Sigur yfir Ammonítum og sýrlenskum. 2 Sam. 10.

1Eftir þetta andaðist Nahas, kóngur Ammonssona, og hans son varð kóngur í hans stað.2Þá sagði Davíð: eg vil sýna Hamon syni Nahas vinskap, því faðir hans sýndi mér vinskap; og Davíð sendi menn að hugga hann þá hann harmaði föður sinn. Og svo komu Davíðs þjónar í land Ammonsbarna til Hanons, til að hugga hann.3Þá sögðu höfðingjar Ammonssona til Hanons: sýnist þér Davíð heiðra föður þinn, að hann sendir þér huggara? Eru ekki hans þjónar komnir til þín í þeim tilgangi að rannsaka landið, eyðileggja og njósna?4Þá tók Hanon Davíðs þjóna og spéskar þá, og sneið af þeim hálf klæðin allt að mjöðmum og lét þá svo fara.5Og menn komu og sögðu Davíð frá (hvörnig farið var) með mennina, þá sendi hann á móti þeim, því mennirnir voru mjög svívirtir, og sagði: verið í Jeríkó þangað til yðar skegg sprettur, og komið svo aftur.
6Og sem Ammonssynir sáu, að þeir voru illa þokkaðir hjá Davíð, sendi Hanon og Ammonssynir þúsund vættir (centener) silfurs, til þess að leigja sér vagna og reiðmenn frá Mesópótamía, frá Syríu-Maaka og frá Sóba,7og þeir leigðu tvær og þrjátygi þúsundir vagna, og kóng Maaka með liði hans, og þeir komu, og settu herbúðir fyrir framan Meaba, og synir Ammons söfnuðust saman úr borgum þeirra, og komu til bardagans.8En þá Davíð heyrði það, sendi hann Jóab með allan kappaherinn.9Og synir Ammons fóru út, og fylktu (liði sínu) til orrustu við borgarhliðið, en kóngarnir, sem komnir vóru, (fylktu sér) út af fyrir sig á völlunum.10Nú sá Jóab sér búinn bardaga bæði á bak og fyrir, og hann útvaldi allt valið lið í Ísrael, og fylkti því til orrustu móti Sýrum,11en hitt fólkið setti hann undir hönd bróður síns Abísaí og þeir bjuggu sig út móti sonum Ammons,12og hann (Jóab) sagði: ef Sýrar bera mig ofurliði, þá skaltu vera mér til hjálpar, en ef synir Ammons verða þér sterkari, þá mun eg hjálpa þér.13Vertu öruggur og berjumst hraustlega vegna vors fólks, og vegna staða vors Guðs. Drottinn gjöri hvað honum þóknast a).14Og Jóab réðist ásamt því liði sem með honum var, til orrustu í móti Sýrum, og þeir flúðu undan honum.15Þegar synir Ammons sáu, að Sýrar flúðu, héldu þeir einnig á flótta fyrir Abísaí bróður hans, og fóru inn í borgina, en Jóab kom til Jerúsalem.16Og þá Sýrar sáu, að þeir voru (á flótta) reknir fyrir Ísraels augliti, sendu þeir út boð, að Sýrar tækju sig upp, sem voru hinumegin fljótsins (Frat), og Sófak hershöfðingi Hadaresers var fyrir þeim,17og það var sagt Davíð, og hann safnaði saman öllum Ísrael, og fór yfir Jórdan, og kom að þeim og bjóst (til orrustu) móti þeim, og (þá) Davíð með fylktu liði háði orrustu við Sýra, börðust þeir móti honum,18en Sýrar flúðu undan Ísrael, og Davíð felldi af Sýrum 7 þúsund vagna, (riddaraliðs) og 40 þúsund fótgönguliðs, og líka drap hann Sófak hershöfðingja.19En þá þénarar Hadaresers sáu, að þeir voru felldir af Ísrael, gjörðu þeir frið við Davíð, og urðu hans þegnar; og Sýrar vildu ekki framar veita lið sonum Ammons.

V. 9. a. 2 Sam. 8,9. fl.