1Drottinn talaði til mín þessum orðum:2þú mannsins son, leiddu Jerúsalemsborg fyrir sjónir svívirðingar hennar,3og seg: Svo talar Drottinn alvaldur til Jerúsalemsborgar: að uppruna og ætterni ertu frá Kanaanslandi, faðir þinn var af Amorítum, og móðir þín af Hetítum b).4Það er að segja frá uppruna þínum, að þann dag sem þú fæddist, var ekki skorið á naflastreng þinn; Þú varst ekki lauguð í vatni, svo þú yrðir hrein, ekki núin með salti, og ekki reifum vafin.5Engin renndi til þín meðaumkvunarauga, til þess að veita þér nokkurt eitt af þessu eða kenna í brjósti um þig: sama daginn og þú fæddist, var þér kastað út á víðavang, af því ekki var hirt um að láta þig lifa.6Þá gekk eg framhjá þér, og sá þig blóðuga fyrir mannafótum; eg sagði til þín, þar sem þú lást í þínu blóði: þú skalt lifa! já, þar sem þú lást í þínu blóði, sagði eg til þín: þú skalt lifa!7Eg ásetti mér að gjöra þig að ættmóður svo margra þúsunda, sem grösin eru á akri; þú vóx upp, varðst mikil vexti og hin fegursta sýnum, brjóstamikil og hárprúð, en ber og nakin.8Eg gekk framhjá þér, leit þig, og sá, að þinn tími var ástarinnar tími; eg trúlofaðist þér, gjörði við þig eiðbundinn sáttmála, segir Drottinn alvaldur, og þú varðst mín.9Eg laugaði þig í vatni, þvoði af þér blóðið, og smurði þig með viðsmjöri;10eg færði þig í glitklæði, dró selskinnsskó á fætur þér, faldaði þér með hvítu líni, og fékk þér silkiskýlu.11Eg prýddi þig á allar lundir, spennti armbaugum um handleggi þína, og lét festi á háls þér;12eg lét á þig nasanisti, eyrnagull, og veglega kórónu á höfuð þér.13Þú varst nú prýdd gulli og silfri, skrýdd hvítu líni, silki og gliti; þú ást kökur tilbúnar af smæsta mjöli, hunangi og viðsmjöri; þú varst frábær að vænleik, og vel fallin til konunglegrar tignar;14og nú fór orð af þér til heiðinna þjóða sökum fegurðar þinnar, sem að öllu var samboðin því skarti sem eg hafði á þig látið, segir Drottinn alvaldur.
15En nú gjörðist þú skeytingarlaus, sökum fegurðar þinnar, tókst til að fremja saurlifnað, án þess að gæta sóma þíns, og sveifst ekki að drýgja hórdóm með hvörjum, sem framhjá gekk, hvör sem hann var.16Þú tókst nokkuð af klæðnaði þínum, og gjörðir þér blóthús með mislitum tjöldum, til að drýgja hórdóm í, hvað eð aldrei hafði fyrr orðið, og aldrei mun verða.17Þú tókst þær gersemar gulls og silfurs, sem eg hafði gefið þér til búningsbótar, og gjörðir þér karlmannslíkneskjur þar af og drýgðir hórdóm með þeim;18þú tókst þín glitklæði og lagðir yfir þær, og settir fyrir þær mitt viðsmjör og mitt reykelsi;19þau brauð af hveiti, viðsmjöri og hunangi, sem eg hafði gefið þér til fæðslu, lagðir þú fyrir þær til þægilegs fórnarilms; já, svo voru mikil brögð að þessu, segir Drottinn alvaldur,20að þú tókst syni þína og dætur, sem þú hafðir alið mér, og blótaðir þeim til fæðslu fyrir skurðgoðin. Var ekki saurlifnaður þinn nógur,21þó þú ekki þar á ofan slátraðir börnum mínum, og gæfir þau skurðgoðum, með því að brenna þau á báli þeim til heiðurs?22Í öllum þínum svívirðingum og saurlifnaði minntist þú ekki þinna barnæskudaga, þá þú varst