1Svo bar við einhvörn tíma, að hann kom á hvíldardegi í hús eins af höfðingjum faríseanna til máltíðar; höfðu þeir þá vörð á honum.2En frammi fyrir honum stóð maður nokkur vatnssjúkur.3Þá spurði Jesús þá skriftlærðu og faríseana, hvört leyfilegt væri að lækna á hvíldardegi, en þeir þögðu við.4Hrærði þá Jesús við honum, læknaði hann og lét hann burt fara.5Síðan sagði hann við þá: ef einhvör yðar á asna eða naut, sem fellur í pytt, dregur hann það ekki jafnskjótt upp, þótt hvíldardagur sé?6hvar til þeir gátu engu svarað.7Síðan sagði hann við þá, er til borðsins sátu, þegar hann sá, að þeir völdu sér æðstu sæti:8þegar einhvör býður þér til veislu, þá set þig ekki í hin æðstu sæti; vera kann að annar æðri þér sé boðinn,9og sá komi, sem bauð þér og honum, og segi við þig: gef þú þessum rúm, og hljótir þú þá með blygðun að hafa hinn ysta sess;10heldur, nær þér er boðið, þá set þig í hið ysta rúm, svo þegar sá kemur, sem þér bauð, segi hann við þig: vinur, þoka þér upp betur! nýtur þú þá virðingar af þínum sessunautum;11því að hvör sig sjálfan upphefur, hann mun niðurlægjast, og hvör sig sjálfan niðurlægir, hann mun upphafinn verða.
12Framvegis sagði hann við þann, er honum hafði boðið: þegar þú býður til miðdags- eður kvöldverðar, bjóð þú þá hvörki vinum þínum, bræðrum eður náungum, ekki heldur ríkum nágrönnum þínum, svo ekki bjóði þeir þér aftur, og njótir þú svo endurgjalds.13Heldur nær þú gjörir heimboð, svo bjóð þú fátækum, vönuðum, höltum og blindum,14og sæll ert þú þá, því þeir hafa ekki það, með hvörju þeir skuli endurgjalda þér; en það mun verða þér endurgoldið í upprisu réttlátra.15En er þetta heyrði einn af þeim, er til borðsins sátu, mælti hann: sæll er sá, sem situr til borðs í Guðs ríki.16Honum svaraði Jesús: maður nokkur bjó til mikla kvöldmáltíð og bauð þangað mörgum;17og þegar matmálstími var kominn, sendi hann þjón sinn að segja þeim til, er boðnir vóru, að þeir skyldu koma, því allt væri til reiðu; en þeir afsökuðu sig allir í einu hljóði.18Sá fyrsti sagði: eg hefi keypt mér akur, og er mér því nauðsyn á að fara og skoða hann; eg bið þig, afsaka mig.19Annar sagði: fimm pör akneyta keypta eg, fer eg nú út að reyna þau, eg bið þig, afsaka mig.20Sá þriðji sagði: konu hefi eg mér keypta, og get eg þess vegna ekki komið.21Þjóninn fór og kunngjörði húsbónda sínum allt þetta; þá reiddist húsbóndinn og sagði við þjón sinn: far þú snarlega út á stræti og götur borgarinnar, og fær þú hingað volaða, vanaða, halta og blinda.22Þjóninn sagði: eg hefi gjört það þú bauðst, Herra! en þar er enn nú meira rúm.23Þá sagði húsbóndinn við hann: far þú út á stigu og þjóðvegi, og þrýstu þeim svo fast að koma, að mitt hús verði fullt;24því eg segi yður, að enginn þeirra manna, er boðnir vóru, munu njóta minnar máltíðar.
25Honum varð samferða mikill fjöldi fólks; snerist hann þá við þeim og tók svo til orða:26ef sá er nokkur, sem til mín kemur, og metur ekki minna föður sinn og móður, konu, börn, bræður og systur, og jafnvel sitt eigið líf, hann kann ekki minn lærisveinn að vera;27og sá, sem ekki er fús að taka sinn kross á herðar og fylgja mér eftir, getur ekki minn lærisveinn verið.28Því hvör er sá af yður, sem vill byggja sér stórt hús, er ekki setjist fyrst niður og reikni kostnaðinn, hvört hann hafi það hann viðþarf,29svo að þegar hann er búinn að leggja grundvöllinn, en getur ekki fullkomnað bygginguna, þá skuli ekki allir, sem það sjá, gera gys að honum og segja:30maður þessi tók að byggja, en gat ekki fullkomnað bygginguna.31Eða hvör er sá konungur, sem byrjar að hefja stríð móti öðrum konungi, er ekki ráðslagi fyrst um, hvör hann með tíu þúsundum geti mætt þeim, sem hefir tuttugu þúsundir gegn honum!32Að öðrum kosti mun hann senda boðskap til hins, meðan hann er enn nú í fjarska, og leita friðar.33Þannig er því og varið með hvörn af yður, sem ekki yfirgefur allar eigur sínar, að hann ekki fær minn lærisveinn verið.34Saltið er gott, en missi það kraft sinn, með hvörju skal það þá selta?35það er þá hvörki á túnjörð, né til áburðar hæfilegt, heldur kasta menn því út. Hvör eyru hefir að heyra, hann heyri!
Lúkasarguðspjall 14. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:04:22+00:00
Lúkasarguðspjall 14. kafli
Jesús læknar vatnssjúkan; ræður frá því að metast um sæti; framsetur dæmisöguna um þá miklu kvöldmáltíð; talar um það, sem krefst af þeim, sem vilja verða hans lærisveinar, og við hvörju þeir megi búast.
V. 12. Sbr. Lúk. 6,32. ff. V. 13. Sbr. Matt. 6,2.5.16. V. 26. Matt. 10,37.38. V. 34. Matt. 5,13. Mark. 9,50.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.