1Nú leiddi hann mig aftur að musteris dyrunum, og sjá! vatn nokkurt spratt upp undir þreskildi hússins mót austri, því framhlið musterisins vissi til austurs; þetta vatn féll í jörð niður hægramegin musterisins fyrir sunnan altarið.2Hann leiddi mig nú út af norðurportinu, og umkring að utanverðu til ytra portsins, sem horfir mót austri; þar til hægri handar vall vatnið upp aftur.3Maðurinn gekk nú austur með vatninu, hann hafði mælistreng í hendi sér, og mældi 1000 álnir, og lét mig þá ganga yfir um vatnið, og tók það mér í ökkla.4En mældi hann 1000 álnir, og lét mig þar ganga yfir um, tók vatnið mér þá til knés; þá mældi hann enn 1000 álnir, og lét mig fara yfir um, tók vatnið mér þar upp á mjaðmir.5Þá mældi hann enn 1000 álnir, var þá vatnið orðið að fljóti, svo eg mátti ei yfir það komast; þar var hyldýpi, eins og sundá eða óvætt fljót.6Hann sagði þá til mín: hefir þú séð þetta, þú mannsins son? leiddi hann mig þá aftur upp á fljótsbakkann.7Á leiðinni til baka sá eg mjög mörg tré á fljótsbökkunum beggjavegna.8Hann sagði til mín: þetta vatn rennur út á austurlandið, og þaðan ofan á sléttlendið, og fellur svo í hafið a), og þegar það er runnið í hafið, verður sjávarvatnið heilnæmt.9Allar lifandi skepnur, sem hræra sig, fá nýtt líf, allstaðar þar sem þessir vatnsstraumar koma, og fiskarnir verða mjög margir; því þar sem þessi vötn koma fram, verður sjávarlögurinn heilnæmur, og allt lifnar við, þar sem vatnsstraumurinn kemur.10Fiskimennirnir skulu standa við hafið frá En-Geddí og allt til En-Eglajim, og vera þar að breiða net sín; þar skulu finnast ýmislegar fiskategundir, og fiskifjöldinn skal vera stórmikill, eins og í Hafinu mikla b);11en pyttirnir og síkin þar hjá skulu ekki hafa heilnæmt vatn, heldur eru þeir ætlaðir til saltfengjar.12Með fram fljótinu á vatnsbökkunum beggja vegna skulu upp renna alls konar frjóvsamleg aldintré, þeirra laufblöð skulu ekki visna, þeirra ávöxtur ekki dvína, hvörn mánuð skulu þau bera nýjan ávöxt, því vötnin, sem þau lifa við, koma frá helgidóminum; þeirra ávöxtur skal gagna til fæðslu og laufblöðin til lækninga.
13Svo segir Drottinn alvaldur: þetta eru þau takmörk, eftir hvörjum þér skuluð skipta landinu til eignar á meðal Ísraels 12 ættkvísla. Jósepsætt skal hafa tvo hluti.14Þér skuluð taka landið í arf, jafnt hvör með öðrum; eg hét með uppréttri hendi að gefa það feðrum yðar, og því skal þetta land falla í yðar arf.15Þetta eru takmörk landsins: að norðanverðu, frá hafinu mikla, sem leið liggur til Ketlons, þaðan til Sedads,16Hamats, Berótu, Sibraims, sem liggur á landamerkjunum milli Dammaskusborgar og Hamats, og þaðan til Haser-Tíkóns, sem liggur við Havransland;17landamerkin skulu þá liggja frá hafinu til Hasar-Enons, og nyrsta takmark skal vera Dammaskusborg og Hamat. Þetta eru takmörkin að norðanverðu.18Að austanverðu skuluð þér mæla takmörkin milli Havrans, Dammaskusborgar, Gileaðs, gegnum Ísraelsland til Jórdanar, og allt til Austursjóarins c). Þetta eru landamerkin að austanverðu.19Suðurtakmarkið liggur frá Tamar til deiluvatnsins Kades, móts við dalinn og allt til Hafsins mikla. Þetta eru landamerkin að sunnanverðu.20Vesturtakmarkið er Mikla haf og þaðan þvert yfir frá, sem leið liggur til Hamats; þetta eru landamerkin að vestanverðu.
21Þessu landi skulu þér skipta meðal yðar, í milli ættkvísla Ísraelsmanna.22En þér skuluð skipta því með hlutföllum yður til eignar og þeim útlendu mönnum, sem búa meðal yðar og börn hafa átt hjá yður; þér skuluð álíta þá sem innfædda Ísraelsmenn, þeir skulu ganga til arfs með yður, jafnt og aðrar kynkvíslir Ísraelsmanna;23þér skuluð gefa hvörjum útlendum manni arfahluta í þeirri ættkvísl, sem hann býr í sem útlendingur, segir Drottinn alvaldur.
Esekíel 47. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:03:30+00:00
Esekíel 47. kafli
Um vatnsuppsprettu þess nýja musteris, 1–12; takmörk hins heilaga lands, 13–20; um arftöku útlendra manna, 21–23.
V. 8. a. Dauðahaf. V. 10. b. Miðjarðarhafinu. V. 18. c. Dauðahafs.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.