1Þá komu til hans margir tollheimtumenn og bersyndugir að heyra kenningu hans;2en farísear og skriftlærðir ömuðust við því, og spurðu, því hann tæki að sér bersynduga, og hefði samneyti við þá?3Þá sagði Jesús þeim þessa dæmisögu:4hvör er sá af yður er á hundrað sauði, og týnir einum af þeim, að hann ekki skilji þá níu og níutíu eftir í auðn, og fari að leita þess, er týndur var, þangað til hann finnur hann?5og þegar hann hefir fundið hann, leggur hann hann með gleði á herðar sér,6og nær hann er heim kominn, kallar hann saman vini sína og nágranna, og segir: gleðjist með mér, eg hefi minn sauð aftur fundið, sem eg týndi.7Trúið mér, meiri gleði mun á himni verða yfir einum syndugum, sem bætir ráð sitt, en yfir níutíu og níu réttlátum, er ekki þurfa endurbótar við.8Eður hvör er sú kona, sem á tíu peninga, og týni hún einum, að hún ekki kveiki ljós, sópi húsið og leiti vandlega til þess hún finnur hann?9Og þegar hún hefir fundið hann, kallar hún á vinkonur sínar og grannkonur, og segir: samgleðjist með mér! eg hefi minn pening aftur fundið, sem eg týndi.10Þannig munu englar Guðs gleðjast yfir einum syndugum, sem bætir ráð sitt.11Framvegis sagði hann: maður nokkur átti tvo sonu,12sá yngri þeirra sagði við föður sinn: lát mig fá þann hluta fjárins, sem mér ber; og hann skipti milli þeirra fénu.13Skömmu síðar tók sá yngri allt fé sitt og ferðaðist í fjarlægt land; þar sóaði hann fé sínu í óhófsömum lifnaði.14Nú er hann hafði eytt öllum eigum sínum, kom þar mikið hallæri í landið, tók hann þá að líða nauð,15fór hann þá og hélt sig til eins borgarmanns þar í byggðarlaginu, sem sendi hann út á bú sitt, að gæta þar svína sinna;16girntist hann þá að seðja sig af drafi því, er svínin átu; enginn var sá, er gæfi honum nokkuð.17Nú sá hann að sér og sagði: hvörsu marga daglaunamenn heldur faðir minn, sem hafa gnægð matar, en eg ferst í hungri;18eg vil taka mig upp og fara til föður míns, og segja við hann: Faðir! eg hefi misbrotið við Guð og þig,19og er ekki lengur verður að heita sonur þinn. Lát þú mig hafa árangur með einum af verkamönnum þínum.20Bjóst hann þá til ferðar til föður síns; en er hann var enn nú langt í burtu, þekkti faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann.21En sonurinn sagði við hann: Faðir minn! eg hefi misbrotið við Guð og þig, og er nú ekki framar verður að heita sonur þinn.22Þá sagði faðirinn við þjóna sína: færið hingað hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum;23komið með alikálf og slátrið, svo vér getum matast og verið glaðir;24því þessi sonur minn, sem var dauður, er lifnaður aftur, og hann, sem týndur var, er fundinn; tóku menn nú að gleðjast.25En svo bar við að eldri bróðir hans var á akri, og er hann kom og nálgaðist húsið, heyrði hann samsöng og dans;26kallaði hann þá á einn af þjónustumönnunum, og frétti hann, hvað um væri;27hann sagði: bróðir þinn er kominn, og faðir þinn hefir slátrað alikálfi, af því hann heimti son sinn heilan heim.28Reiddist hann þá og vildi ekki fara inn. Faðir hans fór því út og bauð honum inn að koma.29Hann sagði við föður sinn: í svo mörg ár hefi eg nú þjónað þér og aldrei breytt út af boðum þínum, þó hefir þú aldrei gefið mér kiðling, að eg mætti gleðjast með vinum mínum;30en þessi sonur þinn, sem sóað hefir aleigu sinni með skækjum, er nú kominn, og hans vegna slátrar þú alikálfi.31Hinn mælti: sonur minn! þú ert alltaf með mér og allar mínar eigur heyra þér til;32nú ættir þú að vera glaður og í góðu skapi, þar bróðir þinn, sem dauður var, er lifnaður aftur, og hann, sem týndur var, er fundinn.
Lúkasarguðspjall 15. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:04:22+00:00
Lúkasarguðspjall 15. kafli
Dæmisagan um þann týnda sauð; hinn missta pening og þann tapaða son.
V. 4–7. Matt. 8,12.14.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.