ber og nakin, og lást blóðug fyrir mannafótum.23Ofan á allar slíkar ódáðir (vei þér, vei þér, segir Drottinn alvaldur)24byggðir þú þér porthús a) og hlóðst þér hörga á öllum torgum;25á öllum gatnamótum hlóðst þú þér hörga, og gjörðir fríðleik þinn viðbjóðslegan með því að glensast við hvörn, sem framhjá gekk, og margfalda þinn saurlifnað;26þú framdir hórdóm með nábúum þínum, þeim lauslátu Egyptalandsmönnum, og drýgðir margfaldan saurlifnað mér til móðgunar.27Þá útrétti eg mína hönd á móti þér, dró af þér matarskammt þinn, og seldi þig á vald óvina þinna, dætra Filisteanna, sem fyrirurðu sig fyrir þitt lastafulla athæfi.28Þú drýgðir hórdóm með Assyríumönnum, án þess að fá nægju þína; og þegar þú fékkst ekki nóg af saurlifnaði þínum við þá,29þá útbreiddir þú þínar hóranir til verslunarlandsins, Kaldealands, og enn nægði þér ekki.30Af hvílíkum girndarbruna plágaðist hjarta þitt, segir Drottinn alvaldur, þegar þú framdir allt slíkt athæfi, sem hin ósvífnasta skækja mundi fremja!31Þegar þú byggðir þér porthús á öllum gatnamótum, og hlóðst hörga á öllum torgum! þú varst ekki eins og sú skækja, sem er dýr á sér,32heldur sem sú hórkona, er tekur ókunnuga menn undir bónda sinn.33Öllum skækjum er vant að gefa kaupgjald; þú þar á móti gafst kaup öllum þínum fylgismönnum, og ginntir þá með gjöfum að þér úr öllum áttum, til þess þeir kæmi og fremdi hórdóm með þér.34Þinn saurlifnaður var öðruvísi, en annarra kvenna; menn hlupu ekki eftir þér til fylgjulags, heldur gafst þú gjafir en öngvar voru gefnar þér; svo fráleitt var þitt háttalag annarra.
35Þar fyrir heyr þú orð Drottins, þú hóra!36Svo segir Drottinn alvaldur: með því að þú jóst út fé þínu, og með þínum saurlifnaði beraðir blygðun þína fyrir þínum fylgimönnum og fyrir þínum andstyggilegu skurðgoðum, og blótaðir þeim blóði barna þinna:37þar fyrir þá skal eg samansafna öllum þínum ástmönnum, sem þú hefir haft samlag við, og öllum sem þér eru kærir, sem og öllum óvinum þínum; þeim skal eg safna saman að þér allt í kring um þig, og setja þeim fyrir augu þína svívirðing, svo þeir sjái hana eins og hún er.38Eg skal láta refsingardóm hórkvenna og morðkvenna yfir þig ganga, og ofurselja þig blóðugri hefnd uppvægrar vandlætingar:39eg skal selja þig í hendur þeim, og þeir skulu í eyði leggja þín porthús, niðurbrjóta þína hörga, færa þig af klæðum þínum, taka burtu skartsbúnað þinn, og láta þig sitja eftir bera og nakta;40þeir skulu gjöra að þér mannsöfnuð, grýta þig og sundurhöggva þig með sínum sverðum;41þeir skulu brenna þín hús í eldi, og framkvæma refsingardóminn á þér í augsýn margra kvenna. Þannig skal eg til vegar koma, að þú skalt láta af að vera hóra, og ekki framar leggja fé út til þess;42þá skal eg láta mína heift gegn þér enda taka, og mín vandlæting við þig skal hverfa; eg skal vera kyrr og ekki framar gremja geð mitt.43Af því þú hefir gleymt þínum barnæskudögum, og sýnt mér þvermóðsku með öllu þessu, þá skal eg líka láta þín verk þér í koll koma, segir Drottinn alvaldur, því þú getur ekki lengra fram farið þínum svívirðingum, en þú hefir gjört.
