Páll veitir nokkrum í Efesus Andans gáfur; kennir þar í tvö ár, og gjörir furðuverk. Særingamönnum er misþyrmt af djöfulóðum manni; margir snúa sér til kristni; þegar Páll ætlar til Grikklands, vekur Demetríus upphlaup.

1Það skeði meðan Appollós var í Korintu, að Páll, eftir ferð sína um Asíuupplönd, kom til Efesus, og hitti fyrir nokkra lærisveina, sem hann sagði við:2hafið þér meðtekið heilagan Anda þá þér urðuð trúaðir? þeir svöruðu: nei, við höfum ekki svo mikið sem heyrt, að heilagur Andi sé til.3Hann spurði þá: upp á hvað eruð þér þá skírðir? þeir sögðu: upp á Jóhannesar skírn e).4Páll ansaði: að vísu skírði Jóhannes með iðrunarskírn f), því hann sagði fólkinu að trúa á þann, sem eftir sig kæmi, það er á Jesúm Krist.5Þegar þeir heyrðu það, létu þeir sig skíra í nafni Drottins Jesú.6Og sem Páll hafði lagt hendur yfir þá, kom yfir þá heilagur Andi, svo þeir töluðu tungum og spáðu.7Alls voru þessir hér um bil tólf karlmenn að tölu.8Nú gekk hann í samkunduhúsið og kenndi einarðlega um þrjá mánuði og leiddi til sannfæringar um það, er viðvék Guðs ríki.9En er nokkrir settu sig í þverúð og létu ekki skipast, heldur hallmæltu lærdóminum í fólksins áheyrn, hætti hann við þá, skildi lærisveinana frá, og kenndi hvörn dag, í skóla eins manns, er Týrannus hét.10Þessu fór fram tvö ár, svo allir, sem bjuggu í Asíu, bæði Gyðingar og Grikkjar, heyrðu lærdóm Drottins;11einnin gjörði Guð óalmenn kraftaverk fyrir hendur Páls,12svo að jafnvel þegar sveitadúkar sem Páll bar næst sér, og fyriskyrtur a) voru lagðar yfir sjúka, þá yfirgáfu sjúkdómarnir þá, og illir andar gengu út af þeim.
13Þá tóku nokkrir umhlaupandi særingamenn Gyðingakyns sér fyrir, að nefna yfir þeim, er þjáðust af illum öndum, nafn Herrans Jesú, segjandi: eg særi ykkur við Jesúm, hvörn Páll prédikar.14Meðal þeirra, er þetta gjörðu, voru sjö synir Skevu, eins Gyðinga höfuðprests.15Þá svaraði hinn vondi andi: Jesúm þekki eg, og við Pál kannast eg, en hvörjir eruð þér?16Og maðurinn, sem sá vondi andi var í, flaug á þá, varð þeim yfirsterkari og lét þá finna til afl síns, svo að þeir flúðu naktir og særðir úr húsinu.17Þetta varð kunnugt öllum Gyðingum og Grikkjum, er bjuggu í Efesus, og ótta sló yfir alla, og nafn Drottins Jesú miklaðist.18Margir sem við trú höfðu tekið, komu nú, játuðust og sögðu frá athæfi b) sínu.19Líka komu margir, er farið höfðu með kukl, með bækur, og brenndu þær öllum ásjáandi. Verð þeirra var reiknað saman og var upphæð þess fimmtíu þúsund silfur peningar.20Orð Drottins vóx þanninn og efldist kröftuglega.
