1Svo segir Drottinn: sökum þriggja synda Móabsmanna hefi eg ásett mér að hegna þeim, en sökum hinnar fjórðu vil eg eigi láta hegninguna, því þeir brenndu bein Edomsmannakonungs að kalki (2 Kóng. 3, 27).2Þess vegna skal eg skjóta eldi á Móabsland, og hann skal eyða höllum Kirjotsborgar, og Móabsmenn skulu deyja í vopnagný, undir herópi og lúðragangi.3Eg skal afmá landstjórarann, og af lífi taka alla landsins höfðingja ásamt honum, segir Drottinn.
4Svo segir Drottinn: sökum þriggja synda Júdaríkismanna hefi eg ásett mér að hegna þeim, en sökum hinnar fjórðu vil eg eigi láta hegninguna undanganga, fyrir því að þeir hafa fyrirlitið lögmál Drottins og ekki gætt hans boðorða, heldur látið þann hégóma villa sig, er forfeður þeirra gengu eftir.5Þess vegna vil eg varpa eldi á Júdaland, og sá eldur skal eyða höllum Jerúsalemsborgar.
6Svo segir Drottinn: sökum þriggja synda Ísraelsmanna hefi eg ásett mér að hegna þeim, en sökum hinnar fjórðu skal eg eigi láta hegninguna undanganga; því þeir selja hinn saklausa fyrir silfur, og hinn fátæka fyrir eina skó.7Þeir fíkjast í lítinn jarðarblett, þó líf fátæks manns sé í veði, og halla rétti aumingjans; faðir og sonur ganga til sömu kvensniftar, til að vanhelga mitt heilaga nafn.8Þeir liggja á veðteknum klæðum hjá sérhvörjum goðastalla, og drekka vín sektaðra manna í goðahúsum sínum.9Og þó rudda eg Amorítum úr vegi þeirra, er svo voru hávir sem sedrustré, og svo sterkir sem eikitré; eg eyddi ávöxtum þeirra að ofanverðu, og rótum þeirra að neðan.10Eg færði yður út af Egyptalandi, leiðbeindi yður um 40 ár í eyðimörkinni, svo þér mættuð eignast Amorítaland;11eg uppvakti spámenn meðal sona yðvarra, og heitbræður (4 Mós. 6,2) meðal yðar æskumanna. Er þetta eigi svo, Ísraelsmenn? segir Drottinn.12En þér gáfuð heitbræðrunum vín að drekka, og buðuð spámönnunum og sögðuð, „þér megið ekki spá“.13Sjá, eg skal þrýsta yður niður, eins og sá vagn þrýstir, sem hlaðinn er kornkerfum;14sá, sem er léttur á sér, skal ekkert undanfæri hafa: sá, sem sterkur er, skal ekki fá neytt krafta sinna, og kappinn skal ekki forða mega fjörvi sínu;15bogmaðurinn skal ekki fá staðist, hinn fóthvati skal eigi fá undankomist, og riddarinn skal ekki mega bjarga lífi sínu:16hinn hugdjarfasti kappi skal á þeim degi nakinn í burtu flýja, segir Drottinn.
Amos 2. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:03:45+00:00
Amos 2. kafli
Amos boðar Móabsmönnum, Júdaríkismönnum og Ísraelsmönnum hegningu Guðs.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.