1Þessi eru þau sáttmálsorð sem Drottinn bauð Móses að semja við Ísraelsbörn í Móabítalandi, auk sáttmálans sem hann samdi við þau áður í Horeb.2Móses kallaði saman allan Ísrael, og sagði: þér hafið séð allt það sem Drottinn gjörði yður ásjáandi í Egyptalandi, bæði við hann faraó sjálfan, hirðmenn hans og allt landið,3eg meina þær miklu plágur sem þú hefir séð með þínum eigin augum, þau miklu tákn og undur.4Samt hefir Drottinn allt til þessa dags ekki gefið yður réttskynjandi hjarta, eður augu til að sjá með, eða eyru til að heyra með;5hann leiddi yður fjörutíu ár í eyðimörku, yðar föt fyrndust ekki á yður, og yðar skór slitnuðu ekki á fótum yðar;6þér átuð ekki brauð, né drukkuð vín, eða nokkurn áfengan drykk, svo þú skyldir mega skynja að hann væri Drottinn þinn Guð,7þér komust hingað á þenna stað, þá lagði Síhon kóngurinn af Hesbon og Ógg kóngurinn af Basan á móts við oss til orrustu, en vér lögðum þá að velli,8tókum undir oss þeirra land, og skiptum því með Rúbenítum, Gaðítum og hálfri Manassis ættkvísl.
9Svo haldið þá þessi sáttmálans orð og breytið eftir þeim, svo þér getið orðið lánsamir í öllum yðar fyrirtækjum.10Þér standið í dag allir saman frammi fyrir Drottni, yðar Guði, höfuðsmenn yðar ættkvísla, yðrir öldungar, yðrir embættismenn og hvör maður í Ísrael,11yðar börn, yðar húsfreyjur, þeir útlendu, sem eru í þínum landtjöldum, þeir sem höggva við þinn og sækja vatn fyrir þig,12til að binda með eiði þann sáttmála sem Drottinn þinn Guð vill gjöra við yður í dag, til þess hann gjöri þig í dag að sinni þjóð,13og hann sé þinn Guð eins og hann hefir lofað þér, og eins og hann hefir svarið þínum forfeðrum Abraham, Ísaak og Jakob;14því eg bind þenna sáttmála og eið, ekki við yður einasta,15heldur bæði við yður sem hér eruð í dag og standið hér ásamt oss frammi fyrir Drottni vorum Guði, og líka við þá sem ekki eru hér í dag með oss, nefnil: við eftirkomendurnar.16Því þér munið eftir verunni okkar í Egyptalandi, og hvörnig vér komumst mitt í gegnum svo margar þjóðir sem yfir var að fara,17þér sáuð þeirra svívirðilegu guðsdýrkun og skúrgoð af tré og steinum, af gulli og silfri sem þeir höfðu hjá sér,18svo það má enginn vera meðal yðar, hvörki karl né kona, heimili eða ættkvísl, sem í dag snúi hjarta sínu frá Drottni vorum Guði, og gangi að dýrka goð þessar þjóða, á meðal yðar sé engin rót sem beri eitur eða malurt.
19Sé sá nokkur er heyrir viðlögur þessa svardaga, og þó hræsnar fyrir sínu eigin hjarta og segir: „mér skal líða vel, því eg vil ganga eftir minni eigin lyst svo eg geti drukkið við þorstanum“,20þá mun Drottinn ekki þyrma þvílíkum, heldur mun hans reiði og vandlæting dynja yfir þann mann, og allar þær óblessanir sem upptaldar eru í þessari bók skulu hlaðast á hann, og Drottinn mun afmá hans nafn undir himninum,21og hann mun taka hann út af úr öllum ættkvíslum Ísraels, til að gjöra honum allt það illt, sem óblessunarorð þess sáttmála sem er skrifaður í þessari lagabók, hljóða upp á.
22Þegar eftirkomendurnir, börn yðar, sem koma munu eftir yðar dag, og útlendir sem koma að úr fjarlægum löndum, sjá plágur lands þessa, og veikindi sem Drottinn slær það með,23þá munu þeir segja: hann hefir brennt land þetta allt með brennisteini og salti, svo þar verður ekki sáð, og ei getur þar neitt sprottið, eða nokkur urt komið upp úr jörðunni, en allt er umturnað eins og Sódóma og Gomorra, Adama og Seboim, sem Drottinn umturnaði í reiði sinni og hefndarbræði.24Þá munu allar þjóðir spyrja: hvað kemur til að Drottinn hefir farið svona með þetta land? hvörnig stendur á þessari hans miklu heiftarreiði?25Þá munu menn svara: það kemur af því, að þeir yfirgáfu sáttmálann sem Drottinn þeirra feðra Guð, gjörði við þá, þegar hann leiddi þá út úr Egyptalandi,26en gengu að dýrka annarlega guði sem þeir ekki þekktu til, og sem þeim aldrei voru ætlaðir *),27þess vegna hefir Drottinn orðið svo bráður við þetta land, að hann hefir látið koma yfir þá allar þær óblessanir sem eru tilnefndar í þessari bók,28og rekið þá burt úr þeirra landi í mikilli reiði, grimmd og bræði og fleygt þeim í framandi lönd, hvað svo stendur enn í dag.
29Leyndardómar eru fyrir Drottin vorn Guð, en hvað opinberað er tilheyrir oss og niðjum vorum ævinlega, svo að vér þess heldur breytum eftir öllum þessum lögmálsorðum.
Fimmta Mósebók 29. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:00:02+00:00
Fimmta Mósebók 29. kafli
Upphvatning til hlýðni.
*) Sjá kap. 4,19.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.