21Eftir að þetta var áorkað, setti Páll sér í huga að ferðast um Masedoníu og Akkeu til Jerúsalem og sagði: þegar eg er búinn að vera þar, ber mér að sjá Róm.22Nú sendi hann tvo, sem voru honum við hönd, Tímóteus og Erastus, til Masedoníu, en dvaldi sjálfur um tíma í Asíu.23Um það leyti reis ekki alllítill órói út af lærdóminum;24því silfursmiður nokkur, að nafni Demetríus, sem bjó til silfurmusteri c) Díönu, aflaði öðrum smiðum stórkostlegs ábata.25Þessa kallaði hann saman, og aðra, er unnu að þessháttar, og sagði: góðir menn! þér vitið að á þessu verki stendur okkar velmegan;26einninn sjáið þér og heyrið, að ekki einungis í Efesusborg heldur nær um gjörvalla Asíu, hefir Páll þessi talið trú um og fengið á sitt mál fjölda fólks, með því að segja, að það séu ekki Guðir, sem með höndum eru smíðaðir.27Nú horfir þetta ekki einungis iðn vorri til smánar, heldur einnig að musteri hinnar miklu Díönu verði einkisvirt, já, jafnvel að tign hennar gjöreyðist, hvörja öll Asía og jarðarkringlan dýrkar.28Þá þeir heyrðu þetta, urðu þeir afarreiðir, æptu upp og sögðu: mikil er Díana Efesusmanna!29Öll borgin varð nú uppvæg og allir æddu samhuga til sjónarplássins, hrifu með sér Masedónana, Kajus og Aritstarkus, förunauta Páls.30En er Páll vildi ganga fram í mannþröngina, leyfðu lærisveinarnir honum það ekki;31einninn sendu nokkrir Austurálfuhöfðingjar d), þeir eð voru honum vinveittir, honum boð, og réðu honum frá að koma á sjónarplássið.32Aðrir hrópuðu nú svo, en aðrir öðruvísi, því safnaðurinn var uppvægur, og fæstir vissu, hvörs vegna þeir voru þar saman komnir.33Nú var togaður fram úr mannþrönginni Alexander, hvörjum Gyðingar ýttu fram; hann bandaði með hendinni og vildi forsvara sig fyrir fólkinu.34En er þeir vissu að hann var Gyðingur, æptu allir upp einum munni og hrópuðu nærri tvær stundir: mikil er hún Díana í Efesus!35Loksins gat staðarskrifarinn stöðvað fólkið og mælti: Efesusmenn! hvör er sá, er ekki viti að Efesusborg geymir musteri hinnar miklu Díönu og það frá himni fallna bílæti.36Nú, þar þetta er ómótmælanlegt, svo ber yður að vera stilltum og ekki hrapa að neinu.37Þér hafið dregið þessa menn hingað, sem hvörki hafa rænt hofin, né lastað gyðju yðar.38Hafi Demetríus og smiðirnir, lagsmenn hans, kærumál móti nokkrum, þá eru þinghöld að fá og landstjórnarar til, eigist þeir lög við;39en sé þar annað ágreiningsefni ykkar á milli, sem þér hafið innbyrðis, svo má gjöra þar um á löglegri samkomu.40En oss er búin hætta að verða klagaðir fyrir þessa dags óróa, þar engin orsök verður borin fyrir, hvar með vér kunnum að afsaka slíkt upphlaup. Að svo mæltu lét hann mannsöfnuðinn skiljast að.

V. 3. e. Hlýðni við hans lærdóm, sjá Matt. 3,3.5.6.10.11. V. 4. f. Sem skuldbatt til lifnaðarbóta, Lúk. 3,10–14. V. 12. a. Þ. e. þvílíkar, sem handverksmenn hafa framan á sér til hlífðar. Páll var tjaldasmiður. V. 18. b. Þ. e. frá hjátrú sinni, að þeir höfðu farið til særingamanna og annarra kunnáttumanna. V. 24. c. Þ. e. lítil silfurhús, gjörð eftir goðahofinu í Efesus. V. 31. d. Austurálfuhöfðingjar (Asiarchei) kölluðust þeir sem höfðu umsjón yfir borgum og kostuðu gleðileiki þá sem haldnir voru afguðunum og keisurunum til heiðurs.