1Á sjöunda árinu, þann tíunda dag hins fimmta mánaðar, komu nokkurir af höfðingjum Ísraelsmanna til að aðspyrja Drottin, og settu sig niður frammi fyrir mér.2Þá talaði Drottinn til mín svolátandi orðum:3þú mannsins son, tala þú til forstjóra Ísraelsmanna, og seg til þeirra: Svo segir Drottinn alvaldur: eruð þér komnir til að aðspyrja mig? Svo sannarlega sem eg lifi, vil eg ei láta yður aðspyrja mig, segir Drottinn alvaldur.4Vanda þú um við þá, þú mannsins son, ávíta þú þá; leið þeim fyrir sjónir svívirðingar forfeðra þinna,5og seg þeim: Svo segir Drottinn alvaldur: þann dag er eg útvaldi Ísraelsfólk, eiðbatt sáttmála við afkomendur Jakobssona, gjörði mig þeim augljósan í Egyptalandi, og sór þeim með upplyftri hendi „eg em Drottinn, yðar Guð“;6þann sama dag er eg sór þeim með upplyftri hendi, að eg skyldi leiða þá út af Egyptalandi til þess landsins, sem eg hefði fyrirhugað þeim, sem flyti af mjólk og hunangi, og væri ágætast eitthvört allra landa:7þá sagða eg til þeirra: sérhvör yðar burtkasti þeim viðurstyggðum, sem verið hafa yðar augnagaman, og saurgið yður ekki á skurðgoðum Egyptalandsmanna; eg Drottinn er yðar Guð.8En þeir voru mér mótsnúnir, og vildu eigi hlýða mér; enginn þeirra burtkastaði þeim viðurstyggðum, sem voru þeirra augnagaman, og þeir yfirgáfu ekki afguði Egyptalandsmanna. Þá hét eg að útausa yfir þá minni heift, og láta mína gjörvalla reiði yfir þá koma mitt í Egyptalandi.9Þó gjörða eg það fyrir míns nafns sakir, svo það skyldi ei vanhelgað verða meðal þeirra heiðingja, hjá hvörjum þeir voru, og í hvörra augsýn eg hafði gjört mig þeim augljósan, að eg leiddi þá út af Egyptalandi.10Eg leiddi þá þess vegna út af Egyptalandi, og kom þeim inn í eyðimörkina.11Þá gaf eg þeim mín boðorð, og kunngjörði þeim mitt lögmál, sem hvör maður, er heldur, skal heill af hljóta.12Eg gaf þeim og mína hvíldardaga til merkis um það samband, sem var milli mín og þeirra, svo þar af mætti augljóst verða, að eg Drottinn er sá, sem þá heilaga gjörir.13En Ísraelsmenn voru mér mótsnúnir í eyðimörkinni, þeir lifðu ei eftir mínum boðorðum, heldur fyrirlitu mitt lögmál, sem hvör maður, er heldur, skal heill af hljóta; og mína hvíldardaga vanhelguðu þeir næsta mjög. Eg hét þá að útausa minni reiði yfir þá í eyðimörkinni, og gjöreyða þeim;14en eg gjörði það þó ekki, fyrir míns nafns sakir, svo það skyldi ei vanhelgað verða meðal heiðingjanna, í hvörra augsýn eg hafði útleitt þá.15Og jafnvel þó eg hefði svarið með uppréttri hendi í eyðimörkinni, að eg ekki skyldi leiða þá inn í það landið, sem eg hafði ætlað þeim, það land, sem flyti af mjólk og hunangi, og ágætast væri allra landa,16vegna þess þeir höfðu fyrirlitið mitt lögmál, ekki lifað eftir mínum boðorðum, vanhelgað mína hvíldardaga og hneigt hugi sína til afguðadýrkunar:17þá samt vægða eg þeim, svo eg tortýndi þeim ekki né gjöreyddi í eyðimörkinni.18Eg sagði þá við sonu þeirra í eyðimörkinni: breytið ekki eftir siðum feðra yðvarra, haldið ekki þeirra háttalagi, og saurgið yður ekki á þeirra skurðgoðum;19eg Drottinn er yðar Guð: lifið eftir mínum boðorðum, haldið mitt lögmál og breytið eftir því,20haldið heilagt mína hvíldardaga til merkis um það samband, sem er í milli mín og yðar, hvar af þekkjast skal, að eg Drottinn er yðar Guð.21En synirnir voru mér mótsnúnir, þeir lifðu ei eftir mínum boðorðum, skeyttu ei um að hegða sér eftir mínu lögmáli, sem hvör maður, er heldur það, skal þó heill af hljóta; og þeir vanhelguðu mína hvíldardaga.22Samt hefti eg hönd mína, og mat það meir, að mitt nafn skyldi ei verða vanhelgað meðal heiðingjanna, í hvörra augsýn eg hafði útleitt þá.23Eg sór þeim nú með uppréttri hendi í eyðimörkinni, að eg skyldi tvístra þeim meðal heiðingjanna og dreifa þeim út um löndin,24af því þeir höfðu ekki breytt eftir mínu lögmáli, heldur fyrirlitið mín boðorð, vanhelgað mína hvíldardaga, og sett hug sinn til afguða feðra sinna.25Nú lét eg þá taka upp þá siði, sem ekki voru góðir, og það háttalag, sem þeim varð til ógæfu:26eg lét þá saurga sig á fórnum sínum, þar sem þeir brenndu á báli alla frumburði sína, til þess þeim skyldi ofbjóða a), svo þeir yrði að kannast við, að eg em Drottinn.27Tala þú þess vegna til Ísraelsmanna, þú mannsins son, og seg þeim: Svo segir Drottinn alvaldur: hér á ofan hafa forfeður yðar smánað mig, og sýnt mér óhollustu í því, sem nú mun eg telja:28eg leiddi þá inn í það landið, sem eg með uppréttri hendi hafði heitið að gefa þeim; en ekki höfðu þeir fyrr komið auga á einhvörja háva hæð eða einhvörn lundinn, fyrr en þeir blótuðu þar blótum sínum, báru þar fórnir, sem mér voru andstyggilegar, létu þar sinn sætan ilm uppstíga, og dreyptu þar dreypifórnum sínum.29Eg sagði til þeirra: hvað eru þessar hæðir b), er þér gangið til? og þó heyrist ávallt nafnið „hæð“ allt til þessa dags.
