1Á þriðja ári ríkis Beltsasars konungs, birtist mér Daníel sýn, eftir því sem mér hafði vitrast í fyrstunni.2Þegar eg sá þessa sýn, var eg í borginni Súsan í Elamshéraði, en þá sýnina bar fyrir mig, var eg staddur við fljótið Ulai.3Eg hóf upp mín augu, og leit hrút nokkurn standa fram við fljótið, hann var tvíhyrndur, og há hornin, og þó annað hærra en annað, og spratt hærra hornið síðar upp.4Eg sá hrútinn stanga hornum mót vestri, norðri og suðri; ekkert dýr gat við honum staðist, og enginn gat frelsað nokkurn undan valdi hans; hann gjörði hvað honum leist, og lét drembilega.5En sem eg gaf betur gætur að, sá eg að kjarnhafur nokkur kom vestan, hann leið yfir alla jörðina, án þess að koma við hana; og hafði sá kjarnhafur stórt horn meðal augnanna;6hann kom allt að tvíhyrnda hrútnum, sem eg sá standa fram við fljótið, og rann á hann í heiftaræði.7Eg sá, að þá hann nálgaðist hrútinn, illskaðist hann við hann og stangaði hann, braut bæði horn hans, svo hrúturinn mátti öngri vörn viðkoma; hann fleygði honum til jarðar og trað hann undir, og mátti enginn frelsa hrútinn undan valdi hans.8Kjarnhafur þessi lét mjög drembilega, en þegar því fór hæst fram, brotnaði hornið mikla, en í stað þess spratt upp eitthvað, sem fjögur horn væri, gegnt þeim fjórum höfuðáttum.9Út af einu þeirra spratt dálítið horn, sem vóx óðum móti suðri og austri, og móti því ágæta landi;10það vóx allt upp til himnanna hers, og varpaði nokkuru af hernum, það er stjörnunum, til jarðar, og tróð þær undir:11já, það vóx allt til höfðingja hersins, svo að hin daglega fórn var frá honum tekin, og hans helgidómsbústaður niður rifinn;12því fyrir misgjörða sakir var herinn og dagsfórnin seld á vald þess, það lagði sannleikann að velli, og hvað sem það gjörði, heppnaðist.13Þá heyrði eg einn heilagan tala, og þessi heilagi mælti til einhvörs, sem spurði: hvað á hún sér langan aldur, þessi sýn um hina daglegu fórn, um hina skæðu syndarefsingu, og um það að bæði helgidómurinn og herinn skuli seljast í hers hendur til niðurtroðslu?14Hann sagði til mín: það eru 2300 kvöld og morgnar, og þá mun helgidómurinn frelsaður verða.
15Þegar eg, Daníel, sá þessa sýn, fýsti mig að vita hvað hún hefði að þýða; og sjá! þá stóð einhvör hjá mér, ásýndar líkur manni;16og eg heyrði frá fljótinu Ulaj mannsraust, sem kallaði og sagði: Gabríel! útskýr þú sýnina fyrir þessum manni!17Hann gekk til mín, þar sem eg var staddur; og þá hann kom, varð eg óttasleginn og féll fram á mína ásjónu. En hann sagði til mín: gef gætur að, þú mannsins son! því þessi sýn viðkemur þeim síðustu tímum.18Þá hann talaði við mig, leið eg niður í ómegin til jarðar, fram á ásjónu mína; en hann snart mig, og reisti mig á fætur, svo eg stóð.19Síðan sagði hann: sjá! eg vil kunngjöra þér, hvað verða muni í þeim síðasta refsidómi; því vitranin viðkemur hinum síðustu tímum.20Hinn tvíhyrndi hrútur, sem þú sást, merkir konungana í Medíalandi og Persalandi;21hinn loðni kjarnhafur er Grikklandskonungur, og stóra hornið meðal augna hans er hinn fyrsti konungur.22En þar er hornið brotnaði, og spruttu upp aftur fjögur í þess stað, það merkir, að fjögur ríki munu hefjast af sömu þjóð, og þó ekki jafnvoldug sem hann var.23Undir endalok þessara konungsríkja, þegar mælir syndanna er fullur orðinn, mun konungur nokkur upp rísa, bæði ósvífinn og hrekkvís;24hans styrkur mun vaxa, og þó ekki af eigin þrótt; hann mun á furðulegan hátt öllu eyða, og happadrjúgur verða í því, sem hann tekst á hendur, hann mun ofureflismennina og mannafla enna heilögu við velli leggja.25Af kænsku sinni, og af því að vélabrögðin heppnast honum, mun hann eyðileggja, meðan þeir eiga sér einskis ótta vonir; hann mun upp rísa móti höfðingja höfðingjanna, en þó mun hann loks án manna tilverknaðar sundurbrotinn verða.26Þessi sýn um kvöldfórnina og morgunfórnina, sem um var talað, hún er sönn; en þú skalt leyna þeirri sýn, því hún á sér langan aldur.27Eg Daníel varð veikur og sjúkur nokkura stund; þegar eg komst á fætur aftur, þjónaði eg að erindum konungsins, en mjög var eg óttasleginn af þessari sýn, en þótt enginn yrði þess var.
Daníel 8. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:03:30+00:00
Daníel 8. kafli
Draumur Daníels um hrútinn og kjarnhafurinn.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.