1Síðan sneri Jesús aftur frá Jórdan, fullur af heilögum anda, og var leiddur af andanum út á eyðimörku;2og hér var hann í fjörutíu daga freistaður af djöflinum, og hafði í þá daga ekki til matar, og er þeir voru liðnir, tók hann loksins að hungra.3Þá sagði djöfullinn: ef að þú ert Guðs Sonur, þá bjóð þú, að steinn þessi verði að brauði.4Jesús svaraði: skrifað er, að maðurinn lifi ekki af brauði einusaman, heldur af hvörju því, er Guð vill.5þar eftir fór djöfullinn með hann upp á hátt fjall, og sýndi honum þaðan öll ríki jarðarinnar í einu augnabliki,6og sagði: allt þetta veldi mun eg gefa þér með öllum sínum blóma, því allt er mér það í vald gefið, svo eg get gefið það hvörjum, sem eg vill;7skal allt þetta vera þín eign, ef þú fellur fram og tilbiður mig.8Jesús svaraði, það er og skrifað: „Guð þinn skaltú tilbiðja, og hann einnsaman dýrka“.9Síðan færði djöfullinn hann til Jerúsalem, og setti hann upp á musterisburstina og mælti: ef að þú ert Guðs Sonur, þá lát fallast hér ofan fyrir,10því það er ritað: Guð mun bjóða englum sínum að gæta þín og bera þig á höndum sér,11að ekki steytir þú fót þinn við steini.12Jesús svaraði: það er og sagt, að eigi skaltú freista Drottins Guðs þíns.13Og er djöfullinn hafði lokið þessum freistingum, veik hann frá honum um hríð.
14Síðan sneri Jesús, styrktur Guðs Anda krafti, aftur til Galíleu, og orðstír hans barst út um öll nærliggjandi héröð;15hann kenndi í samkunduhúsum þeirra, svo allir prísuðu hann;16hann kom og til Nasaret, þar sem hann var uppalinn, og gekk á hvíldardeginum, eins og hann var vanur, í samkunduhúsið, og stóð upp til að lesa,17og var honum fengin spádómsbók Esaísar; en er hann fletti upp bókinni, varð fyrir honum sá staður, hvar þetta er skrifað:18„Andi Drottins er yfir mér, þar hann hefir vígt mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, sent mig til að boða herteknum lausn, blindum að þeir fái sýn sína aftur, láta þá þjökuðu lausa,19og að kunngjöra, að hið þóknanlega árið Drottins sé fyrir hendi“;20síðan lét hann aftur bókina, fékk þjóninum, og gekk til sætis, en allir, sem í samkunduhúsinu voru, störðu á hann;21hóf hann þá mál sitt á þessa leið: í dag er þessi spádómur framkominn, eins og þér eruð sjálfir vitni til.22Lofuðu hann þá allir, og dáðust að kenningu hans og blíðu málsnilli, en sögðu þó: er þessi ekki sonur Jóseps?23Þá sagði hann við þá: vissulega munuð þér heimfæra upp á mig máltækið: læknir! lækna þú sjálfan þig; vér höfum heyrt, hvað þú hefir aðhafst í Kapernaum; gjör þú nú hið sama hér á ættjörð þinni.24En—sagði hann framvegis—trúið mér til þess: að enginn spámaður er vel metinn á ættjörð sinni.25Eg segi yður það satt: að margar ekkjur voru meðal Ísraels fólks á dögum Elíasar spámanns, þegar ekki rigndi í þrjú ár og sex mánuði, svo mikið óár var í öllu landinu;26en til engrar þeirra var Elías sendur, nema til ekkjunnar í Sarefta hjá Sídón.27Margir voru og líkþráir meðal Ísraels manna á dögum Elíseusar spámanns, en enginn þeirra varð læknaður nema Naaman sýrlenski.28En er þeir, sem í samkunduhúsinu voru, heyrðu þetta, urðu þeir allir afar reiðir,29risu upp, hröktu hann út af borginni og leiddu hann upp á nípu fjalls þess, á hvörju borg þeirra var byggð og ætluðu að steypa honum þar ofan fyrir,30en hann gekk burt mitt á meðal þeirra, og fór þaðan.
31Héðan fór hann til Kapernaumborgar í Galíleulandi og kenndi þeim á hvíldardögunum,32og undruðust þeir kenningu hans; því hann talaði a) af myndugleika.33Í samkunduhúsinu var maður nokkur kvalinn óhreinum anda; hann kallaði hástöfum,34og sagði: æ, hvað þurfum við að eigast við? Jesú frá Nasaret! ertú kominn til að fyrirfara oss? eg veit hvör þú ert, Guðs hinn helgi.35En Jesús hastaði á hann, og sagði: þegi þú, og far þú út af honum; þá hreif djöfullinn hann og kastaði honum fram á meðal þeirra, yfirgaf hann og gjörði honum ekki mein.36Þetta undruðust allir næsta mjög, og sögðu hvör við annan: hvílík ræða er þetta, að hann skipar óhreinum öndum með myndugleika og valdi, og þeir fara?37Barst þá orðstír hans út um öll þau héröð, er í grennd voru.
38Úr samkunduhúsinu fór hann í hús Símónar; þar lá móðir konu Símónar mjög sjúk af köldu, og báðu þeir hann fyrir hana.39Fór hann þá til hennar, skipaði köldunni að hverfa burt, og hvarf hún þá frá henni; fór þá konan strax á fætur og þjónaði þeim.40Þegar sól var sest, færðu menn til hans alla þá sjúklinga, er haldnir voru af ýmislegum veikindum; lagði hann höndur yfir sérhvörn þeirra, og læknaði þá.41Djöflar fóru og út af mörgum, æptu og sögðu: þú ert Sonur Guðs; en hann bannaði þeim að tala, því þeir vissu, að hann var Kristur.42Strax er dagaði, fór hann út úr borginni í eyðistað nokkurn, en fólkið leitaði hans og fann hann, báðu þeir hann þá innilega, að hann ekki færi frá þeim;43en hann sagði: mér ber og að boða Guðs ríki í öðrum borgum; því til þess er eg sendur.44Fór hann síðan og kenndi í samkunduhúsunum í Galíleu.