1Nú kallaði hann með hárri raust, að mér áheyranda, og sagði: lát þá fram koma, sem veita skulu heimsókn á borgina, og hafi hvör sitt drápsverkfæri í hendi!2Þá komu sex menn inn um efra norðurhliðið, og hafði hvör þeirra eyðileggingarverkfæri í hendi sér; og enn var á meðal þeirra einn maður, sem var líni klæddur, og hafði skriffæri við hlið sér; þeir gengu inn, og numu staðar við eiraltarið.3En dýrð Ísraels Guðs fluttist nú, hafin upp af þeim kerúbum, yfir hvörjum hún var, að dyraþröskuldi musterisins; þá kallaði hann á þann mann, sem var líni klæddur og hafði skriffærin við hlið sér:4Gakk, sagði Drottinn til hans, mitt í gegnum borgina, mitt í gegnum Jerúsalem, og set teikn á enni þeirra manna sem andvarpa og kveina yfir þeim margvíslegu svívirðingum, sem viðgangast innan borgar.5En til hinna mælti hann, mér áheyranda: gangið eftir honum gegnum borgina, og höggvið niður! engu skuluð þér vægja, og öngva meðaumkvun hafa!6Gamalmenum, ungmennum, meyjum, börnum, konum skuluð þér bana og eyða; en öngvan skuluð þér snerta af þeim, sem teiknið bera: og takið fyrst til á mínum helgidómi. Þeir byrjuðu því fyrst á þeim forstjórum, sem voru fyrir framan musterið.7Og enn sagði hann til þeirra: horfið ekki í að saurga musterið, og fyllið forgarðinn með mannabúkum; gangið nú út. Þeir gengu þá út, og hjuggu niður mannfólkið í borginni.
8Meðan á mannslaginu stóð, var eg einn eftir orðinn; féll eg þá fram á mína ásjónu, kallaði og sagði: alvaldi Drottinn, viltu þá gjöreyða öllum eftirleifum Ísraels, þar sem þú úteyss þinni reiði yfir Jerúsalem?9Hann svaraði mér: misgjörð Ísraelsmanna og Júdafólks er helst til stór, landið er uppfyllt af blóði, og borgin af ranglæti; því þeir segja: Drottinn hefir yfirgefið landið, Drottinn sér oss ekki.10Þess vegna skal eg ekki heldur vægja, og enga meðaumkvun hafa; eg læt athæfi þeirra koma þeim sjálfum í koll niður.11Þá kom sá línklæddi maður, sem hafði skriffærin við hlið sér, aftur, og sagði: eg hefi gjört eins og þú bauðst mér.
Esekíel 9. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:03:15+00:00
Esekíel 9. kafli
Guð lætur refsa þeim óguðlegu innbúum Jerúsalemsborgar með sverði, en þeim, sem betur voru viljaðir, er hlíft; dýrðin Drottins býr sig til að yfirgefa það vanhelgaða musteri, 1–7; Esekíel biður borgarmönnunum vægðar, en það tjáir ekki, 8–11.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.