1Egyptalandskonungur safnaði nú miklum her, eins og sandi við sjávarströnd, og mörgum skipum, og ætlaði að ná ríki Alexanders undir sig með svikum, og bæta því við ríki sitt.2Hann fór til Sýrlands, og þóttist fara með friði; þeir sem bjuggu í borgunum, luku upp fyrir honum, og tóku honum vel, því Alexander konungur hafði boðið, að taka honum vel, af því hann var tengdafaðir hans.3En þegar Tólómeus var kominn inn í borgina, skildi hann eftir setulið í sérhvörri borg.4En þegar hann kom að Asdod, sýndu menn honum Dagons hof, er brennt hafði verið, og Asdod, og þorpin í kring, sem höfðu verið rifin niður, og líkamina sem fleygt hafði verið, og þá, sem brenndir voru, sem hann (Jónatan) hafði brennt í stríðinu; því þeir höfðu orpið hauga eftir þá við veg hans.5Þeir sögðu kónginum, hvað Jónatan hefði aðhafst, til að niðra honum, en konungur þagði við.6Jónatan fór á fund konungs til Joppe, með viðhöfn, heilsuðust þeir, og náttuðu þar.7Og Jónatan fór með kónginum allt að vatnsfallinu, sem kallað er Elevterus, síðan hvarf hann aftur til Jerúsalem.8En Tólómeus konungur réði yfir borgunum á ströndinni allt að Selevkíu, sem liggur við sjóinn, og hafði hann illar ráðagjörðir í huga, gegn Alexander.9Hann sendi sendiboða til Demetríusar konungs, og lét skila: kom þú, við skulum gjöra sáttmála okkar í milli, skal eg gifta þér dóttur mína, sem Alexander á, og þú skalt drottna yfir ríki föður þíns;10því mig iðrar þess, að eg gaf honum dóttur mína, því hann hefir setið um að myrða mig.11Líka gaf hann honum að sök, að hann hefði viljað ná ríki sínu.12Tók hann þá dóttur sína frá honum og gaf hana Demetríusi, breytti sinni sínu við Alexander, svo óvinátta þeirra varð augljós.13Og Tólómeus fór til Antíókíu, og setti á höfuð sér tvær kórónur, Asíu og Egyptalands.14En Alexander konungur var um þær mundir í Kilikíu, því þeir sem voru í þeim héröðum, höfðu fallið frá (honum).15Þegar Alexander frétti þetta, fór hann herför móti honum; Tólómeus fór með lið sitt, mætti honum með styrkan her, og rak hann á flótta.16Og Alexander flúði til Arabíu til að leita hælis, en Tólómeus kóngur varð voldugur.17En Sabdiel, hinn arabiski, tók höfuðið af Alexander, og sendi það Tólomeusi.18Og Tólómeus kóngur dó á þriðja degi (eftir þetta) og þeir (menn hans) sem voru í víggirtu borgunum, urðu drepnir af hinum sem voru í víggirðingunum.19Og Demetríus varð kóngur árið 167.
