1Á þrítugasta árinu, þann fimmta dag hins fjórða mánaðar, þá eg var á meðal enna herteknu við fljótið Kabor, opnaðist himinninn, og eg sá guðlegar sjónir.2Þann fimmta dag þessa mánaðar (það var á fimmta ári, eftir það að Jójakín konungur var í herleiðingu burtfluttur),3þá kom orð Drottins til Esekíels, sonar Búsa kennimanns, hjá ánni Kabor í Kaldealandi; og hönd Drottins kom þar yfir hann.4Eg sá, og sjá! stormvindur kom frá norðri, og ský mikið, það var einlægur eldhnöttur, og stóð ofan af því bjarmi umhverfis, og mitt út af eldinum sást eitthvað, sem leit út eins og lýsigull.5Út af honum miðjum sýndist mynd fjögra lifandi skepna, sem tilsýndar líktust manni.6Hvör þeirra hafði fjórar ásjónur og fjóra vængi;7fætur þeirra voru keipréttir, og ilvegur þeirra, sem uxans, þeir voru glæfagrir, sem skyggður eirmálmur.8Undir vængjum þeirra voru mannshendur fjögra vegna, og hvör af þeim fjórum skepnum hafði sínar ásjónur og sína vængi.9Vængir þeirra náðu saman; þær sneru sér ekki við á ganginum, heldur gekk hvör beint af augum fram.10Ásjónur hvörra fjögra fyrir sig voru tilsýndar (í fyrir) sem mannsandlit, hægramegin sem ljóns, vinstramegin sem uxa, og (á bak) sem arnar.11Þannig voru ásjónur þeirra; en vængir þeirra voru ofan til útþandir, svo að vængur einnar snart væng annarrar; með hinum tveimur vængjunum huldu þær líkami sína.12Þær gengu hvör fyrir sig beint af augum fram; þær gengu þangað sem andinn laðaði þær, án þess að snúast við í göngunni.13Þær lifandi skepnur voru tilsýndar sem eldsglæður, og loguðu sem eldsskíði; eldurinn glossaði meðal þeirra, og skaut frá sér bjarma, því leiftur gekk út af eldinum,14og þær lifandi skepnur hlupu fram og aftur, eins og lofteldur.
15Þá eg virti þær lifandi skepnur betur fyrir mér, þá tók eg eftir, að eitt hjól stóð á jörðunni hjá þeim lifandi skepnum, og var þó sem fjögur hjól væri.16Hvað viðvíkur útliti og tilbúningi hjólanna, þá voru þau sem tópasgimsteinn á að sjá, og öll fjögur samlík, og sýndust vera svo tilbúin, eins og eitt hjól stæði mitt í öðru hjóli.17Þegar þau gengu, þá gengu þau til allra fjögra hliða, án þess að snúast við á ganginum.18Hjólbaugarnir voru ógurlega hávir, og rendur allra fjögra hjólanna umhverfis fullar af augum.19Þegar hinar lifandi skepnur gengu, þá gengu og hjólin hjá þeim; og þegar þær lifandi hófu sig frá jörðunni, hófu einnig hjólin sig;20þangað sem andinn laðaði þær, þangað gengu þær eftir laðan andans, og hjólin hófust upp ásamt með þeim, því andi hinna lifandi skepna var í hjólunum;21þegar þær gengu, gengu þau einnig: þegar þær stóðu, stóðu þau: þegar þær hófu sig frá jörðunni, hófu og hjólin sig: því andi enna lifandi skepna var í hjólunum.
22Uppi yfir höfðum enna lifandi skepna var því líkast, sem himinhvelfing væri, blikandi sem krystall, ógurlegur tilsýndar; hann þandist út uppi yfir höfðum þeirra.23Undir þessum himni stóðu vængir þeirra uppréttir, og tók hvör vængurinn annan; þar að auki höfðu þær tvo vængi hvör, er þær huldu með líkami sína til beggja hliða.24Eg heyrði þeirra vængjaþyt, hann var sem niður stórra vatnsfalla, sem raust hins almáttuga; þegar þær gengu, þá var það sem dynur af mannfjölda, sem gnýr í herbúðum. Þegar þær stóðu kyrrar, létu þær vængina síga;25og í hvört sinn sem raust heyrðist uppi á þeim himni, sem var yfir höfðum þeirra, þá stóðu þær kyrrar og létu niður vængi sína.26uppi á himninum yfir höfðum þeirra var að sjá sem saffírsteinn væri, í lögun sem veldisstóll, og þar uppi á veldisstólnum, sem svo sýndist, var mynd nokkur í mannslíki.27Sú mynd virtist mér því líkust, sem glóandi lýsigull væri, innanvert og umhverfis, þar neðan frá, sem mér þótti mittið vera, og upp eftir; en ofan frá því, sem mér þótti mittið vera, og niður eftir, þótti mér hún álits sem eldur, og bjarmi allt umhverfis.28Bjarminn umhverfis var tilsýndar líkur boga þeim, sem í skýinu stendur, þá regn er. Þessi sýn var ímynd Drottins dýrðar, og þá eg hafði séð sýnina, féll eg fram á mína ásjónu, og heyrði eina raust mæla.
Esekíel 1. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:03:15+00:00
Esekíel 1. kafli
Esekíel er veglega innvígður til hins spámannlega embættis. Guð vitrast honum í dýrðlegri sýn; hann sér fjórar furðulegar skepnur, sem voru kerúbar, (kap. 10,20), vagn með undarlega tilbúnum hjólum, og uppi á honum Guð í hásæti sínu.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.