30Þar fyrir seg þú til Ísraelsmanna: Svo segir Drottinn alvaldur: þér eruð saurgaðir allt eins og forfeður yðar, og fremjið eins andstyggilegan saurlifnað, og þeir gjörðu;31þér hafið saurgað yður á öllum yðar skurðgoðum allt til þessa dags, með því að færa þeim fórnir og brenna börn yðar á báli. Skyldi eg láta yður, Ísraelsmenn, aðspyrja mig? nei, svo sannarlega sem eg lifi, segir Drottinn alvaldur, vil eg ekki vera aðspurður af yður.32Ekki skal það heldur verða, sem yður hefir til hugar komið; þér hugsuðuð: vér viljum vera sem aðrar þjóðir, hafa á oss siði annarra landa, og tilbiðja stokka og steina.33Svo sannarlega sem eg lifi, segir Drottinn alvaldur, skal eg drottna yfir yður með öflugri hendi, með útréttum armlegg og með úthelltri heift:34eg skal útleiða yður frá þjóðunum; með öflugri hendi, útréttum armlegg og í úthelltri heift skal eg samansafna yður af þeim löndunum, sem þér eruð í dreifðir,35og færa yður út í eyðimörku þjóðanna, til þess að halda þar dóm yfir yður augliti til auglitis.36Eins og eg dæmdi forfeður yðar í Egyptalands eyðimörku, eins vil eg yður dæma, segir Drottinn alvaldur.37Eg skal færa yður undir hirtingarvöndinn, og þrengja yður í bönd sáttmálans;38en þá mótsnúnu og fráföllnu vil eg skilja frá yður; eg vil leiða þá út af því landi, hvar þeir búa í útlegð, en í Ísraelsland skulu þeir ekki koma, svo að þér skuluð viðurkenna, að eg em Drottinn.39Þér, Ísraelsmenn! Svo segir Drottinn alvaldur: fari nú hvör yðar, sem vill, og þjóni sínum afguðum eftirleiðis, fyrst enginn yðar vill hlýða mér, og vanhelgið ekki hér eftir mitt heilaga nafn með yðar fórnum og svívirðilegu blótum!40Því á mínu heilaga fjalli, á Ísraels háva fjalli (segir Drottinn alvaldur) skulu allir Ísraelsmenn, allir innbúar landsins, tilbiðja mig; þar skal eg hafa þóknun á þeim, þar skal eg þekkjast yðar upplyftingarfórnir og yðar frumgróða, ásamt með öllu því sem þér helgið mér;41þér skuluð vera mér velkomnir með yðar sæta fórnarilm, þegar eg hefi útleitt yður frá þjóðunum, og samansafnað yður úr þeim löndunum, sem þér eruð í dreifðir, og þá skal eg helgaður verða c) meðal yðar í augsýn heiðingjanna.42Þér skuluð viðurkenna að eg em Drottinn, þegar eg hefi innleitt yður í Ísraelsland, í það landið, sem eg með svardaga hét að gefa feðrum yðar.43Þar skuluð þér minnast yðar fyrri breytni, og allra yðar verka, með hvörjum þér saurguðuð yður, og yður skal bjóða við sjálfum yður sökum alls þess illa, sem þér hafið gjört.44Og þér, Ísraelsmenn, skuluð viðurkenna, að eg em Drottinn, þegar eg breyti við yður fyrir míns nafns sakir a), en ekki eftir yðar vondri breytni og illverkum, segir Drottinn alvaldur.
Esekíel 20. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:03:22+00:00
Esekíel 20. kafli
Esekíel talar skorinort móti afguðadýrkun Gyðinga og hræsni þeirra.
V. 26. a. Til þess þeir ræki sig á sjálfir, og fyndi, hvör munur var á þeirri sönnu guðsdýrkun og afguðadýrkuninni. V. 29. b. Í hvörju eru blótshæðirnar betri, en musteri Drottins? V. 41. c. Þ. e. vegsamaður og tilbeðinn, sem sá eini sanni Guð. V. 44. a. Þ. e. eftir minni miskunnsemi og trúfesti.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.