1Antíokus sonur Demetríusar konungs skrifaði sendibréf frá eyjunum í hafinu til Símonar prests og þjóðhöfðingja Gyðinga, og til allrar þjóðarinnar.2Vóru bréfin skráð á þessa leið. „Antíokus konungur heilsar Símoni æðsta presti og þjóðhöfðingja, og Gyðingalýð!3Með því vondir menn hafa tekið undir sig ríki feðra vorra, og eg vil ná ríkinu aftur, til að koma því í sama lag og áður var, og hefi safnað fjölda liðs, og útbúið herskip;4og ætla að fara yfir landið til að finna þá, sem hafa gjört skaða í landi vóru, og þá, sem eyðilagt hafa margar borgir í ríkinu:5Þar fyrir staðfesti eg nú þér til handa öll þau léni, sem konungarnir á undan mér hafa veitt þér, og allar þær gjafir (kvaðir) sem þeir gáfu þér eftir.6Og eg gef þér leyfi til að láta búa til eigin mynt handa þínu landi;7en Jerúsalem og helgidómurinn skal vera frí, og þú skalt mega halda öllum herbúnaði, sem þú hefir aflað, og víggirðingunum, sem þú hefir byggt, og ræður yfir.8Og allar konungsskyldur, og konungstekjur hér eftir, séu þér eftirgefnar, frá því nú er, og um alla ókomna tíð.9En er vér höfum náð ríki voru, skulum vér sæma þig, og þjóð þína og musterið miklum heiðri, svo að dýrð yðar verði augljós í öllum heimi.“
10Árið 174 fór Antíokus inn í land feðra sinna, og allur herinn gekk honum á hönd, svo fáir urðu eftir hjá Tryfon.11Og Antíokus konungur ofsótti hann, svo hann flúði, og komst til Dóru sem liggur við hafið.12Því hann sá, að ógæfan var yfir hann dunin, þar eð herinn hafði yfirgefið hann.13Og Antíokus settist um Dóru, og með honum hundrað og tuttugu þúsundir stríðsmanna, og átta þúsund riddara.14Hann settist um borgina og skipin styrktu til sjávarmegin, þröngvaði hann borginni bæði af sjó og landi, og leið engum að fara út eða inn.15Nú kom Númeníus, og þeir sem með honum vóru, frá Rómaborg, höfðu þeir bréf til konunganna, og landstjóranna, er skrifuð vóru á þessa leið:16„Lúsíus ræðismaður Rómverja, heilsar Tólómeusi konungi!17Sendiherrar Gyðinga komu til vor, vinir vorir og bandamenn, til að endurnýja vináttu hina fornu, og liðssáttmálann, vóru þeir sendir af Símoni, æðsta presti, og Gyðingalýð.18Færðu þeir (oss) gullskjöld, sem vegur þúsund mínur.19Þar fyrir hefir oss þóknast, að skrifa konungunum og landstjórunum, að þeir sýni þeim engan ójöfnuð, né herji á þá eða borgir þeirra, eða land þeirra og að þeir hjálpi þeim ekki, sem herja á þá.20Því oss hefir þóknast að þiggja af þeim skjöldinn.21Hafi því einhvörjir illræðismenn flúið úr landi þeirra til yðar, þá skilið Símoni æðsta presti þeim, að hann straffi þá eftir þeirra lögum.“22Hið sama skrifaði hann Demetríusi konungi, og Attalusi, Aríaratesi og Arsakesi,23og til allra héraða, bæði Sampsama og Spartverja, og til Deleyjar og Myndus, og Sykíon og Karíu og Samus og Pamfyliu og Lykíu og Halkiarnassus, og Ródus og Faselis og Kó og Side og Aradus og Gortynu, og Knidus og Kyprus og Kyrene.24En afskrift af bréfunum sendu þeir Símoni æðsta presti.
25En Antíokus konungur sat um Dóru eftir sem áður, og dró að enn fleiri stríðsmenn, reisti hervirki, og króaði Tryfon, svo hann komst hvörki inn né út.26Og Símon sendi honum tvö þúsund útvaldra stríðsmanna til liðveislu, og silfur og gull og gnógt vopna.27En hann vildi ekki þiggja það, heldur brá hann öllu því, sem hann hafði samið við hann áður, og gjörðist honum fráhverfur;28og sendi til hans Atenabíus einn af vinum sínum, til að semja við hann, og skila þessu: þér hafið lagt undir yður Joppe og Gasara og Jerúsalemsvígi, (sem eru) borgir í ríki mínu.29Þér hafið eytt lönd þeirra, og unnið landinu stórtjón, og tekið yður vald yfir mörgum héröðum í mínu ríki.30Látið nú af hendi borgirnar sem þér hafið tekið, og skatta af héröðunum, sem þér hafið ráðið yfir fyrir utan Júdeu takmörk.31Eða greiðið, að öðrum kosti, fyrir þær fimm hundruð vættir silfurs, og fyrir skemmdirnar, sem þér hafið unnið, fyrir skattana af borgunum, aðrar fimm hundruð vættir; annarskostar munum vér koma og herja á yður.32Atenobíus konungs vinur kom nú til Jerúsalem, og þegar hann sá skraut Símonar, og borðið með gullkerunum og silfurkerunum, og nægum áhöldum a), þá gekk yfir hann; og hann flutti honum orðsending konungsins.33Símon svaraði honum og sagði: hvörki höfum vér tekið annarra land, né ásælst annarra eign, heldur (höfum vér tekið) arf feðra vorra, sem óvinir vorir héldu um hríð með órétti.34En þegar oss gafst færi á, tókum vér aftur föðurleifð vora.35En hvað kröfu þinni um Joppe og Gasara viðvíkur, þá hafa þær unnið landslýð vorum stórtjón, fyrir þær viljum vér samt gefa hundrað vættir; Atenobíus svaraði honum engu orði;36en fór burt reiður á konungsfund, og skýrði honum frá þessum ummælum, og frá skrauti Símonar, og öllu sem hann hafði séð, og varð konungur afar reiður.37En Tryfon steig á skip og flúði til Ortasíu.38Og kóngurinn gjörði Kendebeus að hershöfðingja yfir landinu við hafið, og fékk honum fótgöngulið og riddara.39Og bauð honum að fara herför móti Júdeu, og skipaði honum að byggja Kedron, og víggirða (borga)hliðin, og herja á lýðinn; en kóngurinn fór eftir Tryfon.40Kendebeus kom til Jamníu, og fór að egna fólkið upp, og vaða inn í Júdeu, og hertaka fólkið og deyða.41Hann byggði Kedron og setti þar riddara og fótgöngulið, að þeir skyldu taka sig upp þaðan og fara út á þjóðbrautir Júdeu, eins og kóngurinn hafði skipað.
Fyrsta Makkabeabók 15. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:05:51+00:00
Fyrsta Makkabeabók 15. kafli
Antíokus Demetríusarson kemst til ríkis, þröngvar Tryfoni, gjörir Símoni afarkosti.
V. 32. a. Og nægum áhöldum. Aðr: og hans miklu hirð.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.