20Um þetta leyti safnaði Jónatan mönnum úr Júdeu til að herja á vígið í Jerúsalem, og hann reisti mörg hervirki á móti því.21Þá fóru sumir, sem hötuðu þjóð sína, guðlausir menn, til kóngsins, og sögðu honum, að Jónatan væri sestur um vígið.22Þegar hann heyrði þetta, varð hann reiður; en er hann hafði heyrt það, bjó hann sig strax og fór til Tólómeu, og skrifaði Jónatani, að hann skyldi ekki sitja um vígið, heldur skyldi hann sem fyrst koma til fundar við sig til Tólómeu.23Þegar Jónatan heyrði þetta, skipaði hann að halda áfram umsátrinu, en kjöri (sér til fylgdar) nokkra af öldungum Ísraels og prestunum, og gaf sig sjálfan í hættuna.24Tók hann með sér silfur og gull og klæðnað og aðrar fleiri gestgjafir, og fór á konungsfund til Tólómeu, og fann náð fyrir honum.25Þá klöguðu hann einhvörjir ráðvandir landar hans.26En kóngurinn gjörði við hann, eins og hinir (kóngarnir) á undan honum höfðu gjört, og veitti honum virðing í augsýn allra vina sinna.27Hann staðfesti hann í æðstaprestsembættinu, og í öllum öðrum metorðum sem hann hafði haft áður, og hélt hann æðstan sinna bestu vina.28Jónatan bað konunginn að gjöra Júdeu skattfría, og hinar þrjár sýslurnar, og Samaríu, en lofaði honum 300 vættum.29Kónginum geðjaðist það vel, og skrifaði Jónatani bréf um allt þetta, á þessa leið:30„Demetríus konungur heilsar bróður sínum Jónatani, og Gyðinga þjóð!31Afskrift af bréfi því, sem vér höfum skrifað frænda vorum Lastenesi viðvíkjandi yður, ritum vér yður líka, svo þér sjáið það:32„Demetríus konungur heilsar föður sínum Lastenesi!33Vér höfum ásett oss að gjöra gott Gyðingunum, vinum vorum, sem gæta réttar við oss, sökum velvildar þeirrar, er þeir hafa sýnt oss;34þar fyrir höfum vér gefið þeim til stöðugrar eignar, bæði Júdeulands og þrjár sýslurnar: Asæremu, Lyddu og Ramatem, sem að vóru lagðar til Júdeu frá Samaríu, og allt sem þeim tilheyrir, öllum sem offra í Jerúsalem, í staðinn fyrir tekjurnar, sem kóngurinn hefir fengið frá þeim að undanförnu árlega af jarðarávöxtum og -trjáa.35Og hinar aðrar tekjur, sem oss bera, frá þessum tíma, af tíundum, og sköttum, sem oss tilheyra, og salttjarnirnar (salttollinn), og konungsskattinn, sem oss ber, þetta allt gefum vér þeim upp að fullu og öllu.36Og öldungis ekkert af þessu skal úr gildi ganga frá því nú og til ævarandi tíðar.37Sjáið nú til að taka afskrift af þessu (bréfi), hún sé fengin Jónatani í hendur, og lögð á merkan stað á enu helga fjalli.“38Þegar Demetríus konungur sá að allt var kyrrt fyrir honum í landinu, og ekkert honum mótstæðilegt, þá sleppti hann öllu liði sínu, sérhvörjum heim til sín, nema útlenda liðinu, sem hann hafði safnað úr eyjum heiðingjanna, en allur her feðra hans varð honum óvinveittur fyrir það.39En er Tryfon, sem áður hafði verið með Alexander, sá að allur herinn nöldraði yfir Demetríusi, þá fór hann til Emalkúels, hins arabiska, sem fóstraði Antíokus, ungan son Alexanders;40og lagði að honum, að láta sig fá hann (Antíokus) að hann gæti orðið kóngur í stað föður síns, hann sagði honum líka frá öllu, sem Demetríus hafði aðhafst, og frá hatrinu, sem herliðið hafði á honum, var hann þar marga daga.
41Jónatan skrifaði nú Demetríusi konungi til, og bað hann að reka út úr Jerúsalem þá sem vóru í slotinu og víggirðingunum, því þeir lágu í ófriði við Ísraelsmenn.42Og Demetríus skrifaði Jónatani aftur til á þessa leið: „eg skal ekki einasta gjöra þetta fyri þig og þjóð þína, heldur skal eg líka gjöra þér og þjóð þinni mikla sæmd, þegar eg fæ tækifæri til þess.43Nú færi þér vel, ef þú sendir mér stríðsmenn til liðveislu, því allt mitt herlið hefir brugðist mér“.44Jónatan sendi honum þá þrjú þúsund vaska stríðsmenn til Antíokíu, fóru þeir til konungsins, og var kóngur feginn komu þeirra.45Borgarmenn söfnuðust saman mitt í borgina, hér um hundrað og tuttugu þúsundir manns, og ætluðu að drepa kónginn.46Konungur flúði í slotið, en bæjarmenn settust um götur borgarinnar, og fóru að herja.47Þá kallaði konungurinn á Gyðinga til hjálpar, og þyrptust þeir að honum allir saman, og undireins dreifðu þeir sér allir um borgina, og drápu á þeim degi við hundrað þúsund manns í borginni,48brenndu borgina, og tóku mikið herfang á þeim sama degi, og frelsuðu kónginn.49En þegar borgarmenn sáu, að Gyðingar höfðu fengið vald yfir borginni, eins og þeir vildu, þá féllst þeim hugur, hrópuðu til kóngsins, báðu, og sögðu:50gef þú oss grið, og lát Gyðinga hætta að herja á oss og borgina.51Síðan köstuðu þeir vopnum og gjörðu frið; veittist Gyðingum heiður af kónginum og af öllum sem vóru í ríki hans, sneru þeir aftur til Jerúsalem með mikið herfang.52Síðan settist Demetríus konungur á hásætið í ríki sínu, og allt var kyrrt í landinu fyrir honum.53Þá sveikst hann um allt sem hann hafði lofað, en breytti sinni sínu við Jónatan, og launaði honum ekki þá velvild, sem hann hafði auðsýnt honum, heldur þröngvaði honum mjög.