44Hvör sem málsháttu tíðkar, má vel hafa þann málshátt um þig, að mær er jafnan móður lík.45Þú ert dóttir móður þinnar, sem rak burt bónda sinn og börn sín; þú ert systir systra þinna, sem burtráku bændur sína og börn; yðar móðir var af Hetítum, og yðar faðir af Amorítum.46Stærri systir þín er Samaría með hennar dætrum, hún býr til vinstri handar þér; minni systir þín sem býr til hægri handar þér, er Sódóma með hennar dætrum.47Þó hefir þú ekki gengið þeirra götu, og ekki framið þeirra svívirðingar: nei, þér nægði það ekki, heldur hefir þú í öllu þínu háttalagi breytt verr enn þær.48Svo framarlega sem eg lifi, segir Drottinn alvaldur: Sódóma systir þín og hennar dætur hafa ekki gjört það sem þú og þínar dætur hafa gjört.49Synd Sódómu systur þinnar var ofdramb: hún og hennar dætur höfðu gnótt matar og fullan frið, en réttu þó ekki hinum fátæka og þurfamanninum hjálparhönd.50Þær voru drambsfullar, og frömdu svívirðingar fyrir augum mér; þegar eg sá það, svipta eg þeim í burt.51Samaría hefir ekki drýgt helminginn af þínum syndum; þú hefir framið miklu meiri svívirðingar, en systur þínar: já, þú hefir sýnt með öllum þeim svívirðingum, sem þú hefir framið, að þær eru betri, en þú.52Ber þú nú þess vegna sjálf þá smán, sem þú hefir sagt að makleg væri systrum þínum; með þínum syndum, sem eru enn viðurstyggilegri enn þeirra, hefir þú sannað, að þær eru hátíð hjá þér. Skammastu þín þá, og berðu þína smán, fyrst þú hefir orðið eftirbátur systra þinna!
53Samt skal eg aftur heimleiða þeirra herleidda fólk, bæði þá sem burtfluttir hafa verið frá Sódómu og hennar dætrum, og þá sem herleiddir hafa verið frá Samaríu og hennar dætrum, og ásamt með þeim þá sem frá þér hafa burtfluttir verið;54svo þú berir þína smán, og skammist þín fyrir allt það sem þú hefir gjört, þegar þú verður þeim til hugfróar a).55Sódóma systir þín og hennar dætur skulu aftur komast í sitt fyrra gengi, Samaría og hennar dætur skulu og aftur komast í sitt fyrra gengi, og þú og þínar dætur skuluð eins aftur komast í ykkar fyrra gengi;56og þó virtir þú þig þess ekki, að nefna Sódómu systur þína á nafn, á þínum ofdrambsdögum,57þegar þín vonska var enn ekki opinber orðin, í þann tíð er hneisan var komin yfir Sýrlandsdætur og allar grannkonur þeirra, dætur Filistanna, hvörjar eð nú líta á þig með spotti í krók og kring.58Þú verður nú að gjalda þinna lasta og svívirðinga, segir Drottinn.59Já, svo segir Drottinn alvaldur: það væri maklegast, að eg gjörði eins og þú hefir gjört, þú sem gekkst á eiðinn og raufst sáttmálið.60Ei að síður vil eg muna til þess sáttmála, sem eg gjörði við þig í æsku þinni, og binda við þig eilíft sáttmál;61muntu þá minnast á athæfi þitt, og blygðast, þegar þú tekur til þín eldri og yngri systur þínar, hvörjar eg mun gjöra að dætrum þínum, um það fram sem þinn sáttmáli stendur til.62Eg vil staðfesta mitt sáttmál við þig, svo þú skalt viðurkenna, að eg em Drottinn;63þú skalt minnast (á þinn fyrra lifnað), og skammast þín, og verða orðlaus af blygðun, þegar eg fyrirgef þér allt það sem þú hefir gjört, segir Drottinn alvaldur.
Esekíel 16. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:03:15+00:00
Esekíel 16. kafli
Esekíel lýsir í einni dæmisögu velgjörningum Guðs við Ísraelsmenn, 1–14; þeirra óþakklæti við hann aftur á móti, 15–34; Guðs réttvísu hegningu, 35–43; syndastærð þeirra spilltu Gyðinga, 44–52; miskunnsemi Guðs við þá, ef þeir bættu ráð sitt, 53–63.
V. 3. b. Þ. e. þú ert líkari því, að þú sért komin af kanverskum þjóðum, Amorítum og Hetítum, sem blótuðu skurðgoð, en af Abraham hinum trúfasta. V. 24. a. Skækjuhús þ. e. blóthús, því skurðgoðadýrkun kallar spámaðurinn hórdóm, skækjulifnað og saurlifnað, þar eð lauslætislifnaður var þráfalt samfara afguðadýrkun. V. 54. a. Með því að þú hefir orðið fyrir sömu hegningu og þær.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.