héldu lögmálið, víggirti hana, og byggði sjálfum sér bústað í henni.49En þeim sem voru í Jerúsalemsvígi, var varnað að fara út og inn í landið, og að selja og kaupa, svo þá hungraði mjög, og allmargir af þeim dóu úr hungri.50Þeir hrópuðu til Símonar, og báðu um frið, og hann veitti þeim frið, en rak þá burtu þaðan, og hreinsaði vígið af saurguninni;51og fór inn í það á tuttugasta og þriðja degi í öðrum mánuði árið 171 með lofsöngvum og pálmaviðargreinum, hörpum, bumbum, hljóðfærum, söngvum og lofkvæðum, af því voldugur óvinur var sigraður af Ísrael.52Og hann skipaði að halda þennan dag árlega hátíðlegan með fögnuði; og hann víggirti enn betur musterisfjallið, sem var við vígið, og bjó þar sjálfur og menn hans.53Og Símon sá, að Jóhannes sonur hans var vaskur maður, og gjörði hann að hershöfðingja yfir öllu liðinu; hann bjó í Gasara.
Fyrsta Makkabeabók 13. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:05:51+00:00
Fyrsta Makkabeabók 13. kafli
Símon gjörist foringi Gyðinga. Tryfon drepur Jónatan, og Antíókus gjörist síðan konungur. Vinátta Demetríusar við Gyðinga. Afreksverk Símonar.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.