54En eftir þetta kom Tryfon til baka, og Antíokus með honum, ungur drengur; hann varð kóngur og setti upp á sig kórónuna.55Að honum safnaðist allt liðið, sem Demetríus hafði látið fara víðsvegar, og börðust þeir við hann (Demetríus), flýði hann og varð rekinn á flótta.56En Tryfon tók dýrin (fílana) og fékk vald yfir Antíokíu.57Antíokus ungi skrifaði nú Jónatani til svo hljóðandi: „Eg staðfesti þig í æðstaprestsembættinu, og set þig yfir hin fjögur héröðin, og gjöri þig einn af vinum kóngsins.“58Hann sendi honum gullker og borðbúnað, og gaf honum leyfi til að drekka úr gullkerum, og vera í skarlatsklæðum og brúka gullbelti.59Og Símon bróður hans gjörði hann að höfuðsmanni frá Týrus og allt að Egyptalands takmörkum.60Jónatan tók sig upp, fór yfir fljótið, og ferðaðist um borgirnar, og allur Sýrlandsher safnaðist að honum til liðveislu, hann fór til Askalon, og tóku bæjarmenn við honum með mikilli virðingu.61Þaðan fór hann til Gasa, en Gasabúar lokuðu fyrir honum, settist hann þá um borgina og brenndi festingar hennar í eldi, og rænti þær.62Þá beiddu Gasabúar Jónatan um frið, hann handsalaði þeim grið, og tók syni höfðingjanna hjá þeim fyrir gísla, og sendi þá til Jerúsalem, en fór síðan yfir landið allt að Damaskus.63Nú frétti Jónatan, að höfðingjar Demetríusar væru komnir til Kades í Galíleu með mikið lið, og ætluðu að setja hann af sýslu sinni.64Fór hann móti þeim, en skildi Símon bróður sinn eftir í landinu.65Símon setti herbúðir við Betsúru, herjaði á hana í marga daga, og sat um hana.66Þeir (borgarmenn) báðu hann um grið, og gaf hann þeim þau, en rak þá burt þaðan, tók borgina, og setti setulið í hana.67En Jónatan og lið hans settu herbúðir við vatnið Genesar, en fóru snemma um morguninn til sléttlendisins Nasor.68Og sjá! útlendingaherinn mætti honum á sléttlendinu, höfðu þeir sett launsátur fyrir hann upp á fjöllunum, en fóru sjálfir andspænis á móti honum.69Launsátursliðið spratt nú upp úr stöðvum sínum og lagði til orrustu, flýðu þá allir menn Jónatans;70Enginn af þeim varð eftir, nema Mattatías Absalonsson og Júdas Kalfíson, hershöfðingjar.71Þá reif Jónatan klæði sín, jós moldu yfir höfuð sér, og baðst fyrir.72Síðan sneri hann móti þeim til stríðs, og rak þá á flótta, svo þeir flýðu.73Þetta sáu menn hans sem flúið höfðu, sneru þeir þá við og ráku flóttann með honum allt til Kades, þar sem herbúðir þeirra stóðu og lögðust þar.74Á þeim degi féllu af útlendingunum við þrjú þúsund manns, og Jónatan sneri aftur til Jerúsalem.
Fyrsta Makkabeabók 11. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:05:51+00:00
Fyrsta Makkabeabók 11. kafli
Alexander er myrtur; Demetríus kemst til ríkis, lofar Jónatan góðu, þiggur liðstyrk að honum, og bregður síðan loforðinu; Antíókus Alexandersson verður kóngur; Herfarir Jónatans og Símonar.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.