1Hann leiddi mig nú til baka að ytra helgidómsportinu, sem til austurs vissi, og var það læst.2Og Drottinn sagði til mín: þetta port skal vera læst og ekki upplúkast, og þar skal enginn maður inn ganga, því Drottinn, Guð Ísraels, hefir inn um það gengið; því skal það læst vera.3Þó má landshöfðinginn, af því hann er landshöfðingi, sitja þar inni, til að eta fórnarmáltíð frammi fyrir Drottni; Hann skal ganga inn um stólpagang portsins, og fara út aftur sama veg.
4Því næst leiddi hann mig að norðurportinu fyrir framan musterishúsið; eg sá þá, og sjá! dýrðin Drottins uppfyllti Drottins hús, og eg féll fram á mína ásjónu.5Þá sagði Drottinn til mín: þú mannsins son! legg þér á hjarta, sjá með augum þínum, og hlýð með eyrum þínum á allt það, sem eg segi þér um alla setninga Drottins húss, og um allar þess tilskipanir, og gæt vandlega að inngöngunni í musterishúsið, og öllum útgöngum úr helgidóminum.6Seg til þeirra þverúðarfullu, til Ísraelsmanna: Svo segir Drottinn alvaldur: þér Ísraelsmenn! látið yður nægja allar þær svívirðingar, sem þér hafið framið;7að þér hafið innleitt útlenda menn, óumskorna á hjarta og holdi, til þess að vera í mínum helgidómi, til þess að vanhelga mitt hús, meðan þér fórnfærðuð því, sem mér var ætlað til fórnar, feitinni og blóðinu; að þér hafið rofið minn sáttmála með öllum yðar svívirðingum;8að þér ekki hafið haldið tilskipanir míns helgidóms, heldur sett aðra eftir eigin geðþekkni, til að gæta þess, sem eg vil gæta láta í mínum helgidómi.9Svo segir Drottinn alvaldur: enginn útlendur maður, óumskorinn á hjarta og holdi, má inn í minn helgidóm koma, enginn af þeim útlendingum, sem búa meðal Ísraelsmanna.
10En þeir Levítar, sem fjarlægðu sig frá mér þegar Ísraelsmenn fóru villir vega, og fylgdu sínum afguðum, þeir skulu gjöld taka fyrir misgjörð sína;11þeir skulu vera þjónar í mínum helgidómi, halda vörð við musterishliðin og hafa annan starfa í húsinu, þeir skulu slátra brennifórninni, og öðrum fórnum fyrir fólkið, og standa frammi fyrir því, til að þjóna því.12Af því þeir þjónuðu fólkinu frammi fyrir afguðum þess, og urðu Ísraelsmönnum að fótakefli til hrösunar: þess vegna sver eg þeim með upplyftri hendi, segir Drottinn alvaldur, að þeir skulu taka gjöld fyrir misgjörð sína.13Þeir skulu ekki nálægja sig mér, til að vera mínir kennimenn, ekki nálægja sig nokkurum mínum helgidómi, og síst því allrahelgasta, heldur skulu þeir bera sína vanvirðu, og taka gjöld fyrir þær svívirðingar, sem þeir frömdu;14eg vil gjöra þá að húsvörðum í musterinu, og hafa þá þar til alls konar vinnu, og til alls þess, sem þar er að starfa.15En kennimenn af Levíætt, þeir Sadoksniðjar, sem hafa haldið skipanir míns helgidóms, þegar Ísraelsmenn villtust frá mér, þeir skulu standa frammi fyrir mér til að færa mér það feita og blóðið, segir Drottinn alvaldur;16þeir skulu ganga inn í minn helgidóm, þeir skulu nálægja sig mínu borði til að þjóna mér, þeir skulu gæta þess sem eg vil gæta láta.
17Þegar þeir ganga inn um það port hins innra forgarðs, skulu þeir íklæðast línklæðum; ekkert ullarklæði skulu þeir á sér bera, meðan þeir embætta fyrir innan port hins innra forgarðs eða inni í musterinu.18Þeir skulu hafa línmotra um höfuð sér, og línbrækur um lendar sínar, en girði sig ekki svo fast, að þeim verði erfitt.19En þegar þeir ganga út í ytra forgarðinn, þar sem fólkið er, þá skulu þeir fara af þeim klæðum, sem þeir embættuðu í, og leggja þau í hin heilögu herbergi, og fara í önnur klæði, að þeir ekki helgi fólkið a) í klæðum sínum.20Þeir skulu ekki raka höfuð sín, ekki heldur láta hárið vaxa sítt, heldur láta kringskera það.21Enginn kennimaður má vín drekka, þegar hann gengur inn í hinn innra forgarð.22Enga ekkju, né þá konu, sem við mann er skilin, mega þeir taka sér til eiginkonu, heldur skulu þeir kvongast einhvörri mey af ætt Ísraelsmanna, eða þá einhvörri ekkju eftir kennimann nokkurn.23Þeir skulu kenna mínu fólki að gjöra greinarmun á því sem er heilagt og óheilagt, hreint og óhreint.24Þegar eitthvört málefni kemur fyrir þá, skulu þeir vera reiðubúnir að úrskurða það; dæma skulu þeir eftir mínum lögum; þeir skulu gæta minna laga og tilskipana á öllum mínum hátíðum, og halda helga mína hvíldardaga.25Ekki má kennimaður koma að dauðs manns líki til að saurga sig, nema sé lík föður eða móður, sonar eða dóttur, bróður eða systur, sem ekki hefir gifst, á því megu þeir saurga sig;26telja skal honum sjö daga frá því að hann er hreinsaður,27og þann dag er hann gengur inn í helgidóminn í þeim innra forgarði, til að embætta í helgidóminum, skal hann frambera sína syndafórn, segir Drottinn alvaldur.28Arfleifð skulu þeir hafa: eg vil sjálfur vera þeirra arfleifð; ekki þurfið þér að ætla þeim neina fasteign í Ísraelslandi: eg vil sjálfur vera þeirra fasteign.29Þeir skulu hafa sitt uppheldi af matarfórnum, syndafórnum og sektafórnum; allt sem Drottni er helgað í Ísraelslandi, skal tilheyra þeim;30það besta af öllum frumgróða hvörs kyns sem er, allar upplyftingarfórnir, hvörs kyns sem eru og hvörju sem upplyft er, skal tilheyra kennimönnunum; það sem fyrst er bakað af yðar deigi skuluð þér gefa kennimanninum, svo að blessunin hvíli yfir þínu húsi.31Kennimenn megu ekkert sjálfdautt eta, eða það sem sundurrifið er af fuglum eða dýrum.
Esekíel 44. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:03:30+00:00
Esekíel 44. kafli
Um helgi austurportsins, 1–3; um inngöngu í musterið, 4–9; víti ótrúrra Levíta, 10–16; embættisskyldur kennimannanna, 17–31.
V. 19. a. Þ. e. að þeir ekki gangi út meðal fólksins í hátíðabúningi sínum, og glepji það í þess hvörsdagslegu sýslunum.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.